Hertar aðgerðir gegn skattsvikum

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 13:48:25 (1551)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að vekja athygli á þessum málum. Ég er hins vegar ekki sammála því sem kom fram í síðari ræðu hv. þm. að ekki sé nauðsynlegt að taka á þessum málum alls staðar. Jafnvel þótt menn grípi til þess að segja að nauðsyn brjóti lög þá er það einu sinni þannig að okkur ber að fara að þeim lögum sem við höfum sett eða breyta þeim ella. Ég held því að það sé eðlilegur hluti skatteftirlitsstarfsins að sjá um að fólk fari eftir þeim lögum sem Alþingi setur.
    Annað sem ég vil nefna í þessu sambandi og er allt of sjaldan nefnt, er að í öllum skattsvikaskýrslum hérlendis sem erlendis er bent á nauðsyn þess að lækka skatthlutföll og breikka skattstofna. En það er einmitt á stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar.