Endurmat á norrænni samvinnu

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 16:53:32 (1720)

     Sigríður A. Þórðardóttir :
    Virðulegi forseti. Skýrsla sú, sem hér er til umræðu, er afrakstur nefndar forsætisráðherra Norðurlanda sem fékk það hlutverk að endurmeta norræna samvinnu í kjölfar Maríuhafnaryfirlýsingarinnar með tilliti til breyttra aðstæðna í Evrópu. Meginatriði í endurmatinu eru: Nýjar forsendur norrænnar samvinnu vegna samruna Evrópuríkja, samvinna Norðurlanda við nágrannaríki, einkum Eystrasaltsríkin og svæðið kringum Eystrasalt, og í þriðja lagi þær skipulagsbreytingar sem tillögur til úrbóta miðast við, þar með talin hugsanleg breyting á Helsingforssáttmálanum. Hér mun einkum fjallað þau atriði sem vöktu sérstaka athygli mína og ástæða er til að staldra nokkuð við.
    Það er ljóst að norræn samvinna hefur um nokkurt skeið verið í eins konar tilvistarkreppu. Samstarfið er í föstum skorðum. Akurinn er vel plægður og þetta gengur allt sinn vanagang en það vantar e.t.v. þann neista sem þarf til að gera þetta samstarf jafnáhugavert og spennandi og vaxandi samstarf við önnur Evrópulönd vissulega er um þessar mundir. Áherslan og áhuginn beinist þangað, enda eru Norðurlöndin sem óðast öll að innsigla þá samvinnu með formlegum hætti þessa dagana. Þetta þýðir þó ekki að dregið hafi úr þörf fyrir norræna samvinnu heldur hefur eðli hennar breyst og það er nánar fjallað um það á bls. 18 í skýrslunni. Tíminn, sem valinn er til að endurmeta norræna samstarfið, er heppilegur að því leyti að það er gert í tengslum við þær breytingar sem fylgja samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og inngöngu fleiri Norðurlanda í EB.
    Í skýrslunni eru nefndar fjórar meginástæður fyrir samvinnu milli ríkisstjórna: Í fyrsta lagi samvinna innan Norðurlanda, í öðru lagi norræn samvinna innan EES og EB, í þriðja lagi hagsmunagæsla Norðurlanda utan EES og EB og í fjórða lagi stöðug samvinna tveggja eða fleiri Norðurlanda um sameiginleg eða svæðisbundin mál.
    Þessar forsendur eru allar mjög mikilvægar og miða að því að styrkja stöðu Norðurlanda, bæði innan landanna sjálfra og út á við og það er ljóst að með vel skipulögðu samstarfi Norðurlandanna innan Evrópska efnahagssvæðisins, Evrópubandalagsins og Fríverslunarsamtaka Evrópu geta þau betur gætt hagsmuna sinna sem heild en hvert einstakt land væri fært um að gera.
    Ein af meginbreytingunum, sem gert er ráð fyrir samkvæmt skýrslunni, er að forsætisráðherrar landanna taki ákveðnari forustu í norræna samstarfinu en verið hefur til þessa. Það gerir stjórnunina pólitískari og er í raun viðurkenning á mikilvægi þessarar samvinnu að forsætisráðherrar landanna komi hér ákveðnar að verki en áður hefur tíðkast. Jafnframt þessu er gert ráð fyrir að formenn í nefndum, ráðherranefndum, forsætisnefnd og öðrum nefndum Norðurlandaráðs verði virkari og er það mjög af hinu góða.
    Í skýrslunni er gert ráð fyrir að fram fari nákvæmt mat á þeim 40 stofnunum sem starfa á norrænum vettvangi. Þær eru að öllu eða nokkru leyti fjármagnaðar með norrænni fjárhagsáætlun. Það er ljóst að stór hluti af fjármunum norrænnar samvinnu eða 41,9% er bundinn með þessum hætti. Það er sjálfsagt og nauðsynlegt að metið verði hvort þær verði í framtíðinni á norrænu fjárlögunum eða kostaðar á annan hátt. Að þessu þurfum við Íslendingar sérstaklega að huga og standa vörð um þær norrænu stofnanir sem eru hér á landi, svo sem Norræna húsið og Norrænu eldfjallastöðina. Einnig er gert ráð fyrir að draga stórlega úr þeim fjármunum sem varið er til norrænna verkefna. Eingöngu verði um að ræða verkefni sem séu í samræmi við pólitísk markmið og forgangsröðun sem ríkisstjórnir Norðurlanda vilja beita sér fyrir. Á þennan hátt og með hugsanlegum sparnaði við norrænar stofnanir er ætlunin að skapa skilyrði fyrir ný verkefni á menningarmálasviðinu sem gert er ráð fyrir í tengslum við tillögu um að stofna norrænan menningarmálasjóð.
    Það er mikilvægt að í þessum efnum öllum verði farið með gát og ekki skorið of grimmt niður það sem ekki hefur forgang. Ég nefni sem dæmi upplýsingaskrifstofur í Eystrasaltslöndunum, Verkefna- og útflutningssjóðinn og Norræna iðnþróunarsjóðinn. Lögð er áhersla á nokkur samstarfssvið í innra samstarfi Norðurlanda sem hafi forgang á næstu árum. Þau eru menningarmál, félagsmál, umhverfismál og efnahagsleg samvinna. Á öllum þessum sviðum standa Norðurlöndin mjög framarlega á alþjóðavettvangi og litið er til þeirra sem fyrirmyndar í samfélagi þjóðanna. Þannig gætu Norðurlöndin tekið sameiginlegt frumkvæði í sínar hendur í Evrópusamvinnunni, t.d. í umhverfismálum og félagsmálum.
    Ég nefndi áðan þá tillögu að stofna norrænan menningarmálasjóð sem ætlað er að styðja norræn verkefni er stuðla einkum að því að efla norræn sérkenni og sameiginlegar áherslur í menningarmálum, einkum á sviði rannsókna, menntunar, barnamenningar og ungmennaskipta og samvinnu á sviði kvikmynda og fjölmiðla. Í tenglsum við þessa tillögu er mörgum spurningum ósvarað. Hvernig verður háttað uppbyggingu sjóðsins og hvenær verður hægt að hefja úthlutanir úr honum? Í skýrslunni kemur ekki skýrt fram hvort sjóðurinn auki framlög til menningarmála miðað við þau framlög sem nú er varið til þess málaflokks. Það verður að standa vörð um menningarsamvinnuna og tryggja að sá málaflokkur beri ekki skarðan hlut frá borði í allri þessari endurskipulagningu. Gert er ráð fyrir að ríkisstjórnir Norðurlanda skipi stjórn sjóðsins, skýrslum um starfsemi hans verði skilað til menningarmálaráðherranna, eftirlitsnefnd fylgist með starfseminni og árlega verði gerð grein fyrir starfsemi hans í Norðurlandaráði. Mikilvægt er að í stjórn sjóðsins sitji ekki eingöngu embættismenn heldur komi þingmenn þar að og sérstaklega verði hugað að tengslum við menningarmálanefnd Norðurlandaráðs.
    Norræn samvinna er einstök í sinni röð í heiminum. Hún byggist á einstæðu samstarfi almannasamtaka, þingmanna og ríkisstjórna. Þátttaka þingmanna hefur stuðlað að því að norræn samvinna hefur í meira mæli en ýmis önnur alþjóðleg samvinna orðið samvinna milli samfélaga, ekki aðeins samstarf ríkja. Hlutverk Norðurlandaráðs og þingmanna í þessu sambandi er ákaflega þýðingarmikið og það ber að styrkja og draga enn frekar fram mikilvægi þess en fram kemur í skýrslunni.
    Einnig er mikilvægt að ekki verði dregið úr ráðherrasamvinnunni og tengslum ráðherranna við Norðurlandaráð. Skynsamlegt er að sameina skrifstofur ráðherranefndarinnar og forsætisnefndar. Ávinningurinn af þeirri hagræðingu sé notaður til að auka getu skrifstofunnar til að vera rannsóknastofnun fyrir starfið gagnvart málum sem afgreidd verða á vettvangi Evrópu. Hins vegar tel ég ekki rétt að ritarar fastanefndar séu skipaðir í því ríki sem fer með formennsku í viðkomandi nefnd og eigi þar starfsvettvang. Ég tel nauðsynlegt að nefndaritarar starfi allir á sama stað á sameiginlegu skrifstofunni til að tryggja samfellu í starfinu og samvinnu þeirra á milli.
    Ég legg áherslu á að við Íslendingar gefum sérstakan gaum að þeim málum sem mestu skipta fyrir Ísland. Í því sambandi nefni ég sérstaklega vestnorrænu samvinnuna, þ.e. svæðisbundið samstarf í atvinnumálum, þar með talin sjávarútvegsmál.
    Norræn samvinna skipar sérstakan sess í hugum Norðurlandaþjóðanna. Hinn sameiginlegi menningararfur tengir okkur traustum böndum. Náin samskipti fólks eru mikilvægur grundvöllur allrar norrænnar samvinnu. Hin fjölbreytta starfsemi Norrænu félaganna og almannasamtaka gefur norrænu samfélagi breidd sem mikilvægt er að huga að á komandi árum.
    Tillögurnar ef af þeim verður fela í sér miklar breytingar og uppstokkun á samstarfi Norðurlanda. Ef vel tekst til ala þær af sér nýjar hugmyndir og nýtt blómaskeið í norrænu samstarfi.