Síldarverksmiðjur ríkisins

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 13:57:32 (1613)


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Um þetta mál urðu alllangar umræður í fyrra þegar samhljóða frv. var til umræðu á Alþingi. Ég ætla ekki að endurtaka margt af því sem þar var sagt. En ég vil þó ekki láta þessa umræðu fram hjá mér fara. Hér er um að ræða skref til einkavæðingar. Eins og ríkisstjórnin hefur meðhöndlað einkavæðinguna til þessa og eins og hún hefur birt áform sín um einkavæðingu og unnið að málinu hlýtur maður að hrökkva við þegar maður heyrir einkavæðinguna nefnda. Það er sannarlega ekki til fyrirmyndar hvernig haldið hefur verið á henni.
    Þetta er tekið í tveimur skrefum. Fyrst er stofnað hlutafélag og hvað breytist við hlutafélagsstofnunina? Jú, ráðherra kemur til með að hafa vald á stjórninni með öðrum hætti. Hún kemur ekki til með að starfa í umboði Alþingis. Ráðherra velur stjórnarmenn. Þetta á almennt við um þá breytingu að gera ríkisfyrirtæki að hlutafélögum. Ég er ekki búinn að sjá að þessi breyting skipti verulegu máli. Það er auðvitað ágætt fyrir ráðherrann að geta raðað þarna flokksbræðrum sínum. En að stjórnin verði starfhæfari fyrir það, því hef ég ekki trú á.
    Næsta skref, sem líka er í þessu tilfelli ýjað að að tekið verði, er að selja þetta fyrirtæki. Það væri kannski eðlilegra fyrir þá að tala um að afhenda fyrirtækið því það hefur venjulega verið reynslan þegar ríkisstjórnin hefur verið að einkavæða, að afhenda það sem fémætt er af eignum ríkisins einhverjum þóknanlegum aðilum. Hér er farið vinsamlegum orðum um að heimamenn geti gjarnan keypt þetta. Ég geri heldur lítið með það. Það er ekkert alveg víst að heimamenn hafi á hverjum stað tækifæri eða peninga til að ráðast í þessa fjárfestingu. Þetta verður til að búta þetta myndarlega fyrirtæki í sundur og hugsanlega yrði það til þess að leggja niður einhverjar verksmiðjur Síldarverksmiðjanna. Við þekkjum dæmi þess að Kolkrabbinn hefur ekki vílað fyrir sér að yfirtaka fyrirtæki til þess eins að loka þeim. Og því skyldi það ekki geta orðið eins með Síldarverksmiðjur ríkisins eða einstakar einingar þess fyrirtækis ef honum yrði t.d. afhent þetta fyrirtæki?
    Ég hef í tvígang a.m.k. borið fram frv. til laga um það að sölu á hlutabréfum og öðrum eignum ríkisins verði að samþykkja á Alþingi alveg eins og sölu á fasteignum. Það má ekki selja einn skúr í eigu ríkisins öðruvísi en heimildar Alþingis sé leitað. Ég tel að sama eigi að gilda um aðrar eignir ríkisins. Ég mun endurflytja þetta frv. Ég teldi málið horfa ofurlítið öðruvísi við ef Alþingi afsalaði sér ekki valdi á málinu með þeim hætti sem það mun gera ef þetta frv. verður samþykkt og síðan ekki söguna meir.
    Í einkavæðingarhugmyndum ríkisstjórnarinnar hafa starfsmannamál komið til athugunar. Sú varð niðurstaða a.m.k. hluta iðnn. Alþingis í fyrra að starfsmannamálin væru vandasöm. Það er ekki hægt að versla með þetta fólk. Það er ekki hægt að selja það eða réttindi þess eins og verksmiðjurnar.
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta, frú forseti. Mér finnst að það þurfi að athuga þetta frv. vandlega áður en það verður samþykkt. Ég er reyndar ekki viss um að það sé skynsamlegt að samþykkja það. Ein afleiðing af þessum frumvarpsflutningi er hins vegar alveg augljós. Hún er sú að skapa óvissu í þeim byggðarlögum sem eiga mikið undir rekstri Síldarverksmiðja ríkisins.