Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 14:17:26 (1501)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Jöfnun orkuverðs er eitt þeirra mála sem allir þingflokkar hafa verið sammála um og haft á stefnuskrá sinni, enda veldur ójafn hitakostnaður meiri mismun á framfærslukostnað heimila eftir búsetu en nokkuð annað. Því má einskis láta ófreistað til að ná því markmiði að jafna orkukostnað almennt. Því ber að þakka hv. flm. þáltill. Í tillögunni er eiginlega meginmarkmiðið að lengja þau göfugu markmið sem Landsvirkjun hafði, að verða skuldlaus um aldamót. Nú kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að þegar er búið að lengja þetta tímabil og það orðið 25 ár, en ég verð að segja að það væri aldeilis glæsilegt ef undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar gætu einhvern tímann leyft sér að hafa slík markmið að vera skuldlausar eftir 10 ár, 15 ár eða jafnvel 20 ár. Þess vegna segi ég það að þessi þjónustufyrirtæki undirstöðuatvinnugreinanna og heimilanna í landinu verða auðvitað að taka mið og mark af þeim sem kaupa af þeim þjónustuna. Það er því gott að hreyfa þessu máli svo langt sem það nær.
    En það sem veldur auðvitað áhyggjum hjá neytendum í dag er að nú á að fara að skattleggja orkufyrirtæki miklu meira en nokkurn tímann hefur verið gert, auk þess að taka 2% arð frá rafmagnsveitunum. Þetta mun auðvitað verða til þess að orkuverð hækkar. Það getur ekki leitt til neins annars. Það er það sem við stöndum frammi fyrir í dag. Þó svo þessi markmið Landsvirkjunar verði öll endurskoðuð þá stöndum við frammi fyrir stórhækkuðu orkuverði og miklu meiri ójöfnuði en við höfum áður séð ef ekki verður horft fram hjá þeim tillögum sem ríkisstjórnin er með í fjárlagafrv.