Útboð

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 11:15:51 (1670)

     Fyrirspyrjandi (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Á 115. löggjafarþingi flutti ég till. til þál. um útboð. Þar segir svo, með leyfi, virðulegi forseti:
    ,,Alþingi ályktar að fela iðnrh. að skipa nefnd er hafi það verkefni að semja frv. til útboðslaga.
    Starf nefndarinnar skal miða við að hægt verði að leggja frv. fram í október 1992.
    Í nefndinni skulu m.a. eiga sæti fulltrúar hagsmunaaðila.``
    Í upphafi grg. segir svo:
    ,,Grundvallarhugmynd útboðsfyrirkomulagsins er að koma á verðsamkeppni þar sem kostir heilbrigðrar samkeppni fá að njóta sín innan viðurkenndra leikreglna. Brýna nauðsyn ber til að endurmeta þær reglur sem nú eru um framkvæmd útboða hér á landi og setja lög er tryggja þau grundvallaratriði sem útboð byggjast á og skapa nauðsynlegt réttaröryggi verktaka og verkkaupa.``
    Þann 20. maí sl. samþykkti Alþingi síðan þessa þál. um útboð en þar segir svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela iðnrh. að skipa nefnd er hafi það verkefni að semja frv. til útboðslaga.
    Í nefndinni skulu m.a. eiga sæti fulltrúar hagsmunaaðila.``
    Þetta var samþykkt á Alþingi 20. maí árið 1992. Því er iðnrh. spurður á þskj. 124:
    ,,Hvað líður störfum nefndar sem Alþingi samþykkti 20. maí 1992 að iðnrh. skipaði til að semja frv. til útboðslaga?``