Atvinnuleysi á Suðurnesjum

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 13:34:46 (1700)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti.     Atvinnuástandið er alvarlegt á Suðurnesjum. Það eru því miður ekki ný tíðindi. Í heilt ár hafa að jafnaði 10% kvenna á Suðurnesjum gengið atvinnulaus. Næstum ár er liðið síðan við kvennalistakonur lögðum fram tillögu hér á Alþingi um að tekið yrði sérstaklega á þeim vanda þar sem ljóst var að hann gæti orðið viðvarandi. En viljann vantaði þótt nóg hafi verið talað.
    Það er eins og nú fyrst sé mönnum að verða ljóst að eitthvað verður að gera. Það sem verra er, engu er líkara en ríkisstjórnin hafi enn ekki skynjað þennan alvarlega vanda og viðurkennt að sértækra aðgerða er þörf. Ég vona að í þessari umræðu komi fram að nú muni þetta breytast. Það dugar ekki bara að skipa starfshóp eins og stjórnvöld hafa þegar gert. Það þarf að taka til hendinni og það strax. Vandinn er þekktur og ýmsar hugmyndir eru uppi um lausnir.
    Ég bendi á að á vegum Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja eru mörg verkefni í gangi og nefni m.a. nýstofnaðan hugmyndabanka og markað atvinnulausra kvenna á Suðurnesjum. Á vegum Atvinnuþróunarfélagsins er verið að vinna að fleiri athyglisverðum hugmyndum sem ekki er heimild til að greina frá í smáatriðum hér, þær eru trúnaðarmál enn sem komið er eins og gerist í viðskiptum. En það er sammerkt mörgum þeirra að þar eru á ferðinni fyrirtæki sem vilja útfæra hugmyndir og þau skortir framkvæmdafé, oft og tíðum áhættufé og fjármagn til rannsókna, þróunar og markaðsátaks. Hér geta stjórnvöld komið til aðstoðar og ýtt undir frumkvæði, stutt nýsköpun. Það dugar ekki að vísa á úreltar allsherjarlausnir sem aldrei voru lausnir, svo sem álver og herinn. Og það dugar ekki að segja bara EES og halda að þar með sér málið afgreitt. Raunverulegra aðgerða er þörf. Stofnun sérstaks þróunarsjóðs á svæðum þar sem atvinnuástandið er vont er fyllilega athugandi. Einnig má hugsa sér að nýttar séu aðrar leiðir sem þegar eru fyrir hendi, en það þarf auðvitað að sjá fyrir fjármagni. Grundvallaratriðið er að viðurkennt sé að hér sé um sértækan vanda að ræða og brugðist við.
    Það þarf líka að huga að fleiru. Það þarf að efla menntun. Það þarf að auka fjölbreytni hennar, ekki bara til að flokka á atvinnuleysisskrám heldur til þess að auka nýsköpun og fjölbreytni í atvinnu í framtíðinni. Síðast en ekki síst vil ég nefna það að ég tel að Suðurnesin eigi framtíð fyrir sér í sjávarútvegi. Þar er gríðarleg verkþekking fyrir hendi og húsnæði og tæki liggja ónotuð. Svæðið er í alla staði ákjósanlegt. En kvótinn hefur flutt þaðan vegna þess að lagabókstafurinn hefur leyft það. Ég fagna vissulega þeim hugmyndum sem uppi eru um endurheimtingu kvóta til Suðurnesja. Hér hefði skynsamleg nýting veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs verið gagnleg ef lögin hefðu verið með skynsamlegum hætti.
    Niðurskurður velferðarþjónustu og opinberra framkvæmda er ámælisverður á samdráttartímum. Suðurnes hafa alla burði til að reka öfluga heilbrigðisþjónustu sem gæti m.a. nýst íbúum höfuðborgarsvæðisins. Þannig mundu skapast dýrmæt atvinnutækifæri fyrir konur. Reyndar hefur það gerst að undanförnu að konur alls staðar að hafa sótt til Suðurnesja og fætt þar börn sín til að eiga val um persónulega þjónustu í og eftir fæðingu og einnig val um fæðingaraðferð. Þetta kemur svo sem ekki til af góðu heldur gerðist það í kjölfar lokunar Fæðingarheimilisins. En það sýnir svo ekki verður um villst að fjölbreytta heilbrigðisþjónustu má byggja upp á Suðurnesjum ef svigrúm er gefið til þess.
    Við þingmenn Reykjaneskjördæmis höfum verið samtaka í að krefjast úrlausna og sjálfsagt eru fleiri en ég langþreyttir á því skilningsleysi sem við höfum mætt, enn sem komið er a.m.k. Það er öllum í hag að óheillaþróun verði snúið við. Atvinnuleysi er ekki ókeypis. Það kostar samfélagið allt mikið fé í formi bóta, í skatttekjutapi og auknum félagslegum og heilsufarslegum vandamálum. Síðast en ekki síst er þó atvinnuleysið sárt þar sem það rýr fólk möguleikum til sjálfsbjargar og atvinnuleysisbætur eru svo lágar að hvorki er hægt að lifa né deyja á þeim.

    Við eigum að hlúa að því sem gott er gert og leyfa atvinnulífinu á Suðurnesjum að blómgast á ný. Það verður best gert með því að styðja frumkvæði heimamanna. Við berum ábyrgð á þessu atvinnusvæði ekki síður en öðrum hér á landi.
    Samdrátturinn á Keflavíkurflugvelli var svo sem fyrirsjáanlegur. Spurningin var ekki hvort þar yrði dregið saman heldur hvenær. Við kvennalistakonur spurðum um aðgerðir stjórnvalda til að mæta slíkum samdrætti hér á Alþingi þann 7. mars 1991. Þá var fátt um svör. Nú sitjum við uppi með vandann og ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvað ríkisstjórnin hyggst gera til þess að bregðast við því alvarlega atvinnuástandi sem nú er á Suðurnesjum.