Lánskjör og ávöxtun sparifjár

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 15:26:32 (1524)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Eins og fram kom í ræðu 1. flm. og frsm. er þetta frv. flutt í sjötta sinn. Á þeim tíma sem liðinn er frá því að frv. var fyrst flutt hafa þau miklu tíðindi gerst í þessu landi að við höfum náð tökum á verðlagsþróuninni. Verðbólga er hér minni en í flestum Evrópulöndum. Vandamálinu sem frv. er ætlað að takast á við hefur verið ýtt til hliðar. Það hefur verið leyst á annan hátt. Þess vegna er frv. ekki nauðsynlegt lengur hafi það nokkurn tíma verið.
    Ég vil benda á að í undirbúningi eru tillögur um afnám laga um verðtryggingu fjárskuldbindinga þannig að slík ákvæði verði framvegis eingöngu háð samningum milli lántakenda og lánveitenda. Þetta fyrirkomulag, sem ég hef nú lýst í einni setningu, er það fyrirkomulag sem gildir í langflestum viðskiptalöndum okkar. Ég tel mjög eðlilegt að hér ríki sömu starfshættir en engu að síður sé mönnum það frjálst að gera slíka samninga ef þeir telja það rétt og Seðlabanka verði ætlað að halda áfram að birta lánskjaravísitölu fyrir þá sem hana vilja nota.
    Þetta er í raun og veru svarið við þeirri málaleitan og fsp. sem hér var fram borin m.a. af hv. 7. þm. Reykn. og reyndar við því erindi sem flm. frv. eru að reka.