Veiðar og sala á síld

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 13:51:49 (1553)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er rétt athugunarefni sem hv. þm. vekur athygli á. Síldarútvegsnefnd hefur beint því til ráðuneytisins með sérstöku bréfi sem barst síðla í gær. Strax í morgun var tekin um það ákvörðun að efna til fundar með þeim aðilum sem hér eiga hlut að máli, síldarútvegsnefnd og útgerðaraðilum, til þess að leita leiða til að tryggja þeim sem vilja fá síld til vinnslu og manneldis það hráefni sem nauðsyn krefur. Ég vona að sú viðleitni beri tilætlaðan árangur því að það er vissulega svo að það er mikið keppikefli að sem mest af síldinni fari til söltunar eða frystingar því að með þeim hætti fáum við mun meiri verðmæti úr þessari afurð.
    Hvort fullreynt er með sölu til fyrrum Sovétríkjanna verður sjálfsagt ekki svarað með neinum óyggjandi hætti. Hitt er alveg ljóst að gengisfall rúblunnar hefur gert það að verkum að það eru afar litlir möguleikar á því að slík viðskipti geti farið fram jafnvel þó að viðskiptasambönd opnist. Síldarútvegsnefnd og

aðrir þeir sem áhuga hafa á sölu síldar til Rússlands munu halda því máli vakandi og stjórnvöld eru reiðubúin til viðræðna við sovésk stjórnvöld. Við eigum von á því að sjávarútvegsráðherra Rússlands komi í desembermánuði til sérstakra viðræðna um þessi og önnur samskiptamál á sjávarútvegssviðinu.