Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 17:35:20 (1585)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið en það var þó eitt atriði í máli hæstv. fjmrh. áðan sem varð þess valdandi að ég ákvað að koma hér inn í umræðuna. Hann viðraði það sjónarmið sitt að æskilegt væri að ráðherrar hefðu meira svigrúm til þess að ráðstafa fjárveitingum, ynnu eftir rammafjárlögum og þá væri hver þeirra fjármálaráðherra á sínu sviði. Þetta er hugmyndafræði sem er ágætt að velta fyrir sér. En sú spurning sem ég ætla að beina til hæstv. fjmrh. er á þá leið hvort sú nýja stefna sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. samgrh. hafa tekið upp varðandi skiptingu á vegafé sé liður í þessari stefnu sem hæstv. fjmrh. var að kynna áðan.
    Nú bregður svo við að með ákvörðun ríkisstjórnar og samgrh. er farið að bjóða út vegaframkvæmdir án samþykkis Alþingis. Samkvæmt úrskurði Ríkisendurskoðunar stenst það ekki lög. Þar finnst

mér að sú stefna, sem hæstv. fjmrh. var að lýsa áðan, sé farin að ganga í eilitlar öfgar og að menn verði að gefa sér tíma til að velta framkvæmdinni fyrir sér og gefa sér tíma til að fá nauðsynlegar lagaheimildir samþykktar áður en farið er af stað með slíka stefnu sem hæstv. fjmrh. var að lýsa í ræðustól áðan og birtist okkur í samþykktum ríkisstjórnar sem hæstv. samgrh. er farinn að framkvæma áður en nokkrar lagaheimildir liggja fyrir. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann sé samþykkur þessum vinnubrögðum og hvort þetta sé liður í þeirri nýju stefnu sem hann var að lýsa áðan.