Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 17:38:24 (1586)

     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja umræðuna mikið. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin sem hann veitti fyrr í umræðunni. Það eru örfá atriði sem ég vil undirstrika varðandi ræðu mína fyrr í dag og einhver atriði sem ég vil spyrja um til viðbótar.
    Ég vil fyrst segja það varðandi orðaskipti hæstv. fjmrh. og hv. 2. þm. Norðurl. v. að ég var svo heiðarlegur í mínu máli, og er ég þó ekki að bera óheiðarleika á neinn, að ég gat ekki um þá deilu sem hefur verið milli Ríkisendurskoðunar og fjmrn. um uppsetningu fjárlaga. Ég hefði vissulega getað lagt út af því að þessi halli, sem hér er sýndur, væri of lágt metinn upp á 2,6 milljarða kr. Ég man ekki betur og hef það úr mínum minnisgögnum að Ríkisendurskoðun hafi talið svo vera. Þessi mál eru í skoðun í ríkisreikninganefnd og þar eru viðræður í gangi. Þar er reynt að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Frv. um fjárgreiðslur úr ríkissjóði hefur ekki verið endurflutt enn og ekki hefur verið gengið frá því í fjárln. enn hvernig og hvenær það verður flutt ef það verður niðurstaðan að fjárln. endurflytji frv. Ég gekk því einfaldlega út frá greiðslugrunni og hef ekki farið yfir frv. á öðrum forsendum og ætla mér ekki að hafa fleiri orð um það. Ég tel eigi að síður nauðsynlegt að fram komi sem allra fyrst niðurstaða í þessi mál, um uppsetningu ríkisreiknings og fjárlaga. Það er mjög bagalegt að deilur standi um það efni. En ég ætla mér ekki frekar í neina samanburðarfræði í þessu efni.
    Mér er alveg ljóst að fjárlög og ekkert síður fjáraukalög á hverjum tíma byggjast á áætlunum. Það er ljóst með svo viðamikinn rekstur sem rekstur ríkissjóðs og allra þeirra stofnana og fyrirtækja sem hann hefur með höndum. Það væri mikil nákvæmni ef fjárlög gengu upp og þyrfti ekki að bæta þar um. Mér finnst eðlilegt að fjáraukalög séu flutt og það þarf auðvitað að flytja fjáraukalög aftur í lok árs. Spurningin sem ég var að velta fyrir mér var sú hversu miklar viðbótarfjárveitingar fjáraukalög, sem flutt yrðu í lok árs, gerðu ráð fyrir.
    Sú áætlun að að selja Jarðboranir og Íslenska endurtryggingu segir mér í sjálfu sér ekki mikið um það hve ríkissjóður á von á miklum peningum af sölu þessara fyrirtækja. Allt byggist þetta á áætlunum sem ekki liggja ljósar fyrir.
    Ég vil spyrja nánar um Eyjafjarðarferjurnar og Herjólf og hvort þessi skoðun Ríkisendurskoðunar eða skýrsla, sem hæstv. fjmrh. gat um, er um allar ferjur eða aðeins Eyjafjarðarferjurnar. Mér fannst það ekki koma fram í máli hans. ( Fjmrh.: Um allar.) Hann hefur þá þegar svarað því.
    Ég ætla ekki að lengja þá umræðu sem verið hefur um Hagræðingarsjóðinn. Það hefur komið fram svo greinilega í þessum umræðuma að sú aðgerð að ætla að innheimta tekjur með sölu á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs hefur mistekist og skoðun hæstv. fjmrh. er sú að allar greinar í sjávarútvegi hefðu átt að borga þessar rannsóknir. Það má í sjálfu sér rökræða þá kenningu. Hins vegar var það þungamiðjan í málflutningi stjórnarandstöðunnar um síðustu áramót að sjávarútvegurinn þyldi ekki þessar álögur vegna rekstrarstöðu hans og það á við um allar greinar.
    Ég vil benda hæstv. fjmrh. á það í fyllstu einlægni að tala virðulega um rækjuna og kalla hana ekki kvikindi vegna þess að rækjan hefur bjargað miklu í atvinnuástandinu það sem af er þessu ári. Ef það kvikindi hefði ekki látið sjá sig, þá mundi ég nú biðja fyrir þessari ríkisstjórn enn meira en ég geri venjulega.
    Það hefur einnig komið fram í umræðunni að sparnaður hefur mistekist í heilbrigðiskerfinu. Ég ætla ekki að halda því fram að ekki hafi náðst árangur á einhverju sviði þar en ég tel höfuðmistökin þar að gengið hafi verið of hratt til verks og menn hafi ekki haft yfirsýn yfir allan þennan flókna og margbrotna málaflokk enda kemur það í ljós þegar skrúfað er fyrir einn kranann þá rennur úr öðrum. Það hefur komið greinilega í ljós að ekki hafa náðst tök á heilbrigðiskerfinu og sparaður í heildina tekið hefur ekki náðst.
    Hvað varðar menntmrn. er það vissulega rétt að þar hefur verið farið fram á lækkun útgjalda. Það er náttúrlega eingöngu vegna lánasjóðsins og ekki er enn séð fyrir endann á því hvaða afleiðingar sú löggjöf hefur. Mætti tala um það langt mál en ég ætla ekki að tefja umræðuna með því. Það hefur verið rætt ítarlega og hv. þm. munu áreiðanlega ekki hafa sagt sitt síðasta orð um það.
    Eitt atriði áður en ég lýk máli mínu. Við fjárlaganefndarmenn höfum fengið yfirlit um stöðu mála varðandi 6. gr. fjárlaga og ég þakka fyrir það. Það kemur í ljós, þegar litið er yfir þann lista, að heimildir varðandi kaup á ýmsum embættisbústöðum hafa ekki verið notaðar og komið hefur fram að þau mál eru í athugun í viðkomandi ráðuneytum. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvað þeirri athugun líður. Eru líkur á því að þessar heimildir verði notaðar? Ég sé varðandi þann lista að heimildir, t.d. um læknisbústaði, prestbústaði og aðra slíka hafa ekki verið notaðar á þessu ári. Er einhver heildarstefna þarna að baki og hvaða líkur eru á því að þær heimildir verði notaðar á yfirstandandi ári, svo og aðrar heimildir í 6. gr. sem ónotaðar eru?