Endurmat á norrænni samvinnu

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 14:16:31 (1714)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Við Íslendingar höfum um langt skeið tekið þátt í víðtæku norrænu samstarfi og segja má að það hafi því unnið sér nokkra hefð. Þetta samstarf er ekki einskorðað við vettvang Norðurlandaráðs þar sem þingmenn allra Norðurlanda koma saman og heldur ekki við samstarf ríkisstjórna um hin margvíslegu mál. Það er einkennandi fyrir norrænt samstarf að fjölmargir aðilar í þjóðfélaginu taka þátt í því. Þar má nefna stéttarfélög, samtök hinna ýmsu atvinnugreina, áhugamannafélög og marga fleiri. Þetta er líklega einsdæmi um alþjóðlegt samstarf. Norrænt samstarf nær til menningarmála á þróttmikinn hátt og mörg önnur mál mætti nefna.
    Það er enginn vafi á því að norræn samvinna hefur skilað okkur Íslendingum margvíslegum ávinningi langt umfram það sem við höfum kostað til. Jafnframt verðum við að viðurkenna að norrænt samstarf hefur staðnað á undanförnum árum og mörgum hefur fundist að norræn samvinna væri kostnaðarsamur mannfagnaður sem skilaði litlum árangri.
    Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar í næsta nágrenni Norðurlanda sem þegar hafa haft áhrif á norrænt samstarf. Hér nægir að nefna vaxandi samstarf og samvinnu ríkjanna í Vestur-Evrópu og hrun kommúnismans og Sovétríkjanna í austri. Gott dæmi um það hvernig þessar breytingar hafa þegar haft áhrif á norrænt samstarf er ályktun forsætisráðherra Norðurlanda á fundi þeirra á Borgundarhólmi í ágúst sl. um brottflutning rússneskra hermanna frá Eystrasaltsríkjunum. Þetta er dæmi um að utanríkis- og öryggismál hafa öðlast nýja þýðingu í norrænu samstarfi. Við viljum treysta norræna samvinnu við breyttar aðstæður og við viljum líka skerpa áherslur og ná betri árangri í þeirri samvinnu um norræn verkefni sem eru óháð samstarfi Norðurlanda á breiðari vettvangi.
    Norræn samvinna er mikilvægur þáttur í umræðunni um tengsl Íslands við Evrópu. Málefni evrópskrar samvinnu hafa þegar sett mark sitt á umræður í Norðurlandaráði og svo mun verða í vaxandi mæli. Starfsemi Norðurlandaráðs á því að geta stuðlað að því að leggja áherslu á norræn gildi og viðhorf hvað snertir sameiningu Evrópu og getur þannig orðið mikilvæg viðbót við pólitískar umræður um þessi efni í einstökum löndum.
    Það er nauðsynlegt að náin samvinna sé milli þjóðþinga Norðurlanda í þeim mikilvægu málum sem fjallað verður um á vettvangi Evrópu í framtíðinni. Frá næsta ári munu öll Norðurlönd í fyrsta skipti taka sameiginlega þátt í viðskipta- og efnahagssamstarfi Evrópu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Með þessu verða öll Norðurlönd loks einn markaður eins og reynt var fyrir tveimur áratugum en án árangurs. Nú er það að takast á hinum stærra vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins. Við verðum þess vegna að ræða samstarf Norðurlanda í tengslum við Evrópusamstarfið. Það er ekki lengur hægt að ræða norrænt samstarf sem sjálfstæðan kost sem gæti komið í staðinn fyrir samvinnuna í Evrópu. Spurningin snýst ekki um Norðurlönd eða Evrópu heldur hvort tveggja.
    Það má líka minna á að Norðurlönd hafa um langt skeið unnið saman að mörgum sameiginlegum hagsmunamálum á alþjóðavettvangi, t.d. í EFTA, innan GATT, í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum og ekki síst innan Sameinuðu þjóðanna. Þetta sýnir einmitt styrkleika norræns samstarfs og á þessari reynslu getum við byggt í samstarfinu innan EES.
    Það verkefni sem við stöndum frammi fyrir í norrænu samstarfi er tvíþætt. Í fyrsta lagi að tryggja náið samstarf Norðurlanda á þeim sviðum þar sem um sérstök sameiginleg áhugamál er að ræða sem skynsamlegt er að vinna að innan Norðurlandanna einna. Í þessu efni getum við byggt á langri reynslu.
    Í öðru lagi þurfum við að finna nýjar og hentugar samstarfsaðferðir vegna þátttöku okkar í evrópskri samvinnu.
    Að því er fyrri þáttinn varðar má nefna menningarmál, menntun og rannsóknir, umhverfismál, ýmis félagsleg réttindi fólks og samgöngur. Til viðbótar kemur hér til sögunnar samband við ríkin við Eystrasalt og í vaxandi mæli utanríkis- og öryggismál.
    Að því er seinni þáttinn varðar skiptir EES-samstarfið mestu máli á næstu árum. Síðan mun væntanleg aðild flestra Norðurlandanna að Evrópubandalaginu hafa áhrif á norrænt samstarf, en um það er enn margt í óvissu.
    Á fundi forsætisráðherra Norðurlanda í Maríuhöfn á Álandseyjum í nóvember á sl. ári var fjallað um norræna samvinnu í ljósi þróunarinnar í Evrópu. Þar var ákveðið að forsætisráðherrarnir skipuðu fulltrúa sína í starfshóp til að fjalla um endurmat á norrænni samvinnu út frá eftirfarandi meginatriðum:
    1. Nýjar forsendur norrænnar samvinnu vegna samruna Evrópuríkja.
    2. Samvinna Norðurlanda við nágrannaríki, einkum Eystrasaltsríkin og svæðið í kringum Eystrasalt.
    3. Þær skipulagsbreytingar sem tillögur til úrbóta miðast við, þar með talin hugsanleg breyting á Helsingfors-sáttmálanum.
    Starfshópurinn skilaði skýrslu til forsætisráðherra á fundi þeirra á Borgundarhólmi 17.--18. ágúst sl. Tillögur starfshópsins fela m.a. í sér að forsætisráðherrarnir takast á herðar almenna pólitíska ábyrgð á mótun norrænnar samvinnu. Með því er stefnt að því að stuðla að nánari pólitískri leiðsögn, bæði hvað snertir samvinnu Norðurlandanna og þátttöku þjóðanna í evrópskri og alþjóðlegri samvinnu. Einnig er lagt til að innan norrænnar samvinnu verði hlutverk formennskulandsins eflt í því skyni að leggja aukna áherslu á pólitíska ábyrgð. Sú þjóð sem fer með formennsku í norrænni samvinnu hverju sinni ber almenna ábyrgð

á samvinnunni í heild og framgangi hennar. Formennskan mun gilda á öllum sviðum, þ.e. jafnt á fundum forsætisráðherranna og annarra ráðherra, svo og á fundum embættismanna og sérfræðinga. Einnig mun formennska hvað snertir samstarf þjóðþinganna fela í sér ábyrgð á undirbúningi funda og að gæta þess að samþykktum sé hrundið í framkvæmd. Á þennan hátt er stefnt að því að styrkja sambandið og samskiptin milli ríkisstjórna og þingmanna í Norðurlandaráði en það hefur einmitt lengi verið ósk þingmannanna að svo yrði gert.
    Jafnframt því að taka þátt í evrópskri samvinnu verður lögð áhersla á að endurnýja og stuðla að frekari samvinnu á þeim sviðum sem snerta Norðurlönd sérstaklega. Hér er um að ræða sameiginleg hagsmunamál allra eða nær allra Norðurlanda og það mun endurspeglast í fjárhagsáætlun fyrir Norðurlandasamstarfið og hinar ýmsu samstarfsstofnanir. Einnig má nefna samstarf Vestur-Norðurlanda þar sem Íslendingar hafa forustu og við verðum að rækta.
    Starfshópurinn leggur m.a. til að stofnaður verði norrænn menningarsjóður og verði skipulag hans, umfang og stefna verulega frábrugðið því sem nú er. Um leið er lagt til að þau um það bil 800 norrænu verkefni sem nú er unnið að verði tekin til rækilegrar endurskoðunar. Til þessara verkefna er nú varið jafnvirði nær 3.000 millj. ísl. kr. Jafnframt verði norrænar stofnanir teknar til endurmats. Við þessa endurskoðun og endurmat verði þess sérstaklega gætt hvort starfsemin hafi skýr markmið, hvort unnt sé að leysa verkefnin af hendi með minni tilkostnaði og hvort hún sé nauðsynleg vegna sérstakra aðstæðna í einhverju Norðurlandanna. Ákvarðanir verða síðan teknar í samræmi við þau pólitísku markmið og forgangsröðun sem ríkisstjórnir Norðurlanda vilja beita sér fyrir.
    Lagt er til að 2 / 3 hlutum af núverandi framkvæmdafé verði varið til að stofna menningarsjóðinn og miðað við að árleg fjárveiting til hans nemi nær 2.000 millj. ísl. kr. og ætti það takmark þá að nást að mynda sjóð sem nemi 10 milljörðum kr. árið 2000.
    Hér er um verulega breytingu að ræða í norrænu samstarfi og það er nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að kanna vel og rækilega hvar okkar hagsmunir liggja sérstaklega og gæta þess að þeir verði áfram tryggðir á þeim sviðum sem við viljum leggja sérstaka áherslu á. Menningarmál, menntun og rannsóknir eru dæmi um þætti í norrænni samvinnu sem hafa skilað okkur verulegum ávinningi og ættu að falla vel að nýjum áherslum í norrænni samvinnu. Þetta þurfum við að gaumgæfa og undirbúa vel áður en til ákvarðana kemur.
    Ríkisstjórnir Norðurlanda vilja stuðla að því að framhald verði á þróun í átt til lýðræðis og markaðsbúskapar í ríkjum Austur-Evrópu og Samveldisríkjunum. Norðurlöndin hafa hvert fyrir sig og ásamt öðrum ríkjum veitt nágrannaríkjum sínum margvíslega aðstoð. Þau hafa víða á alþjóðavettvangi látið í ljós þá ósk að taka þátt í nauðsynlegum ráðstöfunum til að ná þessum markmiðum. Starfshópurinn ræddi ýmsa tilhögun í samvinnu Norðurlandanna og t.d. Eystrasaltsríkjanna og Rússlands. Hann leggur til að kannað verði hvaða reynsla hafi fengist af þeirri samvinnu sem þegar er hafin og heppilegt kunni að vera að samræma aðgerðir þegar um tvíhliða samninga Norðurlandanna við þessi ríki er að ræða í því skyni að framlag tveggja eða fleiri ríkja nýtist betur.
    Í sögu Norðurlandasamstarfsins hafa oftar en einu sinni verið gerðar breytingar og úrbætur. Þannig var t.d. við upphaf 8. áratugarins gert ráð fyrir að sérstakir samstarfsráðherrar skyldu huga að heildarstefnunni í samstarfinu og samræmingu á hinum ýmsu sviðum. Árangurinn hefur þó orðið annar en gert var ráð fyrir sem hefur haft áhrif á samstarf ríkisstjórnanna. Á undanförnum árum hafa samstarfsráðherrarnir aðeins í litlum mæli fengist við málefni sem snerta heildarstefnumótun í samstarfinu eða haft meiri háttar pólitískt hlutverk. Þess vegna er fyrirhugað að forsætisráðherrarnir móti stefnuna í meiri háttar norrænum samstarfsverkefnum sem samstarfsráðherrarnir fylgi svo eftir í framkvæmd. Ábyrgð á norrænni samvinnu á einstökum sviðum verður í höndum hlutaðeigandi fagráðherra og þeir annast tengslin við Norðurlandaráð á sínum sviðum. Þannig verður áfram gert ráð fyrir þátttöku fagráðherra í störfum Norðurlandaráðs eftir því sem efnisleg umfjöllun þeirra og ráðsins gefur tilefni til.
    Þá verður skipuð stjórnarnefnd fimm aðstoðarmanna ráðherra, eins frá hverju Norðurlandanna, eða embættismanna í sambærilegri stöðu og hafi þeir umboð til að taka ákvarðanir í öllum málum sem eining næst um svo fremi sem hlutaðeigandi ráðherrar hafi ekki áskilið sér rétt til ákvörðunar. Forsætisráðherrarnir geta vísað verkefnum beint til þessarar stjórnarnefndar en hún starfar að öðru leyti undir stjórn samstarfsráðherranna og er jafnframt stjórn skrifstofu ráðherranefndarinnar.
    Áhersla verður lögð á að ríkisstjórnirnar tryggi framgang hinnar breyttu stefnu og skipulags í norrænni samvinnu. Þess vegna er mikilvægt að í hverri ríkisstjórn á Norðurlöndunum sé samstarfsráðherra sem í umboði forsætisráðherra beri ábyrgð á þróun norrænnar samvinnu. Hlutverk samstarfsráðherra í fyrirliggjandi tillögu er hins vegar enn of óljóst, en það verður nánar skilgreint og verður að skilgreina nánar áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar.
    Skipan ráðherranefndarinnar og embættismannanefnda verður áfram með hefðbundnu sniði en fjöldi þeirra mun endurspegla þá forgangsröðun sem lögð er til. Þetta mun þýða nokkra fækkun ráðherra- og embættismannanefnda, en með þessu ætti að nást betri samsvörun við nefndir í Norðurlandaráði. Slík breyting getur einnig opnað möguleika á því að Norðurlandaráðið fái stærra hlutverk í fjárlagagerðinni og ákvörðun um fjárlög eins og þingmenn hafa lengi óskað.
    Í tillögum starfshópsins er að finna tillögur um skipan mála á vettvangi Norðurlandaráðs. Þar er

m.a. nefnt að Norðurlandaráð haldi að jafnaði tvo fundi á ári og auk þess geti það komið saman til stuttra funda með ráðstefnusniði eftir þörfum. Á sama hátt og í samstarfi ríkisstjórnanna verði einnig komið á virkri formennsku í starfi ráðsins. Það kallar reyndar á að þjóðþing þess lands sem fer með formennskuna verði að kosta nokkru til. Þetta þurfum við auðvitað að íhuga vel, m.a. með tilliti til þess kostnaðar sem þetta gæti falið í sér.
    Þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á fyrirkomulagi norrænnar samvinnu snerta einnig starfsemi þeirra skrifstofa sem sjá um framkvæmd samstarfsins. Þannig eru taldar gildar ástæður fyrir því að skrifstofa norrænu ráðherranefndarinnar sem nú er í Kaupmannahöfn og skrifstofa forsætisnefndar Norðurlandaráðs sem nú er í Stokkhólmi verði á sama stað. Lagt er til að öll tæknileg þjónusta, starfsmannastjórn og þess háttar, verði sameiginleg, þ.e. að skrifstofurnar verði sameinaðar rekstrarlega en þær verði áfram tvær lögpersónur og yfir skrifstofu ráðherranefndarinnar verði sérstök stjórn eins og áður var lýst. Þessar tillögur eru fyrst og fremst gerðar í hagræðingarskyni og ber að líta á þær sem slíkar. Hins vegar þurfum við að gæta þess að starfsemi skrifstofanna gagnist okkur áfram sem best. Það er t.d. vafasamt að það henti okkur að nefndarritarar á skrifstofu forsætisnefndar ráðsins verði færðir af þeirri skrifstofu til heimalandanna, enda yrði þá lítið eftir af skrifstofu forsætisnefndarinnar. Þessi breyting gæti reynst okkur erfið og hentar okkur líklega alls ekki. Nauðsynlegt er að Norðurlandaráð ræði hvernig það vilji haga samstarfi þinganna. Það á m.a. að taka afstöðu til þess hvort skrifstofa ráðsins og ráðherranefndarinnar verði á sama stað. Norðurlandaráðið sjálft á að taka afstöðu til allra tillagna sem snúa að starfsemi ráðsins.
    Þær tillögur sem nú hafa verið lagðar fram um breytt fyrirkomulag norræns samstarfs krefjast strangt til tekið ekki breytingar á Helsingfors-sáttmálanum. Samt sem áður telja forsætisráðherrar Norðurlandanna rétt að samningurinn endurspegli þessar breytingar. Þess vegna eru gerðar tillögur um breytingar á honum. Þar er m.a. kveðið á um hlutverk Norðurlandasamstarfsins í evrópskri samvinnu, um sérstaka ábyrgð ríkisstjórna á norrænni samvinnu og hlutverk formennskulandsins.
    Eins og áður sagði var skýrsla starfshópsins lögð fram á fundi forsætisráðherra Norðurlanda á Borgundarhólmi í ágúst sl. Á þeim fundi var jafnframt ákveðið að fela einum fulltrúa frá hverju landi að undirbúa umfjöllun um tillögurnar í Norðurlandaráði og undirbúa framkvæmd breytinga á norrænu samstarfi og sérstaklega nauðsynlegar breytingar á Helsingfors-sáttmálanum.
    Á fundi Norðurlandaráðs í Árósum 9.--11. nóv. nk. verður skýrsla samstarfshópsins um endurmat á norrænni samvinnu til umfjöllunar. Á sama tíma munu forsætisráðherrarnir fjalla um tillögur síðari starfshópsins um skipulag samstarfsins. Eftir umræðurnar á fundinum í Árósum munu forsætisráðherrarnir gera tillögur um breytingar á Helsingfors-sáttmálanum. Er stefnt að því að þessar tillögur verði lagðar fram á fundi Norðurlandaráðs í Ósló í mars nk.
    Það starf sem nú er í gangi snýst fyrst og fremst um tillögur um skipulagsbreytingar á samstarfi ríkisstjórnanna. Starfshópurinn mun skila þessum tillögum eftir fundinn í Árósum og það er ætlun forsætisráðherranna að tillögurnar komi til framkvæmda eins fljótt og skynsamlegt og mögulegt er. Auðvitað þurfum við að ræða vel og íhuga hvernig þessar breytingar snúa að okkur Íslendingum og við þurfum að hafa um þær ákveðnar tillögur. Um leið verðum við að taka virkari þátt í því með samstarfsþjóðum okkar að gera þær breytingar á norrænu samstarfi sem taki tillit til þeirra breytinga sem eru að verða í alþjóðlegri samvinnu, fyrst og fremst vegna samvinnunnar í Evrópu. Við þurfum einnig að gera breytingar á hinu hefðbundna Norðurlandasamstarfi til þess að það skili okkur meiri og betri árangri en það gerir nú.
    Virðulegi forseti. Norræn samvinna hefur unnið sér sess í hugum Íslendinga og þann sess viljum við varðveita en jafnframt verðum við að svara þeim kröfum sem við gerum til hennar.