Seta forsætisráðherra í borgarstjórn

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 13:38:53 (1544)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Umræða í þjóðfélaginu og þar með einnig á Alþingi Íslendinga á undanförnum árum hefur verið í þá átt, ef ég hef lesið rétt í mál manna, að greina sem skýrast á milli verkefna og stjórnsýslustiga þar á meðal. Ég vek athygli á að þau mál eru auðvitað fjölmörg þar sem um hagsmunaárekstra er að ræða og álitamál milli ríkis og sveitarfélaga. Þau dæmi liggja á borðum manna þessa stundina í sambandi við samskipti ríkis og sveitarfélaga og í sambandi við skattheimtu og skipti í þeim efnum. Hæstv. forsrh. gjörþekkir auðvitað þau efni. Jafnframt ber að líta á það að aðstaða sveitarfélaganna í landinu er afskaplega ólík, eins og allir þekkja. Reykjavík hefur þar nokkra sérstöðu. Það er ekki til að auka traust á landsstjórninni ef sami aðili er fulltrúi þar og jafnframt æðsti maður í ríkisstjórn Íslands.