Takmörkun og eftirlit með rjúpnaveiði

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 13:57:34 (1556)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það hafi verið snemma í septembermánuði sem ég beindi þeirri fsp. til Náttúrufræðistofnunar Íslands hvort ástæða væri til að banna rjúpnaveiðar eða gera einhverjar aðrar sérstakar ráðstafanir til að takmarka veiðina. Að mati sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands var ekki talin ástæða til þess. Það var ekki talin ástæða til þess að banna rjúpnaveiðar. Hins vegar var á það bent að upplýsingar skorti að nokkru leyti um rjúpnastofninn og ástæða væri til að auka rannsóknir á íslenska rjúpnastofninum.
    Á næsta ári er ráðgert að verja allnokkru fjármagni til að rannsaka æðarfuglinn sem er einn helsti nytjafugl okkar. Það væri vissulega ástæða til þess að verja auknu fjármagni til þess að rannsaka rjúpnastofninn og vonandi kemur að því að slíkt fjármagn verður fáanlegt.
    Varðandi hitt atriðið sem hv. þm. nefndi, þ.e. villimannlegar aðferðir veiðimanna, munu áreiðanlega dæmi slíks. Þar er um lögbrot að ræða. Það er bannað að nota vélknúin farartæki við að elta uppi bráð. Æskilegt væri að meira fjármagn væri til umráða til þess að stunda löggæslu á þessu sviði og fylgjast með og handsama þá sem þessar reglur brjóta. Ég er ekki viss um að það sé jafnalgengt og útbreitt og hv. þm. lét í veðri vaka en þess eru áreiðanlega dæmi og æskilegt væri ef hægt væri að halda uppi öflugra eftirliti með þeim sem svo villimannlega fara um.