Fjáraukalög 1992

40. fundur
Þriðjudaginn 27. október 1992, kl. 18:14:50 (1591)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil benda hæstv. samgrh. á að þetta kemur því ekkert við hvort menn ætli sér að framkvæma eitthvað í vegagerð í vetur. Það eru næg verkefni samkvæmt samþykktri vegáætlun sem hefði verið hægt að vinna við og bjóða út. Ég bendi honum á að ég er ekki að taka neina efnislega afstöðu til þeirra verka sem þarna eru boðin út en ég bendi einfaldlega á að þau sum hver eru ekki einu sinni inni á vegáætlun. Og það eru næg verkefni á fyrirliggjandi vegáætlun sem hefði verið hægt að grípa til til þess að auka vegaframkvæmdir og atvinnu á þessu stigi eins og nú er, enda snýst spurningin ekki um það. Spurningin snýst heldur ekki um það hvort hægt sé að finna eftir á einhverja lagakróka til að bjarga sér í horn. Spurningin snýst um það hvort menn ætli að viðhafa þau vinnubrögð sem hafa verið mótuð á umliðnum árum um framkvæmd vegamála. Það er greinilegt að núv. hæstv. ríkisstjórn ætlar sér ekki að gera það. Hún vill geta búið til sína eigin vegáætlun og fá hana síðan stimplaða eftir á á Alþingi. Það er um það sem málið snýst, hæstv. ráðherra. Það snýst ekki um það hvort ríkisstjórnin er búin að finna sér einhverja lagakróka til að sleppa út úr málinu. Þetta snýst um siðferði og vinnubrögð.