Íslenskt sendiráð í Vínarborg

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 12:04:30 (1695)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Sú fsp., sem ég vil beina til utanrrh., er einnig sprottin upp úr fjárlagafrv. fyrir árið 1993. Ég spyr um sendiráð í Vínarborg. Það segir reyndar í fjárlögunum að þarna sé um að ræða fastanefnd Íslands hjá RÖSE í Vín og kann þetta að vera spurning um orðalag. Það er sendiherra sem þar fer fremstur í fylkingu og ég kýs að nota orðið sendiráð því þarna er verið að opna skrifstofu og hafa fastafulltrúa hjá RÖSE í Vín.
    En það sem þessi fyrirspurn gengur út á er auðvitað fyrst og fremst sú forgangsröð sem hér kemur fram af hálfu utanrrn. Þá vil ég vitna til þess að í viðtali við hæstv. utanrrh. í Morgunblaðinu laugardaginn 11. júlí 1992, eftir að fundur hafði verið haldinn um

öryggi og samvinnu í Evrópu, er haft eftir hæstv. utanrrh. að Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu sé að hans mati enn þá fremur veik stofnun sem sé í leit að hlutverki. Síðar í þessu viðtali er haft eftir utanrrh.: ,,Utanríkisráðherra sagði að honum fyndist fundur RÖSE í Helsinki ekki ýkja merkilegur. Fyrirkomulag þar sem 51 ríki flytur heimatilbúna stíla í einn og hálfan sólarhring sýnir hversu tvístraður klúbbur RÖSE sé.`` --- Og enn síðar segir, með leyfi forseta: ,,Framtíð RÖSE mun einkum ráðast af þróuninni í Rússlandi að sögn utanríkisráðherra.``
    Þetta vekur auðvitað spurningar um það hvers vegna þörf sé á því að Íslendingar hafi fastanefnd hjá RÖSE og hvort það séu ekki brýnni verkefni í utanríkisþjónustu okkar en að koma þarna upp nýju batteríi sem fær í sinn hlut 22,7 millj. kr. á næsta ári.
    Ég hef heyrt það frá fulltrúum Íslands, sem hafa setið á þingmannasamkundum RÖSE, m.a. í Búdapest í sumar, að þetta séu, eins og reyndar kom fram hjá utanrrh., heldur ómerkilegar samkomur. Því spyr ég enn: Eru ekki brýnni verkefni hjá utanrrn. en að hafa fastanefnd hjá RÖSE í Vínarborg? Og því beini ég eftirfarandi spurningum til hæstv. utanrrh.:
  ,,1. Hvers vegna stendur til að opna nýtt íslenskt sendiráð í Vínarborg?
    2. Hvað gerir sendiráð í Vín brýnna en t.d. í Strassborg þar sem Mannréttindadómstóll Evrópu er til húsa eða að sendiráð verði sett á fót í Austurlöndum?
    3. Hversu margir starfsmenn verða í sendiráðinu í Vínarborg?``