Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 14:33:37 (1505)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og umræður um þessa athyglisverðu tillögu hafa leitt í ljós er sannarlega að mörgu að gæta í því máli sem hér er hreyft. Ég leyfi mér að vitna annars vegar til orða hv. 1. þm. Norðurl. v. og hins vegar til orða hv. 7. þm. Reykn. Hv. 7. þm. Reykn. fór hér með heita og einlæga áskorun um það að menn létu markaðssóknina duga til þess að færa út á víðan völl þá orku sem væri umfram þarfir í okkar orkubúskap. Hann spurði: Af hverju eru ekki settir menn í það að markaðsfæra þessa umframorku af hálfu Landsvirkjunar? Hefði hann hlýtt betur á mál hv. 1. þm. Norðurl. v., eins og ég treysti að hann geri nú jafnan, hefði hann heyrt að þetta hefur þegar verið gert og því var ágætlega lýst af hv. 1. þm. Norðurl. v. að Landsvirkjun ásamt almenningsrafveitunum ynni nú að því að finna leiðir til þess að fá viðbótarorkusölu innan lands, m.a. með breytingum á verðkerfi Landsvirkjunar, sem hér er einmitt til athugunar og umræðu í dag.
    Um efni tillögunnar vil ég segja að ég tel mikla ástæðu til þess að hv. iðnn. þingsins kynni sér vandlega málavöxtu áður en hún tekur efnislega afstöðu til tillögunnar. Ég hef síður en svo á móti því að slík áskorun og fyrirmæli frá þinginu berist mér sem greinir í tillögunni en tel að það væri mjög gagnlegt að iðnn. kynnti sér málið sem vandlegast vegna þess að þarna hafa hlutir verið að gerast frá því að tillagan var upphaflega flutt.
    Það er sannarlega rétt, sem fram kom í máli hv. 7. þm. Reykn., að það er mikil þörf á því að leita nú leiða til þess að markaðsfæra orkuna en ég vil ítreka það sem ég sagði hér áðan að það er rangt að halda því fram að hér hafi menn verið aðgerðalausir. Það kom ágætlega fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að að því máli er unnið.
    Ég vil líka láta það koma fram vegna fyrirspurnar hv. 3. þm. Vesturl. að sú markmiðssetning sem fram er sett í greinargerðum með fjárlagafrv. um það að æskilegt sé að tiltekin ríkisfyrirtæki skili 2% arði af eigin fé er almenn viðmiðun og getur ekki verið almenn regla fyrir sérhvert fyrirtæki því þar verður arðgreiðslan náttúrlega að fara eftir arði. Er arður af rekstrinum sem fyrirtækið getur skilað í hendur eigandans? Ég tel þetta hins vegar gagnlega viðmiðun, ekki síst við fjárfestingarákvarðanir, sem hér hafa nokkuð verið ræddar, þótt ég biðji menn um að blanda ekki deilunum um Blöndu fyrir tíu árum allt of mikið inn í það mál sem við ræðum hér og nú. Það er rétt sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði í sínu máli: Þetta er einfaldlega svona, við verðum að ráða fram úr því. Það tjóar lítt um það að deila hvernig rökin voru þegar ákvörðunin var tekin. Við verðum að finna leiðir til þess að búa við það að við erum núna með um 500--600 gwst. orkuframleiðslu á ári umfram þarfir, e.t.v. meir. Það var erfitt að sjá þetta fyrir. Það er rétt hjá hv. 4. þm. Austurl. þótt að miklu leyti hafi náttúrlega verið í þessa virkjun ráðist út á ákveðin áform um orkufrekan iðnað sem ekki er rætt um nú. En svo sannarlega hefur verið að því máli unnið og verður áfram unnið að koma þessari orku í lóg, eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. orðaði það jafnan hér áðan, og ég treysti sannarlega á stuðning þingsins í því verkefni.