Fuglaveiðar og fuglafriðun

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 15:29:49 (1624)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 2. þm. Suðurl., spurði um stefnu ríkisstjórnarinnar. Raunar kom öll hans ræða mér nokkuð á óvart. Stefna ríkisstjórnar Íslands sem gerir samning á alþjóðavettvangi hlýtur að vera sú að standa við samninginn. Hún getur ekki að mínu mati a.m.k., og nú tala ég án þess að hafa ráðgast við samstarfsmenn mína, verið sú að brjóta samninginn á sem flestum sviðum og láta á það reyna hvort við komumst upp með það eða hvort refsingarnar kunna að vera svo veigalitlar að þær skipti okkur ekki máli. Ég verð, virðulegi forseti, að segja það að hugsunarháttur af þessu tagi gagnvart samningum hvort sem þeir eru við aðrar þjóðir, einstaklinga eða fyrirtæki, kemur mér verulega á óvart. Ef við gerumst aðilar að samningi og undirritum samning hlýtur það að vera okkar mark og stefna að standa við samninginn og ætlast jafnframt til þess að aðrir geri það.
    Hv. þm. spurði mig líka hversu víðtækar refsingarnar mundu verða. Ég játa það í fullri hreinskilni að ég hef ekki þekkingu til þess að ræða það mál í smáatriðum. Hann spurði líka: Liggur nokkuð á? Það getur verið álitamál hversu mikið liggur á. Ég taldi rétt að leggja þetta frv. fram hér og nú. Í frv. sem var til umræðu í fyrra voru svipuð ákvæði eins og ég rakti í minni framsögu. Ég tel líklegt að það taki lengri tíma að fá það samþykkt og það er stefnt að því að þessi samningur öðlist gildi fyrir áramót og því taldi ég brýnt að flytja frv. af því tagi sem hér liggur nú frammi.
    Í rauninni er hér ekki um mjög flókið mál að ræða þótt auðvitað getum við gert málið flókið með því að ræða lengi um athyglisverð atriði sem eignarréttur, afnotaréttur á almenningum og lendum af því tagi er. Það er mál sem við þurfum að ræða. En kannski væri skynsamlegra að ræða það undir öðrum formerkjum. Nefnd sem um margra ára skeið hefur fjallað um þau efni mun vera í þann veginn að skila áliti. Ég tel mjög brýnt, eins og raunar segir í stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar, að sett verði lög um afnotarétt á landi sem ekki er í skýrri séreign. Þessi nefnd sem ég áður gat um mun skila áliti áður en langt um líður og ég bíð þess með nokkurri óþreyju að sjá hver hennar niðurstaða verður. Ég hygg að hún muni hafa starfað síðan 1983 eða 1984 ef mig ekki misminnir.

    Það sem hér er um að tefla er í rauninni sáraeinfalt. Eins og nú er í lögum eru það íslenskir ríkisborgarar einir sem hafa rétt til þeirra veiða sem hér um ræðir. ( Forseti: Forseti er tilneyddur að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann eigi langt mál eftir þar sem lofað hafði verið að utandagskrárumræða hæfist klukkan hálffjögur og forseti yrði þá að líkindum að fresta umræðu um þetta mál.) Já. Nú er það svo, virðulegi forseti, að ég á allmörgum spurningum ósvarað sem til mín var beint og geri ráð fyrir þó að ég gæti auðvitað fallist á að ljúka minni ræðu nú og málið færi þá til nefndar, að þingmönnum þyki eðlilegt að þeirra spurningum verði svarað. Ég kýs þá að gera hlé á minni ræðu. ( Forseti: Forseti þakkar það því að þingfundi verður fram haldið kl. 6 og þá er unnt að halda þessari umræðu áfram.)