Verðlagning á raforku

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 15:03:11 (1516)

     Flm. (Sturla Böðvarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki séð í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár að þar séu uppi sérstök áform um að hækka raforkuverð. Ég tel eðlilegt sé að fyrirtæki eins og Rafmagnsveitur ríkisins greiði með einhverjum hætti inn í ríkissjóð. Ég vona að það takist og ég er næstum því viss um að það muni takast að hagræða og standa þannig að rekstri þess fyrirtækis að ekki þurfi að koma til hækkunar á raforkuverði. Ég gef mér það ekki, eins og hv. 3. þm. Vesturl., að það þurfi að velta öllum hugsanlegum útgjaldatilefnum fyrirtækjanna yfir á neytendur. Ég held að stjórnendum Rafmagnsveitna ríkisins, sem eru hinir mætustu stjórnendur, ættu að geta dregið úr kostnaði og standa þannig að rekstri fyrirtækisins að ekki þurfi að hækka raforkuverð, fyrir utan það að gert er ráð fyrir því að auka niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði þannig að ég vænti þess að við hv. 3. þm. Vesturl. getum stuðlað að því sameiginlega að lækka þann útgjaldalið heimila jafnt sem fyrirtækja.