Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 13:59:32 (1498)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það að þakka fyrir að þessi tillaga er flutt. Ég held þó að menn verði að muna eftir því að það eru mörg stórmál á ferðinni í sambandi við orkuverð í landinu núna. Þó þessi athugun fari fram verða kannski ekki straumhvörf í þeim málum. Það er forvitnilegt að vita hvort þeir sem flytja tillöguna muni styðja við bakið á ríkisstjórninni við þá ákvörðun hennar að taka 2% arð frá Rafmagnsveitum ríkisins sem mun þýða verulega hækkun raforkuverðs hjá þeim notendum sem þar eiga hlut að máli.
    Það sem snýr að Landsvirkjun í þessu máli er vissulega umræðuvert og full ástæða til að þau mál komi til umræðu á þinginu. Afstaða Landsvirkjunar til mismunandi notenda sem eiga við hana viðskipti er undarleg og sá munur sem virðist vera á þegar fjallað er annars vegar um langtímasamninga við orkufyrirtæki og hins vegar um samninga við rafmagnsveiturnar í landinu og almenning þar af leiðandi. Það er t.d. sjálfsagt mál að skoða upp á nýtt
orkusölusamninga við Járnblendifélagið þegar það á í erfiðleikum en það er ekki jafnsjálfsagt mál að skoða upp á nýtt verðlagningu á raforku til iðnaðarins í landinu eða atvinnulífsins yfirleitt eða almennings.
    Þarna þarf að verða breyting á. Það má ekki verða framtíðarmúsik í stjórn þessa fyrirtækis að það sé ævinlega hægt að bjarga sér á því að skrá upp á nýtt orkusölutaxtana til almennings í landinu og atvinnulífsins þegar þarf að ná markmiðum Landsvirkjunar. Eða þegar menn þurfa að bjarga sér upp úr ævintýramennsku í fjárfestingum sem hefur því miður verið á ferðinni á þeim bæ.
    Það þætti ábyggilega ekki til fyrirmyndar hjá einkaaðilum í landinu að hafa fjárfest svo mikið sem Landsvirkjun hefur gert í veikri von um að fá samninga við einhverja erlenda aðila um sölu á viðkomandi framleiðslu. En þarna sitjum við uppi með eina af stærstu fjárfestingarvitleysunum sem við höfum í dag.
    Ég tel fulla ástæðu til að fara að ráðum flm. tillögunnar um að láta skoða þessi mál. Mér finnst að grundvöllurinn fyrir þeirri skoðun eigi að vera sá að það sé meining stjórnvalda í landinu að tryggja fólkinu í landinu sambærilegan aðgang að raforku á svipuðu verði. Og það eigi að haldast í hendur við almenna stefnu stjórnvalda sem á að vera sú að bjóða fólkinu í landinu upp á eins sambærileg lífsskilyrði og mögulegt er. Stærstu þættirnir í grunnframfærslunni eru t.d. rafmagnsverð, húshitun, vöruverð, aðgangur að menntun og heilbrigðisþjónustu og þetta er bara einn þátturinn í því. Ég tel fulla ástæðu til að menn skoði þau mál vel.
    Gagnvart atvinnulífinu þarf auðvitað að vera uppi svipuð stefna, þ.e. að reyna að skapa atvinnulífinu sambærilega möguleika í aðgangi að orku og sambærilega möguleika líka í samkeppninni við erlenda aðila. Það hafa verið settar fram sannfærandi upplýsingar um að hér sé, þótt ótrúlegt megi virðast, orka verulega dýr, að þrátt fyrir að við eigum mikið af ódýrri orku séum við jafnvel að láta fyrirtækin í landinu borga hærra verð fyrir hana en sambærileg fyrirtæki í löndunum í kringum okkur sem eru jafnvel að framleiða orku með, að maður hélt a.m.k., dýrum aðferðum, svo sem með gasi eða kolabrennslu.
    Mig langar að koma aðeins aftur að þessu atriði sem ég nefndi áðan, þ.e. þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að láta Rafmagnsveitur ríkisins greiða 2% arð af sínu eigin fé. Þar finnst mér vera á ferðinni alveg forkastanleg ákvörðun og er þá vægt til orða tekið. Mér finnst það lýsa fádæma skilningsleysi

á högum landsmanna. Þetta fyrirtæki dreifir raforku til að vísu stórs hluta af landinu en þó ekki nærri alls landsins og þetta mun þýða verulega hækkun á orkuverðinu. Áhrif breytinganna eru að mati Rafmagnsveitna ríkisins eins og segir í greinargerð frá þeim, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórn Íslands hefur til athugunar að leggja á Rafmagnsveitur ríkisins`` --- þ.e. hún hefur það ekki til athugunar. Það er búið að taka um þetta ákvörðun að því ég best veit --- ,,að leggja 2% arð, eignarskatt, til ríkissjóðs. Eigið fé fyrirtækisins samkvæmt ársreikningi fyrir árið 1991 er 11.095 millj. kr. Ef álagning eignarskattsins kæmi til framkvæmda á þessu ári yrði kostnaðarauki fyrirtækisins 224 millj. kr. Eins og sakir standa er fyrirtækið alls ekki í stakk búið til að mæta þessum aukakostnaði og yrði að velta honum alfarið yfir á viðskiptavini sína. Það hefði í för með sér 8--10% meðaltalshækkun á öllum smásölutöxtum Rafmagnsveitnanna. Rétt þykir að benda sérstaklega á að þessi skattur mundi leggjast á Rafmagnsveiturnar eitt allra orkufyrirtækja í landinu. Slíkt hefði afar óheillavænleg áhrif á samanburð orkuveitna og samkeppnisaðstöðu Rafmagnsveitnanna gagnvart öðrum orkugjöfum jafnframt því sem þetta mundi einvörðungu bitna á viðskiptavinum Rafmagnsveitnanna sem yrði síst til þess fallið að jafna orkureikning landsmanna.``
    Tíma mínum er því miður að ljúka og þess vegna get ég ekki talað um það sem ég ætlaði að segja til viðbótar og lýk máli mínu.