Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 14:28:28 (1503)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig ekkert undarlegt að þingmenn flytji fjölmargar tillögur um raforkumál, svo mikilvæg er raforkan í okkar þjóðarbúi. Ég get tekið undir það sem segir í þeirri tillögu sem hér er til umræðu.
    En hitt vildi ég gera að umræðuefni að líklega er Landsvirkjun það afturhaldsamasta fyrirtæki sem til er í þjóðfélaginu. Ég man varla nokkur tilfelli að ekki hafi orðið að setjast á forustumenn Landsvirkjunar til að breyta fyrri ákvörðunum um of mikla hækkun raforkuverðs, sem var ekki í takt við það sem almennt var í þjóðfélaginu, eða til þess að lækka raforkuverð til fiskeldis, svo ég nefni dæmi. Hér var flutt tillaga sem við vorum að afgreiða til nefndar um að selja raforku til skipa.
    Það er merkilegt að það skuli þurfa að flytja slíkar tillögur á hinu háa Alþingi. Hvar eru þessir markaðspostular sem tala stöðugt um að markaðssetja allan fjárann og með hæstv. höfuðpaurinn, hæstv. viðskrh., í broddi fylkingar? Af hverju er ekki reynt að markaðssetja þá orku sem er til svona langt umfram það sem við þurfum? Af hverju fara þeir ekki út á mörkina og reyna að selja þessa raforku til skipa? Er það ekki nákvæmlega það sem menn eru að tala um? Af hverju eru ekki settir menn í það að rannsaka hvort það er hægt að nota þessa raforku, t.d. í fiskimjölsverksmiðjurnar, svo ég nefni bara eitthvert dæmi? Það eru fjölmörg dæmi um það að unnt er að nota raforkuna. Það hlýtur að borga sig. Virkjunin er þar, vatnið rennur í gegnum virkjunina, línurnar eru þar, dreifikerfið er þar. Það hlýtur að vera hagkvæmt að nota þessa virkjun, nota dreifikerfið og selja raforkuna til fjölmargra þarfa sem mætti flytja langa ræðu um. En staðreyndin er sú að þarna hafa ekki orðið breytingar í toppliði frá stofnun og áreiðanlega á það nokkra sök á því hvað þarna er mikil stöðnun. Þetta er gott dæmi um það sem ekki á að gerast í svo mikilvægu og stóru fyrirtæki sem Landsvirkjun.
    Ég ætla ekki að flytja langa ræðu um þetta þótt gaman væri að ræða um fjölþætta notkun raforkunnar. Ég ætla þó að geta þess að mér var sagt af einum ágætum manni sem settist niður og reiknaði það út að ef við leggjum kapal til Evrópu gætum við líklega fengið ódýrari raforku framleidda með olíu frá Danmörku hingað en við greiðum nú fyrir íslenska raforku.