Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 15:22:38 (1569)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er kannski ekki miklu við það að bæta sem hér hefur þegar komið fram. Það liggur ljóst fyrir að allar tilraunir hæstv. ríkisstjórnar til að ná niður kostnaði við rekstur samfélagsins hafa að mestu mistekist. Það liggur fyrir að þrátt fyrir það að landsframleiðsla dragist minna saman en gert var ráð fyrir í fjárlögum --- þá var gert ráð fyrir 6% samdrætti þjóðartekna en nú eru taldar horfur á að hann verði aðeins 4% og viðskiptahallinn gagnvart útlöndum verði um 1,5 milljarðar kr. minni á þessu ári en reiknað var með í forsendum fjárlaga eða í kringum 13,5 milljarðar kr. í stað 15 milljarða kr. eins og áætlað var --- þarf ríkisstjórnin samt að biðja Alþingi um 5 milljarða kr. og liðlega það, 5 milljarða 383 millj. 900 þús. til viðbótar við þau fjárlög sem gerð voru fyrir tæpu ári síðan.
    Það er athyglisvert að afkoma ríkisins er engan veginn eins slæm og spáð hafði verið en eyðslan er meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Rekstrarhalli ríkissjóðs verður um 9,1 milljarður kr. á þessu ári eða 5 milljörðum kr. hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Menn geta spurt: Af hverju er þetta svo? Í fjárlögum fyrir árið 1992 voru heildartekjur ríkissjóðs áætlaðar 105,5 milljarðar kr. Nú eru hins vegar horfur á að þær verði allt að 2,5 milljörðum kr. minni eða í kringum 103 milljarðar kr.
    Það leiðir af sjálfu að þegar samdráttur verður á öllum sviðum, atvinnulífinu er haldið í heljargreipum, launum er haldið niðri, þá dregur vitaskuld úr tekjum ríkissjóðs. Það fer ekkert á milli mála. Það sýnir sig einnig að eitthvað er bogið við innheimtu opinberra gjalda. Hún er miklu lélegri en gert hafði verið ráð fyrir og það er augljóst að innheimta virðisaukaskatts gengur ekki eins og gert hafði verið ráð fyrir og er sjálfsagt að fara fram á það við hæstv. fjmrh. að það mál verði ítarlega kannað. Menn hljóta að spyrja: Hafa menn lært nýjar leiðir til að komast hjá greiðslu þessara skatta eða er innflutningur til landsins orðinn slíkur að hann fer mestan part fram sem neðanjarðarstarfsemi? Við vitum öll að fólk flykkist þúsundum saman og gerir innkaup sín erlendis og hefur ekki þurft að borga af því skatta og skyldur eins og aðrir verða að gera. Það væri forvitnilegt ef úttekt yrði gerð á því hverju þetta sætir. En auðvitað verða minnkandi umsvif til þess að alls kyns skattar, veltutengdir skattar, gjaldeyrisskattar, lántökugjöld og fleira dregst saman.
    Útgjöld ársins 1992 hafa verið endurmetin og það er talið að þau verði nú um 112 milljarðar kr. eða ríflega það. Það er 2,5 milljarða kr. hækkun frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum. Hvar skyldu nú þessar miklu umframgreiðslur vera? Þær eru nákvæmlega þar sem mest átti að spara. Lífeyristryggingar Tryggingastofnunar ríkisins vantar 163 millj. kr., sjúkratryggingar 530 millj., Atvinnuleysistryggingasjóð vantar 700 millj. og þarf ekki að undrast það þar sem atvinnuleysi virðist verða a.m.k. 2% ef ekki hátt í 3% á þessu ári.
    Það kemur fram á bls. 24 í því þskj. sem hér liggur fyrir að Lánasjóður ísl. námsmanna er hins vegar skorinn niður um 220 millj. kr. Hann hefur að vísu verið skorinn niður meira vegna þess að minni lántökur en áætlað var valda því að þar hafa unnist 700--800 millj. kr. og jafnframt hafa vextir lækkað umtalsvert vegna lágs gengis dollarans að hluta enda eru vextir hér 500 millj. kr. lægri en gert hafði verið ráð fyrir en það eru vaxtagreiðslur af skuldum ríkisins.
    Eins og hér hefur komið fram hjá tveim síðustu hv. ræðumönnum er skýringin sú að hér var farið fram af miklu kappi en lítilli forsjá. Það er auðvitað ekki hægt að ryðjast inn í gróin kerfi eins og heilbrigðiskerfi Íslendinga með einhverjum valdboðum ofan úr ráðuneytum án þess að hafa samráð við það fólk sem hefur um árabil verið að þróa þessar stofnanir í það sem þær eru í dag eða voru. Og hvað kemur í ljós? Hver er árangurinn eftir þau umskipti sem boðuð voru og þær breytingar á sjúkrahúskerfinu í Reykjavík þar sem vissulega átti að spara? Mönnum var hent til, deildir lagðar niður, aðrar settar inn í staðinn, læknum sem unnið höfðu áratugum saman á einni stofnun var ýtt yfir á aðrar, heilu deildirnar lagðar niður og ein tegund læknisaðgerða flutt yfir á önnur sjúkrahús og þar fram eftir götunum. Auk þess sem fjölda manns var sagt upp. Hver er svo árangurinn? Ríkisspítalarnir þurfa 120 millj. kr. í viðbót við fjárlög, Borgarspítalann vantar 25 millj., St. Jósefsspítala, Landakot, vantar samkvæmt þessu plaggi 5,7 millj. sem er ósatt.

Fulltrúar spítalans voru hjá okkur á fundi í fjárln. í morgun og tilkynntu okkur að spítalann vantaði 75 millj. kr. Skýringin á þessari tölu í þskj. er sú að þessi skuld á að færast yfir á næsta ár og væntanlega dragast frá fjárframlögum þar.
    Í fjárlagafrv. sem hér liggur frammi fyrir árið 1993 er athyglisverð klausa á bls. 326. Þar segir í lið sem ber yfirskriftina ,,St. Jósefsspítali, Landakoti``, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ekkert varð af áformum, sem sett voru í frv. til fjárlaga 1992, um að koma á samrekstri eða náinni samvinnu Borgarspítala og Landakots en unnið verður áfram að endurskoðun á verkaskiptingu spítalanna á höfuðborgarsvæðinu.``
    Hvernig hefði nú verið, hæstv. ráðherra og virðulegi forseti, að byrjað hefði verið á því að ganga frá samvinnu Borgarspítala og Landakots áður en farið var að umsteypa hvoru sjúkrahúsi fyrir sig? Hér hefur ekki verið unnið sem skyldi og ber að harma það. Það liggur fyrir að nú eru uppi áætlanir um að breyta St. Jósefsspítala aftur og setja inn deildir sem af voru lagðar. Það er kannski tilgangslaust að setja á langa ræðu um þetta en það er vissulega sorglegt þegar til stendur að lækka ríkisútgjöld að það skuli gert á þann hátt að að litlu sem engu gagni kemur.
    Ef litið er til einstakra liða og hinna ýmsu ráðuneyta, sem ég skal ekki eyða miklum tíma í, þá blasir auðvitað við að alls staðar er beðið um nokkra tugi milljóna vegna EES-samninga, Alþingi biður um 27,5 millj. kr. til greiðslu á viðbótarkostnaði vegna umræðna um EES-samning og öll ráðuneytin biðja að sjálfsögðu um tugi milljóna vegna kostnaðar við þennan mikla samning. Og það vakti athygli okkar í fjárln. þegar fram kom sem við ekki vissum, eða alla vega ekki ég sem hér stend, að fulltrúar þriggja ráðuneyta eru þegar komnir í starf erlendis til þess að gæta þessa samnings sem ekki er búið að samþykkja hér á hinu háa Alþingi.
    Það er kannski hráslagalegt að byrja á menntmrn. á þessum degi vegna þess að í Ríkisútvarpinu í morgun var gerð grein fyrir nýlegri skýrslu nefndar frá OECD um ástand rannsókna- og þróunarmála hér á landi. Þar kom fram, eins og við alþýðubandalagsmenn höfum hamrað á um árabil og ekki síst hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, að við erum á hraðleið við að dragast aftur úr iðnríkjum heimsins vegna skorts á rannsóknum og vegna lélegra fjárframlaga til rannsókna. Á sama tíma og við fáum þessa einkunn erum við að skera niður Háskóla Íslands þannig að fjöldi námskeiða hefur verið lagður niður þar og nær allar deildir skólans eru í verulegum vandræðum við að halda uppi þeirri kennslu og þjónustu sem þar hefur farið fram, enda hefur innrituðum námsmönnum fækkað um 500 síðan Lánasjóður ísl. námsmanna hóf árásir sínar á námsmenn og skólagjöld voru tekin upp í háskólanum. Það segir sig sjálft að þetta kann ekki góðri lukku að stýra og það er ekki leiðin til að efla rannsóknastarf og þróunarstarf í nokkru þjóðfélagi að hrekja ungt fólk frá námi og væri hægt að eyða löngu máli á það en það verður ekki gert hér, ég hyggst aðeins hlaupa hér á nokkrum meginatriðum. Ég get hins vegar ekki gert að því að segja frá því til gamans að ég átti leið í húsnæði Lánasjóðs ísl. námsmanna fyrir klukkutíma síðan. Það blasir við hverju foreldri og einnig mér að framlög til námsmanna hafa verið skorin alvarlega niður svo til vandræða horfir. Þar er þó ástand ekki verra en svo að verið er að innrétta með miklum mannafla hálfa hæð til viðbótar undir starfsemi Lánasjóðs ísl. námsmanna og það hefur greinilega ekki nægt að mála þær skrifstofur sem fyrir voru. Þar er verið að innrétta að nýju. Ég er ekki að amast við því að það ágæta starfsfólk sem vinnur á þessum stað fái húsrými undir starfsemina. En það var ekki að sjá að þar þyrfti neitt sérstaklega að líta til fjármuna.
    Ég hirði ekki um að minna á smáatriði sem á árum áður olli oft miklu írafári en hér er farið fram á 6 millj. vegna rekstrarhalla á Listahátíð. Það telst ekki lengur til tíðinda en það gerði það svo sannarlega hér á árum áður þegar vinstri menn fóru með stjórn

borgar og ríkis og þóttu mikil tíðindi ef ekki tókst að láta Listahátíð standa undir sér. En ekki skal ég neitt amast við því. Ég tel að þeim fjármunum sé síður en svo illa varið og hef enga ástæðu til að halda að þar sé illa farið með fé.
    Ef litið er til fjmrn. sjálfs --- og bið ég nú hæstv. ráðherra að geyma sér að ræða við hv. 2. þm. Austurl. þó það sé skemmtilegt að tala við hann --- en varðandi fjmrn. sjálft vil ég segja þetta: Á tímum þegar við reynum að halda í við allar stofnanir og reynum að halda útgjöldum niðri --- og auðvitað erum við öll tilbúin til þess, við í stjórnarandstöðunni erum tilbúin til að benda á það sem við teljum að megi spara, auðvitað erum við það --- þá er á vegum embættis ríkisskattstjóra verið að vinna að umfangsmikilli tölvuvæðingu sem kosta mun ekki minna en 84 millj. kr. Ekki er ég endilega að halda því fram að þetta geti ekki verið hið ágætasta framtak. Ríkisskattstjóri hefur auðvitað notið þjónustu Skýrsluvéla ríkisins og það kemur fram í gögnum frá þeim sjálfum að þeim hefur tekist í góðri samvinnu við SKÝRR að ná þeim árangri að Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar hafa lækkað verð sitt fyrir þjónustu um 16,81% nú á milli ára frá árinu 1991--1992 og það nemur hvorki meira né minna en 32 eða nær 33 millj. kr. Sá sparnaður verður auðvitað ekki mikils virði þegar 86 koma í staðinn, en auðvitað er þetta einföldun. Ég er ekki að segja að það geti ekki verið mjög þægilegt fyrir ríkisskattstjóraembættið að hafa einhvern hluta þess sem geymt er hjá Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurborgar hjá sér til að geta gengið að því ef sérstaklega stendur á, en er það virkilega svo brýnt að þessum peningum verði að verja í það núna? Það er að vísu búið að hefja þetta verk með einum 10--12 millj. og það er búið að ráða tvo kerfisfræðinga til að vinna við þessi tæki. Það mun að vísu ekki vera stöðuaukning en þó áreiðanlega nokkur kostnaðaraukning.
    Mér fyndist það umhugsunarefni hvort stofnun eins og ríkisskattstjóraembættið, þar sem yfirvinna er gríðarlega mikill og stór hluti af launakostnaði stofnunarinnar, ég má segja að hann sé um 55 millj., eða um 57% af unninni vinnu í stofnuninni, er þar með að spara. Það hlýtur að vera eðlilegt að spyrja: Eigum við von á að yfirvinna verði minni þegar þessi aukna tölvuvæðing er hafin? Það er ekki verið að ráðast á einn eða neinn þó spurt sé. Auðvitað er það kannski falleg framtíðarsýn að allar stofnanir í landinu sem fást við innheimtu og þurfa að eiga skipti við stóran hóp landsmanna hafi slík tæki, en ég hygg þó að það sé kominn tími til, hæstv. forseti, að stjórnvöld móti stefnu í tölvumálum. Ég held að sumt af þeirri tölvuvæðingu sem á sér stað í landinu sé harla tilviljanakennt. Þarna eru miklir fjármunir á ferðinni og þess vegna held ég að það sé ákaflega nauðsynlegt að reynt sé að hafa eitthvert heildaryfirlit yfir slíkt. Vissulega er ríkisskattstjóraembættið mikivæg stofnun. Það er tollstjóri líka og hans embætti og ótal, ótal margar aðrar stofnanir í landinu sem þyrftu e.t.v. ekkert síður að fá þessi samvinnslutæki sem mér skilst að þau séu kölluð eða alla vega heitir það samvinnsla og þessi tæki eru í sambandi við Skýrsluvélar ríkisins og geta nýtt sér þær upplýsingar sem þar eru því að auðvitað kemur gagnabankinn endanlega þaðan.
    Ég vildi leyfa mér að benda hæstv. ráðherra á þetta vegna þess að við höfum dæmi, og raunar úr þessari stofnun sem við stöndum í nú, um ranga tölvuvæðingu sem kostaði hið háa Alþingi tugi milljóna og ekkert var svo við að gera annað en henda eftir örfá ár. Þetta er að fara illa með fé. Um það held ég að enginn okkar deili.
    Ég skal, virðulegi forseti, ekki fjalla mjög ítarlega um frv. til fjáraukalaga nú við 1. umr. Ég á sjálf sæti í hv. fjárln. og hef öll skilyrði til þess að reyna að hafa áhrif á þau mál þar, en það fer ekki á milli mála að ég hygg að okkur finnist mörgum að þau áhrif séu oft mjög lítil og of lítil því að þó að góður vilji liggi til að reyna að koma saman fjárlögum sem okkur getur öllum verið nokkur sómi að, þá er lítt á stjórnarandstöðuna hlustað og menn fara sínu fram eftir íslensku aðferðinni í trausti þess að þetta bjargist einhvern veginn á næsta ári. Það er kannski einmitt þetta sem OECD-nefndin er að ávíta Íslendinga fyrir, að hugsa aldrei til lengri tíma og leggja drög að velferð og framförum þó það sýni sig ekki á næstu dögum.
    Virðulegi forseti. Ég held að ég láti máli mínu lokið. Ég mun að sjálfsögðu leggja það fram sem ég þykist hafa fram að færa í hv. fjárln. til þess að þetta fjáraukalagafrv. fái afgreiðslu. Um það þýðir auðvitað ekki að deila úr því sem komið er. Skuldir verðum við að borga. En ég vildi að lokum vekja athygli enn og aftur á því við hæstv. ráðherra að íslenska ríkið hefur umtalsverðar tekjur af því gengi sem er á dollaranum á þessu ári og er búið að vera nú um nokkurt skeið og ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort stjórnvöld hafi á einhvern hátt reynt að nýta sér lágt gengi dollarans, t.d. með lántökum til að greiða lán sem greiða skal í dollurum til jafnvel lengri tíma til þess að nýta sér það gengi sem nú er. Hér er um umtalsverðar fjárhæðir að ræða sem góður hagnaður gæti verið að ef menn fara með fjármuni hins opinbera eins og þeir mundu fara með sína eigin fjármuni. Ég hygg að það sé ekki óeðlilegt að þeir sem skulda reyni að nýta sér það ástand sem er á hverjum tíma til að lækka skuldir eins og þegar hefur fram komið hér í máli mínu að gerst hefur.