Meðferð áfengissjúkra

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 14:06:05 (1562)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki að hæstv. ráðherra hafi svarað spurningu minni. Ég beini því til hans að kanna þetta og fagna því að eitthvað hefur verið gert í sambandi við það að kanna hvort hér sé fullnægt þeim kröfum sem sjálfsagðar og eðlilegar verða að teljast.
    Ég vil hins vegar beina athygli hans að því að á nýlegu málþingi um aðstæður þeirra geðsjúklinga sem lengst eru leiddir, m.a. í vímuefnaneyslu og búa á götunni, kom þetta til umræðu og ég tel ástæðu til þess að taka fullt tillit til þess þegar ábendingar koma frá fagfólki og gera eitthvað í því. Ég fagna því ef eitthvað hefur verið gert af því tagi.
    Ég vil líka vekja athygli á því að það eru ekki tilhæfulausar dylgjur út í loftið sem eru að koma nú frá kirkjuþingi. Ég á ekki von á því úr þeirri átt. Ef ég hef brotið á einhverjum skal ég að sjálfsögðu bera það til baka.