Meðferð áfengissjúkra

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 14:01:12 (1558)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Fjárveitingar til áfengismeðferðar verða á næsta ári skornar verulega niður ef marka má það fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir Alþingi. Til stendur að Gunnarsholt verði í framtíðinni rekið á vegum trúarsöfnuðar. Þar hafa auk langt leiddra drykkjusjúklinga einnig verið vistaðir geðsjúklingar sem hvergi hafa verið úrræði fyrir innan geðheilbrigðiskerfisins, sumir þeirra einnig drykkjumenn. Margir þeirra þurfa sárlega á að halda öðrum og betri úrræðum en að vera geymdir uppi í sveit án þess að eiga nokkurn kost á endurhæfingu, liðveislu, stuðningi eða meðferð.
    Því vil ég spyrja hæstv. heilbrrh.: Er það stefna heilbrrn. að beina illa stöddum geðsjúklingum og áfengissjúklingum í auknum mæli til trúarhópa í stað þess að bjóða þeim upp á hefðbundna læknisfræðilega áfengismeðferð og finna viðunandi lausnir á vanda þeirra geðsjúklinga sem nú eiga hvergi höfði sínu að halla nema á geymslustöðum á borð við Gunnarsholt ef þeir eru þá bara ekki á götunni?