Síldarverksmiðjur ríkisins

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 14:36:59 (1617)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram. Að vonum hafa þær fyrst og fremst snúist um atriði sem rædd voru á síðasta þingi og af þeim sökum er ekki ástæða til þess nú, áður en málið fer til nefndar, að fara mörgum orðum um þau álitaefni því að þau hafa verið rædd hér ítarlega áður. Hér hefur verið vikið að því eins og á síðasta þingi, hvaða hátt ætti að hafa á skipan manna í stjórn félagsins. Hér er gert ráð fyrir því að sá háttur verði viðhafður sem tíðkaður er í hlutafélögum, að hluthafafundir og þeir sem fara með atkvæði á hluthafafundi kjósi menn í stjórn. Ég hygg að það sé rökrétt og eðlilegasta fyrirkomulagið í þessu sambandi.
    Á það hefur verið minnst að Alþingi væri að afsala sér valdi í þessu máli að því er varðaði sölu verksmiðjanna. Ég lít svo á að hér sé verið að leita eftir heimild Alþingis í því efni. Það er eðlilegt og að mínu mati nauðsynlegt að sú heimild sé sveigjanleg því að vissulega þarf að taka tillit til markaðsaðstæðna og meta á hverjum tíma hvort og þá hvernig heppilegast er að standa að sölu slíkra fyrirtækja. En sala fer ekki fram fyrr en Alþingi hefur veitt til þess heimild og hér er verið að óska eftir henni.
    Eðlilega hafa menn velt því fyrir sér hvort eðlilegt megi telja að selja fyrirtækið í heild eða hluti í því ellegar þá að selja einstakar eignir. Frv. gerir ráð fyrir því að hér geti menn einnig haft svigrúm eftir því hvernig aðstæður eru. Vissulega geta verið rök fyrir því að freista þess að halda fyrirtækinu sem einni heild og selja einungis hluti í félaginu en hitt kann að vera skynsamlegt, m.a. með tilliti til hagsmuna heimamanna, að selja einstakar eignir. Það verður að meta þegar þar að kemur og því er gert ráð fyrir heimildum af því tagi sem hér er fjallað um.
    Að því er varðar réttindi starfsmanna er þar kannski meira um að ræða formlegan ágreining, hvort kveða eigi á um þetta atriði í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eða í þessum lögum. Ágreiningslaust er að ef slíkt ákvæði væri fyrir hendi með ótvíræðum hætti í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna væri þetta óþarft. Á hinn bóginn má ljóst vera að það á ekki, að mínu mati, að tefja framgang þessa máls að slíkt ákvæði er ekki fyrir hendi í starfsmannalögunum.
    Að því er varðar þær 500 millj. sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður geti yfirtekið af skuldum fyrirtækisins, þá er ekki verið að mæla svo fyrir um að það skuli gert heldur er hér um að ræða heimild. Það verður fyrst tekin um það ákvörðun hvort hún verður að einhverju eða öllu leyti notuð þegar úttekt hefur verið gerð á stöðu fyrirtækisins áður en fyrirtækið verður formlega stofnað og rekstrarhæfni þess metin. Það liggur því ekki fyrir að sjálfkrafa verði yfirteknar 500 millj. kr. af skuldum fyrirtækisins.
    Ég vil svo að lokum taka undir það sjónarmið, sem hv. 1. þm. Austurl. nefndi, að það er mikilvægt að ljúka þessu máli sem fyrst. Það er óheppilegt fyrir stöðu fyrirtækisins að ákvarðanir sem þessar séu mjög lengi á döfinni. Vitaskuld þarf Alþingi sinn tíma til að fjalla um svo veigamikið mál en hér eru miklir hagsmunir í húfi og mikið veltur á því að ekki sé lengi óvissa um það í fyrirtækinu hvernig þeim fyrirhuguðu breytingum, sem hér er verið að fjalla um, vindur fram. Því er mikilvægt að Alþingi hraði afgreiðslu málsins svo sem kostur er. Ég treysti því að á þessu þingi, sem hinu fyrra þegar málið kom til umfjöllunar, muni hv. sjútvn. ræða málið og hraða afgreiðslu þess.