Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 14:19:55 (1502)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér í umræðuna um þáltill. en geri það þó að gefnu tilefni vegna ræðu sem hv. þm. Páll Pétursson flutti með ákveðnum sendingum. Ég vil þó nefna það í sambandi við tillöguna sem hér liggur fyrir um verðlagningu raforku að það er út af fyrir sig góðra gjalda vert að láta fara fram athugun á málum og getur átt fullan rétt á sér en ég hefði viljað sjá skarpari tillöguflutning af hálfu hv. fyrra flm. þessa máls. Satt að segja er það auðvitað allt annað en athugun sem þarf til að koma. Þær liggja raunar fyrir og það þurfa engar athuganir fram að fara til þess að tekið verði á þeim ójöfnuði sem viðgengst í sambandi við verðlagningu á raforku frá mismunandi orkufyrirtækjum í landinu og þeim mikla mismun sem er sérstaklega á húshitunarkostnaði. Það er öðru fremur það sem brennur á landsmönnum. Það ber því miður vott af sýndarmennsku að hv. stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar skuli flytja mál með þessum hætti inn í þingið. Ekki vil ég vanvirða það við hv. flm. þó þeir reyni með þessum hætti að hreyfa við ríkisstjórninni sem þeir styðja í sambandi við þetta mál. En það er þar sem á skortir að tekið sé á málum með þeim hætti sem óskir standa til og hefur raunar oft komið fram á hv. Alþingi og liggja fyrir beinar tillögur eins og frá hv. þm. Jóni Helgasyni um lækkun húshitunarkostnað sem er annað þingmál.
    Ég vildi því hvetja flm. til þess að taka sig betur á næst þegar þeir hreyfa máli af þessu tagi. Ég held að fleiri stjórnarliðar séu að koma með mál af svipuðum toga. Ef þingmenn Sjálfstfl. sem eru að flytja mál varðandi raforkuverðið leggðu saman fengju þeir kannski einhverju um þokað gagnvart Alþfl. í ríkisstjórn í þessu máli og fjmrh. sem auðvitað þarf til að koma ásamt ríkisstjórninni í heild.
    Þetta varðaði efni þáltill.
    Svo er það þáttur hv. þm. Páls Péturssonar í umræðunni þar sem hann ræddi fjárfestingarmistök liðins tíma og nefndi í því sambandi Blönduvirkjun, með að vísu mjög kunnuglegum hætti vegna þess að ég þekki viðhorf hv. þm. bæði fyrr og síðar til þess máls. Þessi saga er ákveðinn hnútur í viðhorfum, ég gæti kannski orðað það svo í heilabúi hv. þm., og kom vissulega fram þegar verið var að takast á um virkjunarmál fyrir áratug síðan og rösklega það og mætti skrifa um það talsvert mál ef ætti að fara að rifja þá sögu upp eins og hún gekk fyrir sig.
    Ég vil aðeins nefna það til upprifjunar fyrir þingheim og þá hv. þm. sem ekki voru á Alþingi þá og ekki þátttakendur í þessum ákvörðunum og ályktunum þingsins að á þessum árum sat ríkisstjórn sem hv. 1. þm. Norðurl. v. studdi. Það var ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. Hún tók það upp í málefnasamning að næstu stórvirkjun hérlendis skyldi valin staður utan eldvirkra svæða. Það var leiðsögnin og að því var unnið að koma því máli í höfn og ná fram ákvörðun þar að lútandi að næsta stórvirkjun yrði valin utan þess sem þá var eðlilega kallað landsvirkjunarsvæðið vegna þess að lög um Landsvirkjun kváðu á um það 1981 að hún hefði virkjunarrétt í Þjórsá og Tungnaá. Það var hið eiginlega landsvirkjunarsvæði en önnur svæði á landinu lágu þar utan við. Þessu var breytt með lögum um raforkuverð vorið 1981 og vorið 1982 var samþykkt þál. varðandi virkjanaröð. Það er alveg rétt að hv. 1. þm. Norðurl. v. var andstæðingur þeirra ákvarðana, ef ég man það rétt, en það var einnig tekið tillit til sjónarmiða sem hann bar fram í sambandi

við virkjanir með vissum hætti. Önnur virkjun var þar á blaði frá Norðurlandi vestra, Villinganesvirkjun.
    Ég vil jafnframt rifja það upp að af þeirri ríkisstjórn sem þá sat var tekin ákvörðun um að verja nálægt 400 gwst. af raforku til iðnaðaruppbyggingar á Austurlandi, svonefndrar kísilmálmverksmiðju. Lög um hana voru sett á Alþingi vorið 1982. Áformin um þessa verksmiðju voru jörðuð af ríkisstjórninni sem tók við 1983 eða breytt um stefnu og áformin enduðu síðan úti í buska 1986 eða 1987 þegar endanlega var frá því horfið að reisa þetta fyrirtæki en því hafði þá verið vísað í hendur útlendinga að taka í ákvarðanir og hafa ráðin í þeim efnum af þáverandi ríkisstjórn.
    Kannski skiptir þetta einhverju máli þegar verið er að tala um ákvarðanir á þessum tíma. Það ber líka að hafa í huga að orkuspá á þeim tíma var önnur en kom fram 1985 þegar hún var endurskoðuð og lækkuð til mikilla muna í ljósi reynslu og þeirra horfa sem þá blöstu við og breyttu einnig myndinni. Þegar ákvörðun var tekin um Blönduvirkjun á þessum tíma var hún talin miðlungsstór virkjun sem væri hagkvæm óháð hugmyndum um orkusölu til stóriðju. Það geta menn lesið sér til um í þeim fjölmörgum málsgögnum sem lágu fyrir þinginu um þessi efni að ákvörðun um Blönduvirkjun var tekin óháð uppbyggingu stóriðju í landinu. Hún var einnig studd mjög eindregið af Landsvirkjun, andstætt því sem hv. flm. var að halda fram í sínu máli, að það yrði einmitt ráðist í þessa virkjun og Orkustofnun og fleiri stofnanir stóðu þar að baki. Hv. þm. var að reyna að draga upp allt aðra og ranga mynd af viðhorfi stjórnar og forráðamanna Landsvirkjunar á þessum árum. Það var ekki svo að það væri eitthvert hik á Landsvirkjun að þessu leyti. Ó nei. Þeirra krafa á árinu 1981 og 1982 var ekki aðeins um það að virkjun á borð við Blönduvirkjun yrði ákveðin og í hana ráðist þá þegar heldur var talin þörf á því af stjórnarformanni Landsvirkjunar á þessum tíma að skjóta þar inn á milli annarri virkjun. Annarri virkjun sem kæmi í gagnið 1985, Búrfellsvirkjun II.
    Þannig lágu málin að mati stjórnar Landsvirkjunar á þessum tíma og embættismanna, og það er vert að menn hafi þetta í huga þegar hlýtt er á söguskýringar hv. þm. Páls Péturssonar.