Bæklingur meiri hluta stjórnar LÍN

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:01:00 (1663)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Vegna orða hv. fyrirspyrjanda vil ég taka fram að ég sagði það í mínu svari að það hefði verið ágreiningur innan stjórnarinnar um orðalag í bæklingnum.
    Það er enn verið að tala um að hefði sjóðurinn verið gerður upp í fyrra hefði hann átt fyrir skuldum og skilað meira að segja fé í ríkissjóð. Þetta er alveg rétt. Það hefur margsinnis verið viðurkennt af mér í þessum ræðustól. En við vorum bara ekkert að gera þennan sjóð upp í fyrra. Við vorum einmitt að vinna að viðreisn hans þannig að hann gæti starfað áfram. Það er meginmunur á því að gera sjóðinn upp á tilteknum tíma í fyrra. Þá hefði það getað gengið út af fyrir sig en það var aldrei ætlunin. Það var fyrirséð að sjóðurinn mundi verða gjaldþrota ef ekkert yrði að gert. Það voru ástæðurnar fyrir lagasetningunni á síðasta þingi.
    Hv. þm. Svavars Gestssonar spurði hvort hér væri um allan kostnað að ræða, þessar rúmlega 333 þús. kr. Ég hef þessar upplýsingar frá skrifstofu lánasjóðsins og mín fyrirspurn til hans var ósköp einföld: Hver var kostnaðurinn við útgáfu bæklingsins? Þetta var svarið. Ég get því ekki svarað því skýrar en þetta en hvort í þessar tölu er dreifingarkostnaður skal ég kynna mér.