Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 17:09:56 (1575)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi eru skattstofurnar á vegum ríkisins þótt þær séu í mismunandi kjördæmum og ríkisskattstjóri vinnur verk sem er unnið fyrir skattstofurnar í mörgum tilvikum. Það verk sem ég var að lýsa er auðvitað unnið af ríkisskattstjóra en á að koma skattstofunum að gagni þannig að þetta er einu sinni ein samhangandi heild og heyrir undir ríkið, fjmrn. ( Gripið fram í: Já, en þetta er ekki á áætlun.)
    Til viðbótar því sem ég sagði áðan um framtöl einstaklinga þá er enn fremur verið að undirbúa það að við getum tekið í notkun forrit sem gagnast okkur í að leita að misfellum í framtölum á virðisaukaskatti. Það er þetta hvort tveggja sem nú er í undirbúningi. Um það sem hv. ræðumaður sagði að það ætti að líta á allt þjóðfélagið þá er það nákvæmlega það sem við erum að gera. Ef ég hefði eingöngu hugsað um ríkissjóð, þá hefði ég átt að segja: Nú skulum við bara djöfla okkur í að auka viðskiptahallann, flytja sem mest inn og setja verðbólguna á fullt. Ég hefði getað staðið í ræðustólnum, barið mér á brjóst og sagt: Ríkissjóður kemur miklu betur út en nokkur þorði að vona.
    Þetta gerum við ekki. Það er hins vegar alveg rangt að hægt sé að bjarga einhverju með því að auka eingöngu eða tiltölulega mikið fjárgreiðslur til menntamála, heilbrigðismála o.s.frv., af því þá komi einhver vöxtur fram sem komi öllum að gagni. Það verður að líta á alla þætti eins og hv. ræðumaður sagði og ríkissjóður verður að átta sig á því að hann verður að draga saman seglin og draga úr halla sínum til að lækka vextina því vextirnir eru kostnaður fyrirtækjanna og fólksins rétt eins og skattar, svo annað dæmi

sé tekið um kostnað.