Atvinnuleysi á Suðurnesjum

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 14:01:09 (1709)

     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Það er ekki að ástæðulausu að hv. 1. þm. Vestf. minnir okkur á að sjávarútvegur er undirstaða atvinnulífs okkar. Það á ekki síst við á Suðurnesjum. Því miður hefur aflaleysi og samdráttur í kvóta og kvótatilflutningur skaðað sjávarútveg á Suðurnesjum.
    Því ber þó að fagna að þar hafa forustumenn í fiskvinnslu reynt að leita leiða til að bæta úr með því að nálgast hráefni til vinnslu erlendis frá til þess að nýta þær fjárfestingar sem þeir þar hafa og það vinnuafl sem þar er fyrir hendi. Þarna á ég við hugmyndir einstakra fiskverkenda um að kaupa þorsk til vinnslu frá Rússlandi.
    Því miður hafa þessar tilraunir ekki mætt skilningi hjá forustumönnum banka og þeirra sjóða sem helst er til að leita. Ég vona þó að þetta standi til bóta og það verði hægt að koma á innflutningi á hráefni sem þessu til þess að fólk geti stundað fiskvinnslu áfram á Suðurnesjum og eflt fyrirtækin þar. Þessi vinnsla er áhættusöm, bæði vegna þess hvernig gæði hráefnisins geta verið og eins vegna gengisáhættu. Til að minnka þessa áhættu þarf því samstarf margra aðila og það þarf að koma til góður vilji frá bæði bönkum og sjóðum og öllum aðilum atvinnulífsins. Ég vil hvetja alla þá sem að þessu máli geta komið og geta lagt þessu lið á einhvern hátt að gera það til þess að styðja atvinnulífið á Suðurnesjum og til þess að styðja fiskvinnslu um allt land.