Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 16:09:21 (1571)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það er hægt að gera mönnum grikk með ýmsu móti en eitt af því vinsæla sem virðist vera viðhaft í fjmrn. er að skrifa ræður fyrir fjmrh. sem eru á þann veg að þeir koma fram sem stórar hetjur einn dag í þinginu þegar þeir flytja þessar ræður. Og auðvitað getur það verið gaman að kvöldi dags að hlusta á sjónvarpið birta fréttir af því að nú loksins í fyrsta skipti í sögu íslenska lýðveldisins sé kominn maður til valda í fjmrn. sem vissi hvað hann var að gera og hafði þrek til að framkvæma það. Svo koma margir dagar á milli og aftur þarf að koma fram fyrir þingið. Enn setjast menn niður og semja ræður og enn eru það lofræður. En það hlýtur að vera erfitt að standa hér í ræðustól og flytja lofræðu um sjálfan sig vitandi að það sem ætlunin var að gera hefur mistekist. Að þessu leyti er danska þingið miklu fullkomnara en það íslenska. Það sleppir ráðherrum við þetta. Það er nóg hjá þeim að leggja fram skriflega ræðu. Þeir þurfa ekki að gera sig að athlægi með því að lesa hana upp líka. Þetta er náttúrlega mikil tillitssemi og ég skil satt best að segja ekkert í forsætisnefnd þingsins að taka það ekki fyrir hvort ekki sé rétt að þegar ráðherrar fá svona skriflegar ræður þar sem oflofi er hlaðið á menn sleppi þeir við að lesa þær upp. Þetta er auðvitað sjálfsögð tillitssemi og mundi strax vera mikil framför.
    Ég veit að hæstv. ráðherra sem nú situr, hv. 2. þm. Reykv., er hinn vænsti drengur. Illmennska er honum yfir höfuð ekki í blóð borin. Hann hefur aftur á móti eins og fleiri orðið að gera fleira en gott þykir þennan tíma sem hann hefur verið ráðherra. En hann stendur nú frammi fyrir því með þessu frv. í fyrsta lagi að hafa eyðilagt fyrir hæstv. menntmrh. aðalrökin í því hvers vegna menntmrh. vildi breyta lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það muna allir eftir röksemdafærslum hæstv. menntmrh. Hann sagði: Lánasjóðurinn er að fara á höfuðið. Nú er aftur á móti kominn menntmrh. sem vill bjarga lánasjóðnum svo að námsmenn framtíðarinnar, börn framtíðarinnar eigi áfram lánasjóð og eigi möguleika í þessu landi. Og það get ég svarið að hæstv. menntmrh. var svo trúverðugur hér í stólnum á tímabili að það lá við að maður tryði honum. Aftur og aftur kom hann fram og flutti þennan boðskap. En hver var sannleikurinn? Sannleikurinn var sá að hann var að hugsa um það að skera niður framlögin í lánasjóðinn, borga Listahátíð í Reykjavík 6 millj., borga Þjóðleikhúsinu um 40 millj. af peningunum sem ætlaðir höfðu verið íslenskum námsmönnum. Það er ekki skrýtið þó hæstv. ráðherra telji skynsamlegt á svona degi að vera fjarverandi og þurfa ekki að standa frammi fyrir Alþingi Íslendinga og gera grein fyrir þessu. Hæstv. menntmrh. hefur náttúrlega engan áhuga á því núna að segja hvers vegna hann flutti þetta frv. Hæstv. menntmrh. gerir sér fullkomlega grein fyrir því að þetta frv. til fjáraukalaga gerir það að verkum að hann er afhjúpaður í málinu. Ef það var satt sem hann sagði að Lánasjóður ísl. námsmanna væri að fara á höfuðið, hvers vegna tryggði hann þá ekki að þessir peningar færu þar inn, ef hann meinti eitthvað með því að hann væri að hugsa um börn framtíðarinnar?
    Nei. Þetta er merkilegt frv. Það kemur nefnilega í ljós að menntmrn., eitt allra ráðuneyta, eyðir minna fé en Alþingi Íslendinga veitti því heimildir til. Ég hygg að það sé í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins sem það hefur gerst að þar komi stór afgangur á þennan hátt, nema þetta fjáraukalagafrv. feli það í sér að það séu rekstrarskuldir ætlaðar um áramót, stórar rekstrarskuldir sem mönnum þykir rétt að sýna ekki strax. Það eigi bara eftir að koma fram. Kannski hefur hæstv. fjmrh. ætlað að sýna Alþingi Íslendinga í áföngum niðurstöðuna af rekstrinum á þessu ári. Kannski er það það sem blasir við.
    Þá er nú rétt að víkja að þeim stórsnillingi, hæstv. heilbrrh. sem eins og allir vita er fyrrv. formaður fjárveitinganefndar og fyrrv. fjmrh. þessarar þjóðar ( ÖS: Og verður það lengi.) og er í embætti eins og allir vita á ábyrgð hv. 17. þm. Reykv. (Gripið fram í.) Hv. 17. þm. Reykv. er uppáskrifandi að víxlinum að þessi hæstv. ráðherra fer með heilbrigðismálin --- enda forðar hann sér nú og situr í hliðarsal og vill ekki fyrir nokkurn mun að nokkur maður sjái hvað hann þjáist á þessari stundu þegar niðurstaðan liggur fyrir. Jú, það er búið að taka slíka loftfimleika í þessu ráðuneyti að maður er stundum hissa á því að hæstv. ráðherra skuli koma heill heilsu, ekki skaðaður á höndum eða fótum þegar hann mætir hér í þingsal. ( Gripið fram í: Hann hefur nú ekki sést . . .  ) Og seinasta stórafrekið til að finna sökudólginn mikla sem er búinn að eyða meiri peningum en stætt er, það er búið að finna það út að það eru þvottakonurnar í sjúkrahúsinu, þessar sem sjá um þvottana. Það eru manneskjurnar sem hafa hirt peningana sem áttu að fara í að hjúkra fólkinu. Þetta lið skal sett af. Ekkert hik. Maðurinn með hnífinn hikar ekki við að skera þetta lið af. (Gripið fram í.) Og ekki veit ég hvort það er satt að það sé fjárfestingarfélag Alþfl. sem hyggst kaupa þvottahúsið, en ég vona að þeir njóti þá vel ef það er tilfellið. Það er ekki skrýtið þó hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi gaman af því að vera útgefandi á svona víxli. Svona víxill fellur ekki eins og venjulegir víxlar. Hann er bara framlengdur og hann hækkar. Nei, það er náttúrlega skaði að því að ekki aðeins þessir stórráðherrar íslenskrar ríkisstjórnar heldur jafnframt einn mesti hagyrðingur þingsins skuli ekki geta setið hér í ráðherrastólnum og samið þó ekki væri nema eitt bréf eða eina vísu til að dreifa á milli manna. Brotlendingarnar eru slíkar að það er með ólíkindum. Og mikil guðs mildi væri það nú ef það hefði aldrei gerst að þeir hefðu fundið upp prósentureikninginn fyrir sunnan, eins og kom fram hér áðan í máli hv. þm. Steingríms Sigfússonar, og vitnaði hann þar til Bjarts í Sumarhúsum.
    Staðan er nefnilega sú að að þessu sinni eru menn að fara yfir fjáraukalög þegar verðbólgan í landinu er sáralítil. Menn eru að fara yfir fjáraukalög þegar vextir af erlendum skuldum eru lægri en gert var ráð fyrir. Og þá leyfa menn sér að halda því fram að það sé hagspeki að minnka yfirdráttinn við Seðlabankann en selja meira á götum úti. Það minnki þrýstingurinn á markaðnum með þessum vinnubrögðum. Ég verð nú að segja eins og er að hæstv. ráðherra hefði náttúrlega þurft að hafa ráðherragengið allt sér við hlið. Það hefði verið sanngjarnt og svo hefði hann staðið upp og sagt: Ég tel eðlilegt að hver ráðherra geri grein fyrir sínu ráðuneyti. Það er nú svo með hæstv. heilbrrh. að þrátt fyrir hans veikleika á sumum sviðum stjórnunarlega séð, þá er það alveg á hreinu að hann hefur talandann í lagi. Það er alveg á hreinu þannig að það hefði náttúrlega ekki verið nokkurt vandamál fyrir hæstv. heilbrrh. að standa hér upp og gera grein fyrir hlutunum.
    En ekki ætlaði ég að verða til þess að gera þennan dag að döprum degi fyrir hæstv. fjmrh. Mér

finnst það ánægjulegt á þessum erfiðu tímum þegar maður sér þó ráðherra koma í salinn sem eru þokkalega glaðlegir á svipinn og ekki eru búnir að tapa allri trú á framtíðina og stundum jafnvel með blik í augum. En ég hafði hugsað mér að leggja fyrir hann eina spurningu og hún er þessi: Hyggst hæstv. fjmrh. leggja fram frv. til laga um fjárgreiðslur úr ríkissjóði? Þetta er raunverulega prófsteinninn á það hvort hæstv. fjmrh. hefur hugsað sér að ná valdi á því verkefni sem hann hefur tekið að sér eða hvort hann hefur hugsað sér að láta skeika að sköptu. Og þar skilur á milli feigs og ófeigs. Það gengur nefnilega ekki að embættismenn hins íslenska ríkis skammti sér sjálfir það fé sem þeir eyða. Það gengur ekki í neinu einasta landi að þannig sé staðið að málum. Það er gjörsamlega vonlaust. Það getur vel verið að það þurfi að setja suma menn af sem settir hafa verið til trúnaðarstarfa, það getur vel verið, en að það verði settur á Íslandi, á sama hátt og gert er annars staðar, einhver varnargarður sem tryggi það stjórnarskráin sé virt í þessum efnum, að ekki sé greitt fé úr ríkissjóði nema heimild sé til þess, annaðhvort í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ég bind vonir við það að hæstv. ráðherra hafi hugsað sér að taka sitt starf alvarlega, ég bind vonir við það. En einmitt þess vegna bíð ég spenntur eftir því að fá að heyra svarið.
    Fjárveitinganefnd lagði mikla vinnu í það undir forustu hv. 4. þm. Vestf., sem þá var formaður nefndarinnar en er í dag hæstv. heilbrrh., að koma saman frv. um þetta mál og nefndin beitti sér fyrir því að núv. ríkisendurskoðandi fór til Norðurlanda til að kynna sér það hvernig staðið væri að þessum málum þar. Því miður voru þeir margir sem trúðu því að best væri að hafa engar reglur í almennum lögum um þessi efni. Því miður voru þeir margir. Og það er búið að þvæla þessu máli hér í þinginu. En engu að síður er það staðreynd að málið var að þokast nær því að menn kæmust að niðurstöðu og nú reynir á hæstv. ráðherra: Er hann reiðubúinn að beita sér fyrir því að flutt verði frv. til laga um fjárgreiðslur úr ríkissjóði sem sé að sjálfsögðu innan þess ramma sem stjórnarskráin setur?