Lánsfjárlög 1993 o.fl.

41. fundur
Miðvikudaginn 28. október 1992, kl. 19:09:21 (1646)


     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins gera að umtalsefni örfá atriði þessa máls. Ég skal ekki gera það í löngu máli því að hér er um mál að ræða sem kemur til umfjöllunar í þeirri nefnd sem ég á sæti í. Við hljótum í þessu máli eins og mörgum öðrum að taka mið af stöðu okkar Íslendinga um þessar mundir og skuldastöðu landsins út á við sem er ekki

góð. Við skuldum of mikið erlendis og þar að auki er framleiðslan ekki nægilega mikil og staða atvinnulífsins almennt heldur bágborin. Það má því spyrja hvort þær áherslubreytingar komi fram í þessu frv. sem eru nauðsynlegar við þessar aðstæður. Það er alveg ljóst að reynt er að halda erlendum lántökum í skefjum en spurningin hlýtur hins vegar að vera: Er þar nóg að gert? Er því lánsfé sem við munum hafa til ráðstöfunar varið til réttra hluta? Mér er það alveg ljóst að stjórnvöld munu að sjálfsögðu ekki ráða því nema að einhverju leyti en geta þó haft veruleg áhrif þar á.
    Það er eins og oft áður eftirtektarvert að samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að innlend lántaka til húsnæðismála á árinu 1993 verði 21 milljarður. Það kemur jafnframt fram að lántaka til atvinnuvegasjóðanna er um það bil 7 milljarðar.
    Ég vil nefna í þessu sambandi að samkvæmt 4. gr. er gert ráð fyrir því að Landsvirkjun taki lán upp á rúma 7 milljarða kr. á næsta ári án þess þó að þar sé um að ræða neinar verulegar fjárfestingar. Það eru sem sagt í reynd skuldbreytingar Landsvirkjunar. Þeir eru að taka ný lán til að borga af öðrum lánum í þeim tilgangi að lengja afborgunartíma á heildarskuldum fyrirtækisins. Ég er ekki með þessum orðum að segja að þetta sé óeðlilegt. Það er eðlilegt þegar lán eru til tiltölulega skamms tíma að menn leiti leiða til að hafa fjármál fyrirtækja í lagi og skuldbreyti með þessum hætti.
    Nú held ég að það sé staðreynd að íslenskt atvinnulíf og kannski ekki síst sjávarútvegurinn getur á næstunni ekki greitt mikið niður skuldir sínar. Það eru þannig aðstæður í landinu að við megum þakka fyrir ef við getum haldið sjó og reynt að viðhalda þeirri stöðu sem sjávarútvegurinn er í og verðum trúlega að sætta okkur við að hann geti lítið greitt niður skuldir sínar. Að vísu virðist ríkisstjórn Íslands vera á annarri skoðun. Hún er þeirrar skoðunar að það sé hægt að láta þessa atvinnugrein borga sérstaka skatta og sýnir í reynd í hvaða hugarheimi ráðherrarnir eru. Þeir eru alltaf hugsa um það að bæta stöðu ríkissjóðs án tillits til þess hvort sá sem á að bæta stöðu ríkissjóðs er almennt fær um það. Það verður illa hægt að bæta stöðu ríkissjóðs ef fyrirtæki verða gjaldþrota í stórum stíl. Mér finnst þar af leiðandi að það hljóti að vera umhugsunarefni og ekki aðeins umhugsunarefni heldur nauðsynlegt að yfirfara hvort ekki sé rétt að draga úr lántöku til húsnæðismála og auka ráðstöfunarfé þeirra aðila sem lána til atvinnulífsins.
    Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þetta mun að einhverju leyti hafa þau áhrif að það muni draga úr nýbyggingum á húsnæði. Auðvitað mun það verða til þess að gera stöðu byggingariðnaðarins verri. En við hljótum að þurfa að hugsa fyrst og fremst um hvað mun verða til þess að auka hér framleiðsluna og hvað mun verða til þess að efla hér atvinnulífið í heild. Mér finnst engar hugleiðingar koma fram í sambandi við þetta mál sem ætti að vera mjög verðugt í máli sem þessu um þessar mundir. Þar af leiðandi hljótum við að taka þetta frv. með nokkrum fyrirvara. Það sé svona svipað og fjárlagafrv. að það sé allt til skoðunar og seinni breytingar og þar af leiðandi sé ekki ástæða til þess að ræða það af jafnmikilli alvöru og annars stæðu efni til.
    Það eiga sér stað viðræður um þessi mál eftir því sem mér skilst milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar um breytingar á þessu máli og ríkisfjármálunum í heild sinni, en mér er það engan veginn ljóst hvar þær viðræður eru staddar né hvaða forustu ríkisstjórnin er þar að veita. Mér er nær að halda að sú forusta sé heldur lítil og þar af leiðandi eigi þessar viðræður sér fyrst og fremst stað milli aðila vinnumarkaðarins. Það skiptir ef til vill ekki meginmáli. Ég get tekið undir það eins og ég hef skilið hæstv. fjmrh. að auðvitað er aðalatriðið að menn komist að skynsamlegri niðurstöðu. Hins vegar er ég viss um það að málið í heild sinni er svo erfitt og vandmeðfarið að það verður ekki lagt á neinn einn aðila að fjalla um það og hlýtur að þurfa að koma þar til mjög náin samvinna milli hinna ýmsu áhrifaaðila í okkar samfélagi.
    Þetta eru þær almennu athugasemdir sem ég hef við þetta frv. Ég mun að sjálfsögðu vinna að því með sama hætti og við höfum gert í hv. efh.- og viðskn. en ég hef lagt á það áherslu í því starfi að þar yrði breytt um áherslur og við tækjum mið af þörfum atvinnulífsins í mun meira mæli en fram kemur í frv.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu frekar. Ég hefði gjarnan viljað taka fyrir ýmis önnur atriði en mér hefur skilist að það standi til að ljúka þessari umræðu og skal ég ekki koma í veg fyrir að svo geti orðið.