Hækkun farmgjalda skipafélaganna

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 15:34:31 (1527)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af fsp. hv. málshefjanda, 9. þm. Reykv., vil ég taka fram að verðlagsráð hefur haldið sérstaka fundi um þá tilkynningu Eimskipafélagsins að það hyggist hækka farmgjöld sín frá og með nóvemberbyrjun og um sams konar tilkynningu sem borist hefur frá Samskipum.
    Það er ástæða til að rifja það upp að í febrúar sl. ákvað verðlagsráð að gefa verðlagningu á farmgjöldum skipafélaga frjálsa samkvæmt heimild í 8. gr. laga nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, sbr. 4. gr. laga nr. 52/1982. Á þessum fundi var líka ákveðið að verðlagning á olíuvörum skyldi gefin frjáls. Báðar þessar ákvarðanir voru teknar með hliðsjón af samkeppnisaðstæðum, þ.e. til að efla virka samkeppni og stuðla að lægra vöruverði og verði þjónustu. Þessi ákvörðun tók gildi 1. apríl 1992. Með leyfi forseta, ætla ég að vitna beint í samþykkt verðlagsráðs. Hefst hér sú tilvitnun:
  ,,1. Hvers kyns samráð skipafélaga, sem stunda farmflutninga, um verð, viðskiptakjör og markaðsskiptingu er óheimil.
    2. Skipafélögum verði skylt að tilkynna Verðlagsstofnun um alla samninga og samþykktir um samkeppnishömlur ásamt breytingum sem kunna að verða gerðar á þeim.
    3. Skipafélögum verði skylt að hafa eigin verðskrár þannig úr garði gerðar að viðskiptavinir eigi auðvelt með að kynna sér verðið áður en til viðskipta kemur.
    4. Verðlagsstofnun annist eftirlit og upplýsingamiðlun um samkeppnishætti á markaði fyrir farmflutninga skipafélaga.
    5. Verðlagsstofnun leggur fyrir verðlagsráð í síðasta lagi í byrjun apríl 1993 skýrslu um reynsluna af afnámi ákvarðana um hámarksverðlagningu á farmgjöldum þannig að verðlagsráð geti endurmetið ákvörðun um verðlagsfrelsi í ljósi reynslunnar.``
    Það er þessi bakgrunnur sem ég tel alveg nauðsynlegt að þingheimur hafi skýran fyrir hugskotssjónum þegar um þetta mál er fjallað. Einmitt á grundvelli þessarar samþykktar fjallar nú verðlagsráðið um málið.
    Það er rétt að fyrir skömmu tilkynnti Eimskipafélagið að það hygðist hækka farmflutningagjöld félagsins að meðaltali um 6% frá 2. nóv. Í kjölfarið tilkynntu Samskip hf. að félagið hygði á sömu hækkun frá sama tíma. Mér finnst eðlilegt að röksemdir talsmanna fyrirtækjanna fyrir þessum breytingum komi hér fram en þær virðast vera þessar helstar:
    Í fyrsta lagi að mikil samkeppni á þessu ári hafi leitt til þess að meðalflutningsgjöld hjá Eimskip hafi lækkað um 4,2% fyrstu níu mánuði þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra en gjöldin fyrir mánuðina júní til september í ár hafi lækkað enn meira eða um tæp 9% miðað við sömu mánuði í fyrra. Hjá Samskipum hafi flutningsgjöldin lækkað um 9% fyrstu níu mánuði ársins samanborið við sama tímabil í fyrra.
    Í öðru lagi hafa talsmenn fyrirtækjanna bent á að afkoma þeirra hafi verið óviðunandi það sem af er árinu. Hagnaður Eimskips var um 18 millj. kr. fyrstu sex mánuði ársins og hefur afkoma félagsins versnað síðan en níu mánaða uppgjör liggur enn ekki fyrir. Tap Samskipa fyrstu sex mánuði ársins nam um 130 millj. kr. og hefur farið vaxandi síðan.
    Í þriðja lagi benda þeir á að samdráttur hafi orðið í flutningum á þessu ári. Hjá Eimskip hefur samdrátturinn numið um 10% fyrstu níu mánuði ársins en hjá Samskipum hefur hann verið heldur minni.
    Nú getur mönnum sýnst sitt hvað um þessar röksemdir en það er ástæða til að hugleiða þær og skoða það þegar um þetta mál er fjallað, ekki síst það að með beitingu ýmiss konar afsláttar hafa skipafélögin í reynd verið að lækka farmgjöldin.
    Eins og ég nefndi áðan voru farmgjöld í áætlanasiglingum felld undan ákvörðunum verðlagsráðs frá og með 1. apríl sl. Þetta var að sjálfsögðu gert á grundvelli þeirrar samkeppni sem þá var talin ríkja á markaðnum þrátt fyrir sterka stöðu Eimskips. Farmgjaldahækkunin sem nú hefur verið tilkynnt vekur eðlilega upp spurningar um það hvort í raun og veru ríki þarna nægilega virk samkeppni og þar er spurningin að sjálfsögðu: Hvað felst í markaðsráðandi stöðu fyrirtækis? Hvernig er henni beitt?
    Það er auðvitað almennt talið að markaðsráðandi staða fyrirtækis sé sú staða að fyrirtæki geti að verulegu leyti tekið ákvarðanir án þess að þurfa að taka tillit til sinna samkeppnisaðila eða sinna viðskiptavina. Þau atriði sem menn leggja þar einkum til grundvallar eru hvort markaðshlutdeild fyrirtækisins, fjárhagsleg staða þess, raunveruleg eða möguleg samkeppni annarra fyrirtækja, lögbundnar eða raunverulegar hindranir á aðgangi annarra fyrirtækja á markaðnum, geri það að verkum að það ráði í raun og veru lögum og lofum á markaðnum.
    Það er auðvitað eðlilegt að líta þannig á málið að Eimskip sé markaðsráðandi fyrirtæki á Íslandi

í þessum flutningum. Fyrirtækið hefur 65% markaðshlutdeild. Það hefur aðeins einn stóran keppinaut og það eru verulegar hindranir á aðgangi nýrra fyrirtækja að markaðnum. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. En það er líka ástæða til að hafa í huga að markaðsráðin eru ekki bönnuð heldur misbeiting þeirra. Það liggur enn ekki fyrir hvort Eimskip hafi með þessari ákvörðun misbeitt stöðu sinni á markaðnum. Það er málið sem verðlagsráð kannar nú. Hins vegar gefur staða fyrirtækisins og tildrög þeirrar ákvörðunar sem tekin var tilefni til þess að samkeppnisaðstæðurnar verði kannaðar nánar. Það er í raun og veru ekki hin tilkynnta verðhækkun sem slík heldur möguleiki fyrirtækisins til að taka ákvörðun um verðlagsbreytingar án tillits til aðstæðna viðskiptavina sinna eða samkeppnisaðila sem athuga þarf. Það er þetta sem verðlagsráð hefur haft að leiðarljósi á sínum fundum og ekki síst það að Samskip ákveða samtímis 6% hækkun. Á þeim fundi sem ég vitnaði til og haldinn var sl. föstudag var upplýst að verðlækkun á þessu ári, sem ég nefndi hér áðan, hafi verið mjög misjöfn eftir vöruflokkum en tilkynnt verðhækkun sé hins vegar hugsuð til að fara nokkuð jafnt yfir alla vöruflokka.
    Ég tel sérstaka ástæðu til að afla frekari gagna frá skipafélögunum og m.a. skýringa á því hvers vegna þau beiti einfaldlega ekki til baka þeim afslætti sem þau hafa veitt til að jafna sína stöðu án þess að breyta gjaldskránni almennt.