Hækkun farmgjalda skipafélaganna

39. fundur
Mánudaginn 26. október 1992, kl. 15:58:10 (1536)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi í minni fyrri ræðu mun Verðlagsstofnun afla frekari gagna um

þróun farmgjalda að undanförnu og kanna sérstaklega tildrög þeirrar hækkunar sem nú hefur verið tilkynnt en ekki framkvæmd.
    Hér hafa menn nokkuð nefnt kaupmáttarbreytingar og verðlagsbreytingar. Það er að vonum. En það er kannski ástæða til þess að huga að því að einmitt á þessu ári og því næstliðna hefur verð á innfluttri stykkjavöru lækkað verulega á Íslandi. Á sama tíma hefur kaupmáttur hjá Alþýðusambandsfólki reyndar aukist bæði árin. ( SvG: En forstjóra Eimskips?) Þetta ættu menn að kanna. Ég hygg að það sé best að hv. 9. þm. Reykv. kanni það sjálfur.
    En ég vildi koma aftur að skipafélögunum. Þau hafa verið beðin að svara m.a. eftirfarandi spurningum:
    1. Hver var aðdragandi þeirrar verðlækkunar sem orðið hefur á þessu ári og þau hafa sýnt?
    2. Hvernig var þessi verðlækkun framkvæmd í einstökum vöruflokkum og gagnvart einstökum viðskiptamönnum?
    3. Hvers vegna er núna staðið með öðrum hætti að verðhækkun en þeirri verðlækkun sem orðið hefur jafnt og þétt það sem af er árinu?
    Það þarf auðvitað að leiða í ljós hvort Eimskip sé í þeirri aðstöðu í raun og veru á markaðnum að geta breytt farmgjöldunum án þess að þurfa að taka tillit til annarra. Sé það rétt að sú lækkun sem sannarlega hefur orðið á þessu ári sé vegna samkeppni við aðra eins og félögin halda fram hlýtur sú spurning að vakna hvers vegna og hvað hafi skyndilega gerst sem valdi því að fyrirtækin söðli nú um samtímis og leggi samkeppnina til hliðar.
    Þetta er eðlileg spurning sem kanna þarf og verður ekki úr leyst með háværum ræðum á Alþingi. Verðlagsráð og Verðlagsstofnun verða að upplýsa málið og gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við þau lög sem nú er starfað eftir.
    Ég ætla ekki að mæla með beinni íhlutun í verðmyndun nema önnur úrræði dugi ekki. Þá verður að sjálfsögðu gripið til hennar. Aðalatriðið er að hér verði komið á heilbrigðri samkeppni eins og tekist hefur í mörgum greinum og hefur reynst besta tryggingin fyrir því að lækka og koma á stöðugu verðlagi eins og tekist hefur á undanförnum missirum.