Fuglaveiðar og fuglafriðun

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 18:12:54 (1641)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hæstv. umhvrh. undraðist það að ég skyldi velta því fyrir mér hversu langt Alþingi ætti að ganga í að breyta lögum til þess að vera alveg öruggt um að ekkert ákvæði í íslenskum lögum kynni að stangast á við samninginn um EES. Honum fannst það ekki góður hugsunarháttur. Mig langar aðeins að spyrja hæstv. umhvrh. hvað honum finnst um viðhorf íslensku ríkisstjórnarinnar, t.d. til síðasta málsl. 5. gr. í viðbæti 1 við bókun 3 sem hér hefur verið rædd nokkrum sinnum þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Upphæð aðflutningsgjalda sem lögð eru á við landamærin skal þó aldrei vera hærri en það sem Ísland leggur á innflutning frá nokkrum samningsaðila árið 1991.``
    Í enska textanum er að vísu enn þá fastar kveðið að orði, að aðflutningsgjald skuli undir engum kringumstæðum vera hærra. Nú hafa ráðherrar lýst því yfir hér á Alþingi að íslenska ríkisstjórnin ætli ekki að fara eftir orðanna hljóðan einu sinni, þar sem virðist ekki vera nokkur vafi á orðalagi, heldur lýsir ríkisstjórnin því yfir að hún ætli að leggja aðflutningsgjöld á vörur sem engin aðflutningsgjöld voru á í desember. Hæstv. viðskrh. sagði

í vor að þarna hefði mátt vera ákveðnara orðalag og að niðurstaða um þetta fengist ekki fyrr en sameiginlega nefndin hefði fjallað um málið. Hvað ríkisstjórnin ætlar þá að gera, hvort hún ætlar að taka við viðurlögum vegna brots á þessu ef þannig yrði úrskurðað, breyta lögunum eða hvernig hún ætlar að fara að, þori ég ekki að segja um. En þarna ætlar ríkisstjórnin að reyna að ganga á móti því sem hægt er að lesa beint út úr þessari bókun.
    Síðan getum við litið til Evrópubandalagsins, hvernig það vinnur í sambandi við þennan samning. Þar verðum við því miður vör við ýmislegt sem gengur okkur ekki í haginn. Það heyrist að ýmis atriði, t.d. í sjávarútvegssamningnum muni verða okkur óhagstæðari en gefið var í skyn, a.m.k. í upphafi, af hálfu Íslendinga. Þar virðist Evrópubandalagið því ekki vera að hugsa um að teygja sig eins langt og það getur til þess að koma til móts við það sem samningurinn segir.
    Það síðasta sem við höfum frétt um það viðhorf snertir einmitt landbúnaðarvörurnar því að hér aftan við þessa bókun, á bls. 21 í einni bókinni er listi, viðbætir 2, 3, 4, 5, 6 og 7, sem eftir var að fylla út þegar undir samninginn var skrifað og þessi bók var prentuð. Eitt af þeim ákvæðum sem þar á að koma inn er á hvaða grunn skuli leggja þessi jöfnunargjöld. Í bréfi sem kom frá Noregi segir að þar ætli Evrópubandalagið ekki að standa við það sem gengið var út frá í viðræðunum um þann grunn. Norsku bændasamtökin segja að ef eigi að hverfa frá því sem út frá var gengið, þó að það væri ekki komið fast á blað, þá þýddi það að sumar atvinnugreinar norsks landbúnaðar mundu algerlega hrynja. Reyndar er í því bréfi líka sú alvarlega fullyrðing að Norðmenn standi alveg einir í því að reyna að berjast fyrir því að fá Evrópubandalagið til þess að standa við orð sín. Það er því íhugunarefni fyrir okkur Íslendinga hvort ekki er verið að gæta þar okkar hagsmuna að þessu leyti. Ég nefni þetta hér til þess að sýna að ég tel að það sé ekkert óeðlilegt að á meðan við erum að fjalla um samninginn veltum við því fyrir okkur hversu langt þurfi að ganga til að uppfylla samninginn og hvað muni gerast ef við göngum í upphafi ekki nógu langt, förum okkar frekar hægar en hraðar. Hvað telur ríkisstjórnin að muni leiða af því að skilja þetta ákvæði við bókun 3 á þann veg sem hún gerir? Ég hef ekki fengið svar við því.
    Það sem síðan má segja að sé aðalatriðið í þessu er að Alþingi hefur ekki samþykkt neinn samning enn þá. Við erum að fjalla um hann og auðvitað getum við gefið okkur ákveðnar forsendur, að við skiljum þetta á þennan veg og ef þeim forsendum er fullnægt getum við fallist á samninginn en annars ekki. Úr því að þessi ákvæði eru, ef öllum forsendum er ekki fullnægt komi til einhver viðurlög, þá er það öryggisákvæði fyrir aðra gagnvart samningnum. Ég tel því að það þurfi ekki að vera slæmar hvatir sem liggja að baki þeirri hugsun að velta svona atriðum fyrir sér og þá sérstaklega hvort íslenska ríkisstjórnin ætlar að ganga miklu lengra en t.d. Evrópubandalagið gerir í sinni afstöðu í því að fullnægja öllu því sem hugsanlega kynni að vera farið fram á í þessum samningi þótt vafi kunni að vera á eins og tekið er fram í greinargerð þessa frv. um þetta atriði.