Atvinnuleysi á Suðurnesjum

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 14:09:43 (1713)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Það er óneitanlega kúnstugt að heyra hér ákveðna talsmenn koma og berja sér á brjóst vegna atvinnuástandsins á Suðurnesjum, einkum vegna samdráttar í starfsemi á vegum varnarliðsins, sömu aðila sem gengu til kosninga ár eftir ár og þóttust lofa því að herinn skyldi fara í einu vetfangi og þar með samstundis þau atvinnutækifæri sem honum þó fylgdu. Það var ekkert um það rætt að það yrði

bætt á einni svipstundu. Herinn átti að fara hvað sem það kostaði. Það var þjóðfrelsisstefnan mikla. Nú koma þessir sömu aðilar og berja sér á brjóst í þessu sambandi.
    Það er líka merkilegt, virðulegi forseti, að heyra það að menn koma hér hver af öðrum í ræðustólinn sem segjast bara hafa heyrt það sem þeir vildu heyra. Ég ræddi auðvitað um það að það sem meginmáli skipti væri að tryggja almennt stoðir atvinnulífsins í landinu. Ég held að það geti varla verið ágreiningur um það efni hér í þessum sal. En ég tók líka fram, og ekki einu sinni heldur tvívegis í ræðu minni, að ríkisstjórnin hefði fyrir nokkru sett á laggirnar sérstakan starfshóp manna til þess að taka þessa stöðu sérstaklega fyrir, taka hana út úr í þeim almennu aðgerðum sem menn vonandi ná saman um áður en langur tími líður. Menn meta það svo að það sé ástæða til að þessi sérstaki staður á landinu, sem hefur búið við mjög sérstök skilyrði, fái sérstaka meðhöndlun, sértæka ef menn vilja kalla það svo. Samt komu menn hér hver á eftir öðrum upp í ræðustól og héldu því fram að ég hefði algjörlega hafnað því að slíkt gæti komið til. Það gerði ég að sjálfsögðu ekki.