Atvinnuleysi á Suðurnesjum

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 13:40:16 (1701)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Atvinnumál á landinu öllu hafa verið í brennidepli vegna þess að fram er að koma það sem menn máttu vita að minnkun þorskafla og minnkandi tekjur þjóðarinnar draga dilk á eftir sér í atvinnumálum, ekki síst þar sem undanfarin sex ár hefur ríkt stöðnun á Íslandi og atvinnutækifærum hefur ekki fjölgað. Þeim fækkaði 1987--1989 og hafa síðan staðið í stað, meðan fólki á vinnumarkaði hefur fjölgað. Þessir tveir samtvinnuðu þættir, sex ára stöðnun annars vegar og síðan brestur í afla, lágt álverð og samdráttur í varnarliðsframkvæmdum hins vegar hafa leitt til þess að atvinnumálanefnd ríkisstjórnarinnar og aðilar vinnumarkaðarins hafa framlengt störf sín umfram það sem gert var ráð fyrir í kjarasamningum og gert þau almennari og víðtækari. Nú er leitað leiða til þess að ná víðtækri samstöðu um aðgerðir sem treyst geta stöðu atvinnulífsins til næstu ára en ekki eingöngu til fárra vikna eða mánaða eins og gerist með sértækum aðgerðum.
    Fram hefur komið að ríkur vilji er hjá stjórn og stjórnarandstöðu til að ná saman, víkja til hliðar venjubundnum dægurmálum og ná samstöðu um árangur sem treyst geta þann stöðugleika sem verið hefur og forðað getur því að atvinnuleysisvofan fái fasta viðveru í landinu. Meginmáli skiptir fyrir atvinnulífið allt og atvinnuástandið hvar sem borið er niður á landinu að sköpuð séu skilyrði til aukins hagvaxtar.
    Málshefjandi ræðir sérstaklega atvinnuástandið á Suðurnesjum og er það eðlilegt þar sem atvinnuleysið þar er tilfinnanlegt, eða um 6%. Slík tala er hærri en menn hafa átt að venjast um atvinnuleysi, a.m.k. um svo langt skeið eins og þarna er. Á hitt er að líta að atvinnuleysi hefur verið mun meira á Suðurnesjum undanfarin ár en að meðaltali á landinu öllu án þess að ríkisstjórnir, hvorki núverandi né fyrrverandi, hafi gripið til sérstakra aðgerða. Þannig var atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum 6,4% í janúar 1991 og 7,2% 1990. Þáverandi forsrh. og fjmrh. voru eins og nú þingmenn kjördæmisins sem um er að ræða gripu ekki til neinna sérstakra aðgerða eins og málshefjandi minntist á og kom fram 7. mars 1991 þegar rætt var um sama efni.
    Núv. ríkisstjórn ákvað sem kunnugt er að verja 3.500 millj. kr. til atvinnuskapandi aðgerða umfram það sem fjárlög hafa gert ráð fyrir í framkvæmdum. Mönnum verður hins vegar að vera fullljóst að ákvörðun af þessu tagi, þótt hún liggi fyrir og Alþingi muni væntanlega staðfesta hana, eykur ekki atvinnu fyrr en mörgum mánuðum eftir að hún er tekin. Svo mun einnig vera um flestar þær aðgerðir sem teknar kynnu að verða varðandi Suðurnesin sérstaklega. Og það sem meira er, aðgerðir af þessu tagi eru ekki varanlegar. Þær eru plástur ekki lækning. Þær geta mildað högg um tiltekinn tíma en á bak við þær stendur ekki annað en úttekt á fjármunum og botninn dettur úr þeim þegar fjármunir klárast.
    Slíkar ákvarðanir verða menn því að taka í trausti þess að varanleg atvinnutækifæri skapist með þeim almennu aðgerðum sem menn eru að vinna að og hafa verið að undirbúa um alllanga hríð.
    Eftir viðræður mínar og iðnrh. við forráðamenn sveitarfélaga á Suðurnesjum fyrir nokkru ákvað ríkisstjórnin að setja niður sérstakan starfshóp til að gera atvinnustöðunni á Suðurnesjum sérstök skil í tengslum við þær almennu ákvarðanir sem teknar verða, væntanlega innan tiltölulega skamms tíma. Þættir sem síðan hafa verið tengdir umræðu opinberlega hafa verið til athugunar á þessum vettvangi og koma að mati ríkisstjórnarinnar til álita.
    Við verðum hins vegar að standast þær pólitísku freistingar að gefa í skyn að til séu ódýrar lausnir sem bægt geti atvinnuleysi frá í einni svipan. Menn verða að standast þær freistingar að bregða sér í gervi pólitískra jólasveina og dreila út pökkum í skammdeginu. Við þekkjum af langri reynslu að slíkir pakkar geta verið gleðigjafar um stund en þeir breyta litlu þegar til lengri tíma er horft.
    Við getum ekki og megum ekki taka okkar efnahags- og atvinnumál úr samhengi við það sem gerist í kringum okkur. Neyðarráðstafanir eru gerðar í Svíþjóð, efnahagskerfið hrynur í Færeyjum, atvinnuástand er erfitt í Danmörku, hrikalegt í Finnlandi og erfiðleikar í Noregi. Bretar engjast um í efnahagsörðugleikum, sama staða er uppi í Bandaríkjunum og Þjóðverjar hafa ekki staðið af sér sameiningu Þýskalands með þeim hætti sem þeir trúðu. Allt þetta hefur áhrif. Ísland er eyland í landfræðilegum skilningi en ekki í efnahagslegum.
    Meginstaðan er sú að Íslendingar munu ef þeir bera gæfu til að standa saman um aðgerðir komast betur frá öllum þessum áföllum en okkar nágrannar. Þá munum við komast hjá því að afturkippurinn verði að kreppu. En forsendan er að menn nái saman um niðurstöðu sem mun slá varanlega á hættuna á auknu atvinnuleysi og er slík niðurstaða miklu brýnni en einstaka staðbundnar sértækar aðgerðir þó slíkar aðgerðir séu réttlætanlegar og jafnvel nauðsynlegar í einstökum tilvikum eins og því sem við ræðum um.

    Ég hlýt líka að vekja athygli á því að sértæk aðgerð á Suðurnesjum þar sem menn kaupa sig frá tímabundnu atvinnuleysi með því að ganga á sjóði eða taka lán gengur ekki upp nema menn sjái með verulegu öryggi fram á að varanlegur stór vinnuveitandi komi inn í myndina og bæti varanlega þann samdrátt sem orðið hefur á Suðurnesjum. Það er því óhjákvæmilegt að minna flokk málshefjandans á að sá flokkur, Kvennalistinn, hefur lagst gegn því að álver rísi á Suðurnesjum. En þrátt fyrir lágt verð á áli nú um stund eru bjartari vonir en fyrr um að ákvörðun um álversbyggingu verði tekin innan tveggja ára. Vænti ég þess að þá beri flokkur málshefjanda gæfu til þess að skáka þröngsýnni atvinnumálastefnu sinni til hliðar og taka þátt í því að stuðla að þeirri stórfelldu atvinnuuppbyggingu sem því mun fylgja á Suðurnesjum, atvinnuuppbyggingu sem stendur á traustum grunni en ekki á veikum grunni sértækra aðgerða fyrir fé sem eðli málsins samkvæmt er takmarkað og tryggir aðeins atvinnu um skamma hríð.