Hækkun farmgjalda skipafélaganna

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 15:47:24 (1532)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það var ekki hátt risið á hæstv. viðskrh. þegar hann kom hér upp áðan og tók að sér upplestur á rökum Eimskipafélags Íslands fyrir þessari dæmalausu hækkun. Ég trúi ekki öðru en hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi verið að gera heiftarlega að gamni sínu þegar hann kom hér og þakkaði hæstv. ráðherra fyrir skýr svör.
    Þessi dæmalausa hækkun dregur auðvitað athyglina að þeirri fákeppni og þeirri algjörlega markaðsráðandi aðstöðu sem einn aðili í stykkjavöruflutningi til landsins á sjó, Eimskipafélagið, er í. Saman hafa tveir aðilar fullkomna einokun á þessum markaði. Þess vegna hlýtur fyrst og fremst að vakna sú spurning hér: Er ekki um samsteyptar aðgerðir þessara tveggja einokunaraðila að ræða þegar þeir eins og fyrir tilviljun með tveggja eða þriggja daga millibili hækka sínar farmskrár nákvæmlega um sömu prósentu?
    Þessi sjálftaka hagnaðar, sem er röksemdafærsla Eimskipafélagsins, er auðvitað út í hött við núverandi aðstæður í íslensku efnahagslífi. Menn hljóta að spyrja sig: Er það eðlilegt að einn aðili geti í krafti markaðsráðandi aðstöðu sinnar selt sér sjálfdæmi um hagnað og fylgt því fram með sjálftöku gjaldskrárhækkana burt séð frá aðstæðum á flutningamarkaði og í efnahagslífi þjóðarinnar? Það er það sem hér er að gerast. Á sama tíma og önnur fyrirtæki, aðrar atvinnugreinar, verða að sætta sig við skerta afkomu vegna samdráttar í þjóðarbúskapnum telur Eimskipafélags Íslands ekkert athugavert við það að selja sér sjálfdæmi um áframhaldandi hagnað. Í stað þess að draga þá úr kostnaði vegna minni flutninga ákveður fyrirtækið einfaldlega að tryggja hagnað sinn með gjaldskrárhækkunum. Í krafti yfirburðaaðstöðu sinnar sér það svo um að ,,litli bróðir``, sem einn gæti einhverju um það breytt, verði með í verknaðinum.
    Þetta dregur einnig athyglina að því, hæstv. forseti, og ég ætla að ljúka máli mínu á því, að minna á þá staðreynd að fyrirliggjandi frv. til laga um samkeppni er ófullnægjandi að þessu leyti og þarf að gera á því breytingar eins og ég hef reyndar lagt til. Einmitt þetta mál dregur athyglina með mjög skýrum hætti að því að frv. hæstv. viðskrh. er, eins og málflutningur hans, of máttlaus í þessum efnum.