Síldarverksmiðjur ríkisins

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 14:23:06 (1616)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Frv. það, sem hér er flutt, var flutt á síðasta Alþingi og fékk ekki lokaafgreiðslu. Ég vil byrja á því að segja að ég tel það afar þýðingarmikið að þessu máli verið lokið sem fyrst þannig að það skapist einhver vissa um framtíðarform þessa fyrirtækis svo hægt sé að byggja það upp, selja það eða gera annað það við það sem menn telja nauðsynlegt. Stöðug óvissa um atvinnurekstur eins og þennan er afar óheppileg. Það er alveg nóg að hafa óvissu um það hvernig muni fiskast á næstu vertíð eða næstu vertíðum, eins og ávallt mun verða, þótt ekki bætist við mikil óvissa um form fyrirtækis sem þessa. Þetta mál hefur verið til umfjöllunar um nokkurra ára skeið og það er kominn tími til að ljúka því.
    Ég harma að ekki skyldi hafa tekist að ljúka þessu máli á síðasta þingi. Það var allmikið unnið í því og við sem störfuðum í minni hluta sjútvn. vorum með nokkrar breytingartillögur. Ég tel að það hafi í sjálfu sér verið mjög auðvelt að ná samstöðu um þessar tillögur og taka tillit til þeirra án þess að skemma á nokkurn hátt fyrir framgangi málsins eða gera það erfiðara. Þar var um að ræða að þrengja ýmis ákvæði frv. og kveða betur á um sölu eigna, um kjör stjórnar, um efnahagsreikninga og skattalega stöðu, um samstarf við heimamenn og um réttindi starfsmanna. Ég vil í þessu sambandi rifja upp að lagt var til af minni hluta nefndarinnar að ríkisstjórnin fengi aðeins í upphafi heimild til að selja 40% af hlutafénu en síðan þurfi ríkisstjórnin að fá heimild Alþingis til að selja meira og jafnframt til sölu á einstökum verksmiðjum.
    Það er einfaldlega svo að ýmsir aðilar, sem hafa hagsmuna að gæta, óttast það að einstakar einingar verði seldar og allir viðmælendur okkar sem komu og ræddu þessi mál töldu að það væri mikilvægt að reka þetta fyrirtæki áfram sem eina heild. Ég tel ekki erfitt fyrir hæstv. ríkisstjórn að fallast á slíka breytingu vegna þess að enginn útilokar það að meira verði selt, aðeins verið að kveða á um að til þess þurfi að leita frekari heimildar Alþingis. Það er veruleg óvissa í sambandi við þessi mál og ekki óeðlilegt að eftir slíkum heimildum sé leitað þegar þar að kemur. Það má líka spyrja sig í því sambandi hversu fýsilegt það sé að selja verksmiðjurnar á þessum tíma.
    Það er vissulega rétt hjá hæstv. sjútvrh. að sem betur fer lítur betur út með loðnuveiðar í framtíðinni. Samkvæmt þeim efnahagsreikningi sem liggur fyrir í árslok 1991, sem ekki er stofnefnahagsreikningur hins væntanlega fyrirtækis heldur staðan eins og hún lá fyrir í lok 1991, er eigið fé því miður harla lítið ef fallist er á mat eignanna. Hins vegar er það mjög erfitt mál því eins og fram kom í fylgiskjali með frv. í umsögn frá endurskoðendum fyrirtækisins út af þessum reikningsskilum, með leyfi forseta: ,,Réttmæti þessarar eignfærslu er háð möguleikum fyrirtækisins til nýtingar eignanna í áframhaldandi arðbærum rekstri.``
    Nú hefur hæstv. sjútvrh. upplýst að það hafi verið hagnaður af rekstri fyrirtækisins fyrri hluta árs 1992. Ég á þá von á því, án þess að ég hafi séð þann rekstrarreikning, að sá hagnaður sé eftir að allir vextir hafa verið greiddir og eignir fyrirtækisins afskrifaðar. Það gefur vissulega von um að þar sé komin nokkur arðsemi á því eigin fé sem kann að finnast í fyrirtækinu og gefur tilefni til að álíta að eigið fé þess sé meira virði en kemur fram í þessu yfirliti, að það sé aðeins 69 millj. kr. virði í árslok 1991. Ávöxtun upp á 37 millj. gefur tilefni til þess en auðvitað er hér veruleg óvissa á ferð. Því má segja að eðlilegt sé að líta betur á þessi mál. Þess vegna finnst mér rétt að spyrja: Er gert ráð fyrir því að þær 500 millj. kr., sem reiknað er með að ríkið yfirtaki, verði hlutafé ríkisins í þessu nýja fyrirtæki í þeim tilgangi að selja þetta hlutafé ásamt þeim eignum, sem þarna verða fyrir hendi, síðar meir?
    Annað atriði sem við gerðum að umræðuefni í starfi nefndarinnar var kjör stjórnar. Þar var gert ráð fyrir því að Alþingi kjósi stjórnarmenn fyrirtækisins í samræmi við eignarhlut ríkisins, þ.e. svo lengi sem ríkið á meiri hluta í fyrirtækinu. Ég geri mér vissulega grein fyrir því að hér er um umdeilanlegt atriði að ræða, hvort Alþingi eigi almennt að kjósa stjórnarmenn í fyrirtæki sem þetta eða hvort ráðherra og ríkisstjórn eigi að fara með eignarhlut ríkisins að öllu leyti. Þannig er það í flestum tilvikum en um þetta var flutt breytingartillaga af minni hlutanum og við létum það koma fram að við værum að sjálfsögðu til viðræðu um aðra skipan þessara mála en þarna var lagt til, ekki síst með tilliti til þess hvernig þessum málum er háttað almennt í öðrum fyrirtækjum. Aðalatriðið er að sjálfsögðu það að stjórnarmenn sem veljast til slíkra starfa hafi þekkingu og yfirsýn í slíkum rekstri og séu valdir á þeim grundvelli. Einnig er mikilvægt að það sé það mikil breidd í vali þeirra að þeir séu að einhverju leyti fulltrúar þeirra sem hafa hvað mestra hagsmuna að gæta í slíku máli þótt þeir eigi að sjálfsögðu að vera fulltrúar hagsmunaeigenda fyrirtækisins þegar upp er staðið. Á það vil ég leggja áherslu.
    Við fjölluðum líka í þessu nefndaráliti um efnahagsreikning og skattalega stöðu fyrirtækisins. Það er ljóst að þegar því verður breytt í hlutafélag mun það yfirtaka einhvern ákveðinn efnahagsreikning sem ekki hefur verið kynntur og það liggur líka fyrir að það er ekki gert ráð fyrir því að skattaleg áunnin réttindi, sem hefðu verið fyrir hendi ef félagið hefði verið hlutafélag, mundu færast yfir í hið nýja fyrirtæki. Það hefur því miður verið verulegt tap á fyrirtækinu á undanförnum árum og ef það hefði verið rekið í hlutafélagsformi væru þessi réttindi talin nokkurs virði miðað við að það gæti orðið hagnaður á því í framtíðinni. Það er að mínu mati eðlilegt, þegar mál sem þetta er endanlega afgreitt, að upphafsefnahagsreikningur í fyrirtæki sem þessu liggi nokkurn veginn fyrir því að það hefur að sjálfsögðu mikil áhrif á skattalega stöðu þess og mat aðila á því þegar þeir huga að kaupum á því eða hlutum úr því.
    Í fjórða lagi gerðum við að umtalsefni samstarf við heimamenn sem er ekki aðeins mikilvægt vegna heimamanna heldur líka ekkert síður vegna fyrirtækisins sjálfs. Það er ljóst að það koma alltaf upp margvísleg samstarfsmál þar sem mikilvægt er að staðbundin þekking sé fyrir hendi. Því gerðum við ráð fyrir því að flytja þá brtt. og fluttum þá brtt. að nauðsynlegt væri að í samþykktum félagsins væri ákvæði um sérstaka samstarfsnefnd. Með því var verið að tryggja að heimamenn kæmu að stjórn fyrirtækisins og hefðu þar eðlileg ítök. Við lögðum á það áherslu að þetta væri ekki aðeins nauðsynlegt vegna byggðarlaganna heldur jafnframt fyrir fyrirtækið sem heild.
    Nú er það vissulega svo að þegar einkaaðilum er selt þetta fyrirtæki að einhverju eða öllu leyti þætti sjálfsagt mörgum ekki eðlilegt að yfirtaka skyldur um slíkt samstarf. Þó held ég að ekki megi líta á það sem einhverja byrði á fyrirtækinu heldur muni það jafnframt hafa jákvæð áhrif fyrir það sjálft og það andrúmsloft og umhverfi sem það starfar í. Þetta tel ég vera atriði sem allir ættu að geta fallist á.
    Að síðustu var fjallað um réttindi starfsmanna sem er búið að fjalla hér um og ég sé ekki ástæðu til að gera frekar að umræðuefni. Ég vil því almennt segja að ég er sammála því að þessu fyrirtæki sé breytt í hlutafélag og tel að það eigi að gerast sem fyrst. Það er mikilvægt að þessi starfsemi geti haldið áfram á þeim stöðum þar sem fyrirtækið er með rekstur. Það skiptir miklu máli í atvinnulegu tilliti, ekki síst nú á tímum atvinnuleysis og vaxandi samdráttar. Ég tel hins vegar að það sé nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á frv. og vænti þess að um það geti náðst samstaða þannig að það tefji á engan hátt fyrir afgreiðslu málsins. Ég er a.m.k. tilbúinn til að standa að því tiltölulega fljótt og vil þá minna á að við fluttum hér efnislegar og málefnalegar brtt. á síðsta ári. Því miður var ekki tekið neitt tillit til þeirra. En það sem verra var, hæstv. forseti, það var ekki gerð nein tilraun til þess að leita samkomulags um málið og þar af leiðandi varð niðurstaðan sú að málið dagaði uppi á Alþingi. Ég er helst á því að það hefði verið betra fyrir alla aðila að ljúka málinu og taka nokkurt tillit til þeirrar málefnalegu gagnrýni sem fram kom af hálfu minni hlutans.