Íslenskt sendiráð í Vínarborg

42. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 12:11:50 (1697)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Því miður gefst ekki tími til að ræða framtíð öryggismála eða hvernig Íslendingar skuli standa að þeim málum en ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég vil heldur leggja áherslu á það að efla Sameinuðu þjóðirnar og alla þá starfsemi. Ég fæ ekki betur séð en menn séu sífellt að auka allt þetta alþjóðlega samstarf og alþjóðlega batterí með nýjum og nýjum stofnunum og ég held að menn ættu nú að snúa sér að því og reyna að hagræða svolítið og spara í þeim málum eins og annars staðar því að staðreyndin er sú að það er verið að ræða sömu málin mjög víða í mörgum stofnunum, NATO, væntanlegu Vestur-Evrópubandalagi, RÖSE, hjá Sameinuðu þjóðunum, í Evrópuráðinu og ég held að hægt væri að sameina þetta að miklu leyti. Breytingarnar eru orðnar í Evrópu og ég skal ekki draga það í efa að RÖSE hafi átt þar aðild að, en ég held að við hljótum að þurfa að endurskipuleggja allt þetta alþjóðlega samstarf í ljósi breytinga og reynslu.
    Mér þykir þetta vera hálfgerður útúrsnúningur hjá hæstv. utanrrh. Það er auðvitað spurning hvað við köllum hlutina en það er staðreynd að fastanefnd Íslands hjá RÖSE er nýr liður á fjárlögum og það er auðvitað þar með verið að festa hana í sessi hvernig sem utanrrn. hefur sinnt þessari þjónustu hingað til og ég verð að segja að ég er ekki sátt við þessa forgangsröð. Ég tel t.d. að það væri alveg jafnmikil ástæða til þess að efla hlut Íslands hjá Evrópuráðinu og tengslin við Mannréttindadómstól Evrópu þangað sem Íslendingar þurfa að leita í auknum mæli að því er virðist. Að mínum dómi er hér fyrst og fremst um það að ræða hvaða forgangsröð það er sem utanrrn. setur upp og það er verið að festa þessa starfsemi í sessi, fá húsnæði og þar er fulltrúi sem titlaður er sendiherra og ekki veit ég annað en honum sé ætlað að vera alla vega næstu ár í Vínarborg sem er reyndar yndisleg borg.