Síldarverksmiðjur ríkisins

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 13:47:44 (1612)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Hér liggur fyrir til umræðu frv. til laga um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins. Frv. samhljóða þessu var flutt á síðasta Alþingi en þá tókst ekki að ræða það til hlítar og var það ekki að fullu afgreitt á því þingi. Það er því endurflutt nú.
    Segja má að fyrir frv. liggi tvær meginástæður. Í fyrsta lagi er á það að líta að vorið 1990 blöstu við mjög alvarlegir og miklir rekstrarörðugleikar hjá Síldarverksmiðjum ríkisins sem óhákvæmilegt var að bregðast við. Ef ekki hefði verið gripið til aðgerða er eins víst að rekstur verksmiðjanna hefði stefnt í óefni. Í öðru lagi er á það að líta að frv. er komið til vegna þess yfirlýsta markmiðs ríkisstjórnarinnar að stefna að því að afla heimilda til að breyta opinberum fyrirtækjum sem starfa á samkeppnismarkaði í hlutafélög og selja þau eftir því sem æskilegt er talið og aðstæður leyfa hverju sinni.
    Í samræmi við framangreinda stefnu og í ljósi þeirra aðstæðna sem voru í rekstri fyrirtækisins var sumarið 1990 hafinn undirbúningur að því að breyta rekstrarformi Síldarverksmiðja ríkisins. Var þá strax skipuð nefnd sem fékk það hlutverk að móta tillögur þar að lútandi. Nefndin skilaði þeim haustið 1990 og voru nefndarmenn sammála um að leggja til að rekstrarformi Síldarverksmiðja ríkisins yrði breytt í hlutafélag.
    Stefna ríkisstjórnarinnar og niðurstaða nefndarmanna endurspeglar þá skoðun sem hefur vaxið mjög fylgi, bæði hér á landi og erlendis, að ríkið eigi að draga sem mest úr allri atvinnustarfsemi sem er í beinni samkeppni við almennan atvinnurekstur. Þá er jafnframt talið henta að reka opinber fyrirtæki, sem þannig háttar til um, í hlutafélagaformi. Með þannig formbreytingu er öllum aðilum sem standa að atvinnurekstri í sömu grein búin sambærileg starfsskilyrði hvort sem fyrirtækin eru í eigu einstaklings, ríkis eða opinberra aðila.
    Þær fiskimjölsverksmiðjur sem eru í rekstri á Íslandi starfa langflestar á grundvelli hlutafélagalöggjafar.
    Rökrétt afleiðing af því er að Síldarverksmiðjum ríkisins sem starfa á samkeppnismarkaði og eru í eigu ríkisins verði breytt í hlutafélag og búi þar með við sama rekstrarform og samkeppnisaðilarnir.
    Ýmis önnur veigamikil rök hníga að því að nýta hlutafélagaformið fyrir fyrirtæki sem þetta. Má þar nefna að hér á landi, eins og í flestum öðrum löndum hins vestræna heims, hefur löggjafinn skilgreint starfsemi hlutafélaga vandlega og sett ítarlegar reglur þar að lútandi. Í lögum um hlutafélög er kveðið nákvæmlega á um starfssvið stjórnar, framkvæmdastjórnar og aðalfunda. Þar eru einnig ákvæði sem vernda rétt minnihlutaeigenda.
    Hlutafélagaformið er að því leyti hentugt félagsform þegar margir aðilar sameinast um rekstur eins fyrirtækis. Einnig má benda á að rekstur fyrirtækis verður sveigjanlegri. Stjórn getur sótt um stuðning við fyrirhugaðar aðgerðir til hluthafa. Unnt er að leita að nýju fjármagni með hlutafjáraukningu og nýjum hluthöfum.
    Þess má geta að fyrstu lög um síldarverksmiðjur í eigu ríkisins voru sett á árinu 1928. Núgildandi lög um Síldarverksmiðjurnar voru sett á árinu 1938 og hafa að mestu leyti staðið óbreytt síðan. Lögin eru í mörgum atriðum úrelt og ýmis ákvæði þess eðlis að nauðsynlegt er að fella þau úr gildi. Má þar nefna að í þeim eru ákvæði um að ríkisstjórnin þurfi að veita leyfi til að reisa eða stækka síldarverksmiðjur. Jafnframt er ríkissjóði í lögunum tryggður forkaupsréttur á síldarverksmiðjum. Þá gera núgildandi lög ráð fyrir að Síldarverksmiðjur ríkisins taki hráefni til vinnslu fyrir reikning innleggjanda en kaupi það ekki.

    Með öll framangreind atriði í huga er með frv. þessu lagt til að Síldarverksmiðjum ríkisins verði breytt í hlutafélag sem taki við rekstri verksmiðjanna frá og með 1. maí nk. Hlutafélagið tekur við öllum eignum Síldarverksmiðja ríkisins, þar með töldum fasteignum. Fara mun fram mat á eignum og skuldum Síldarverksmiðjanna. Matið verður notað til viðmiðunar þegar hlutafé og eiginfjárstaða nýja félagsins verður ákveðin. Ekki er gert ráð fyrir að nýja hlutafélagið yfirtaki uppsafnað rekstrartap Síldarverksmiðjanna en hins vegar er gert ráð fyrir að ríkissjóður yfirtaki hluta skulda verksmiðjanna. Föstum starfsmönnum Síldarverksmiðja ríkisins, sem nú munu vera um 50 talsins, eru tryggð sömu störf við stofnun hlutafélagsins og þeir gegna nú.
    Síldarverksmiðjurnar reka nú verksmiðjur á fimm stöðum á landinu, á Skagaströnd, Siglufirði, Raufarhöfn, Seyðisfirði og Reyðarfirði auk vélaverkstæðis á Siglufirði. Eru verksmiðjurnar vel tækjum búnar. Ekki er ofsögum sagt að verksmiðjurnar eru burðarás í atvinnulífi flestra þessara sveitarfélaga sem eiga hlut að máli. Á Skagaströnd er þó eingöngu unninn fiskúrgangur. Í hinum verksmiðjunum hefur um árabil aðallega verið framleitt mjöl og lýsi úr loðnu. Afkastageta þessara fjögurra verksmiðja er talin vera tæplega 30% af afkastagetu allra fiskimjölsverksmiðja í landinu.
    Á undanförnum sjö árum hafa Síldarverksmiðjur ríkisins að meðaltali tekið á móti og unnið úr tæplega 25% af því magni sem landað var hjá innlendum bræðslum. Mest var móttekið á árinu 1986, eða 31,4% en minnst á árinu 1991 eða 12,5%. Það ár fór tvennt saman. Annars vegar var loðna gengin austur fyrir land þegar veiðar hófust. Verksmiðja SR á Siglufirði tók þar af leiðandi á móti litlu magni þar sem of langur siglingartími var af miðunum til Siglufjarðar. Hins vegar var verið að ljúka enduruppbyggingu á verksmiðjunni á Seyðisfirði þannig að hún tók einnig á móti litlu magni.
    Á vetrarvertíð 1992 jókst hlutur SR aftur og tóku verksmiðjurnar á móti tæplega 28% af þeirri loðnu sem landað var til bræðslu innan lands.
    Átta af síðustu níu árum hafa Síldarverksmiðjur ríkisins verið reknar með tapi. Árið 1991 var 325 millj. kr. tap af rekstrinum, 157 millj. kr. árið 1990 og 160 millj. kr. árið 1989. Eigið fé félagsins hefur rýrnað að sama skapi. Í árslok 1986 var eigið fé félagsins um 800 millj. kr. á verðlagi ársins 1990 en í árslok 1991 var það komið niður í um það bil 64 millj. kr. reiknað á sama verðlagi.
    Tap Síldarverksmiðjanna má m.a. rekja til brests í loðnuveiðum og þungbærra fjármagnsgjalda vegna mikilla fjárfestinga og lántöku þeirra vegna. Milliuppgjör fyrstu sex mánaða þessa árs sýnir breytingar til batnaðar á afkomu fyrirtækisins. Hagnaður að fjárhæð 37 millj. kr. varð af rekstrinum samanborið við 236 millj. kr. tap á sama tímabili árið 1991.
    Árið 1989 var ráðist í enduruppbyggingu á Seyðisfirði. Kostnaður af breytingum fór fram úr áætlun og er fyrirsjáanlegt að sú framkvæmd muni verða verksmiðjunum að fótakefli verði ekkert að gert. Uppsafnaðar skuldir Síldarverksmiðja ríkisins voru um 1.445 millj. kr. í árslok 1991. Framlag rekstrar til afskrifta og fjármagnskostnaðar miðað við framleiðslu í meðalári nemur um 13--14% af tekjum samkvæmt rekstraráætlun verksmiðjanna. Miðað við þær forsendur munu Síldarverksmiðjur ríkisins ekki geta staðið undir greiðslubyrði vaxta og afborgana af þegar teknum langtímalánum.
    Er því með frv. þessu í tengslum við stofnun hlutafélags leitað heimildar til að ríkissjóður yfirtaki allt að 500 millj. kr. af skuldum verksmiðjanna að undangengnu mati sjútvrn. og fjmrn. á rekstrarhæfni verksmiðjanna þannig að eiginfjárstaða hins nýja félags verði viðunandi.
    Verði frv. þetta að lögum er lagður grunnur að næsta skrefi málsins sem er að einkavæða fyrirtækið. Ríkissjóður verður einn eigandi allra hlutabréfa í hinu nýja félagi í upphafi. Enda þótt ríkissjóður verði eigandi allra hlutabréfanna við stofnun þess er fyrirhugað að selja öðrum hlutabréf í félaginu eða einstakar eignir þess. Skal við söluna sérstaklega horft til heimamanna og starfsmanna á þeim stöðum þar sem verksmiðjur eru starfræktar. Meta þarf sérstaklega hvenær aðstæður eru ákjósanlegar til sölu áður en ákvörðun verður tekin þar um. Að mati fiskifræðinga eru horfur um loðnuveiðar næstu tvö ár

vænlegri en oft áður. Það ætti að geta leitt til betri sölumöguleika og að hæfilegir samningar um sölu náist þegar þar að kemur.
    Frú forseti. Ég hef þá lokið við að gera í aðalatriðum grein fyrir þeim ástæðum sem liggja til þess að þetta frv. er nú flutt að nýju á þann veg að Síldarverksmiðjunum verði breytt í hlutafélag og að heimilað verði í framhaldi af því að selja hlut ríkisins eða einstakar eignir þess.
    Ég legg svo til, frú forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.