Endurmat á norrænni samvinnu

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 17:03:13 (1721)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. hefur í dag gert Alþingi grein fyrir skýrslu sem til er orðin eftir að nefnd var skipuð fyrir tæpu ári til að gera úttekt á norrænu samstarfi og endurmeta það, bæði form, starfshætti og skipulag.
    Þessi úttekt á norrænu samstarfi og samstarfsháttum var tvímælalaust tímabær ekki hvað síst í ljósi allra þeirra breytinga sem orðið hafa í okkar heimshluta síðustu ár og missiri. Ekki skal úr því dregið hér að norrænt samstarf undanfarna áratugi hefur borið ótrúlega mikinn ávöxt. Hið formlega norræna samstarf, þ.e. samstarf þinganna og ríkisstjórnanna, sem hér er einkum til umræðu er þó eins og svo ágætlega hefur komið fram í þessari umræðu eingöngu lítill hluti af því víðtæka frjálsa samstarfi sem blómstrar milli þessara þjóða, milli félaga og félagasamtaka, einstaklinga, stofnana og fyrirtækja og nær til allra sviða þjóðlífsins og mannlegra samskipta.
    Hinu formlega norræna samstarfi, þ.e. samstarfi þinganna á vettvangi Norðurlandaráðs og samstarfi ríkisstjórnanna í mynd norrænu ráðherranefndarinnar, hafa hins vegar óneitanlega verið settar vissar pólitískar skorður vegna mismunandi stöðu landanna í heimspólitíkinni sem aftur hefur verið afleiðing af sögulegum og landfræðilegum staðreyndum. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir þá reglu að meiri hluti atkvæða skuli ekki ævinlega ráða úrslitum mála hefur auðvitað afar margt vel til tekist í hinu norræna samstarfi. Þar nefni ég t.d. félagsmálasáttmálann, samninginn um afnám vegabréfaskyldu, sameiginlegan vinnumarkað og fleira sem of langt er upp að telja og raunar óþarfi hér því viðstöddum er það mætavel kunnugt.
    Með tilkomu hins Evrópska efnahagssvæðis, sem öll Norðurlöndin munu væntanlega eiga aðild að, með gjaldþroti kommúnismans og hruni Sovétríkjanna og stækkun Evrópubandalagsins varð deginum ljósara að óbreytt, formlegt norrænt samstarf þurfti breytinga við, þurfti kannski vítamínsprautu. Það var einkum í ljósi þessa sem ég hef nefnt sem niðurstaða forsætisráðherranna varð sú að láta fara fram úttekt á þessu samstarfi.
    Skýrslan sem hér hefur verið til umræðu skýrir sig sjálf í megindráttum þótt enn skorti vissulega nánari útfærslu og lýsingu á ýmsu því sem þar er um fjallað. Nefni ég þá sérstaklega það sem mjög hefur borið á góma í þessari umræðu, þ.e. hinn fyrirhugaða menningarsjóð. Gert hafði verið ráð fyrir því að þegar þessi umræða færi fram lægi fyrir nánari útfærsla á því hvernig hann mundi starfa, en þær upplýsingar hafa ekki borist enn og það skal játað alveg hispurslaust að ýmislegt, eins og það mál liggur fyrir núna, sýnist mér að gæti orkað tvímælis og þurfa a.m.k. nánari skýringa við.
    En sú meginbreyting sem hér er gert ráð fyrir er sú að forsætisráðherrar landanna verði oddvitar samstarfsins í ríkara mæli en verið hefur til þessa og hafi meiri forsögu um að móta hina pólitísku stefnu samstarfsins og taka virkari þátt í því að öllu leyti. Það má raunar segja að svo hafi þetta verið við upphaf norræna samstarfsins og því séum við að vissu leyti að hverfa til upprunans.
    Tvo síðustu áratugi hefur það verið svo að einn af ráðherrum hverrar ríkisstjórnar á Norðurlöndunum hefur farið með samræmingarhlutverk í norrænu samstarfi, gegnt embætti samstarfsráðherra. Hann hefur stjórnað fjárlagagerð ráðherranefndarinnar, haft umsjón með verkefnum sem ekki féllu undir eitt ákveðið stjórnsýslusvið og farið með ýmis önnur mál í sambandi við rekstur skrifstofu ráðherranefndarinnar.
    Staðreyndin hefur hins vegar orðið sú og þróunin hefur orðið sú að samstarfsráðherrarnir hafa aðeins að mjög takmörkuðu leyti í raun borið pólitíska ábyrgð á stefnumörkun og mótun samstarfsins. Ég get alveg viðurkennt það að sem samstarfsráðherra hefur mér stundum fundist skorta á pólitíska stefnumótun í norrænu samstarfi og ég fagna því að nú hefur verið kveðið upp úr um það að hið pólitíska frumkvæði og hin pólitíska stefnumótun muni samkvæmt tillögu nefndarinnar vera í höndum forsætisráðherranna.
    Nokkur breyting verður samkvæmt þessum tillögum gerð á verksviði samstarfsráðherranna. Þeir verða sérlegir fulltrúar forsætisráðherranna og munu áfram verða fjárlagaráðherrar ráðherranefndarinnar og samræmingaraðilar norrænna málaflokka en ýmis verkefni sem áður voru á könnu samstarfsráðherranna flytjast samkvæmt þessum tillögum til nýju nefndarinnar, hinnar norrænu samstarfsnefndar, sem leysa mun hina svokölluðu staðgenglanefnd af hólmi.
    Sú nýja samstarfsnefnd fær víðara verksvið en staðgenglanefndin hafði og myndar formlega stjórn skrifstofu ráðherranefndarinnar og mun sinna ýmsum stjórnunar- og skipulagsverkefnum sem áður voru formlega hjá samstarfsráðherrunum.
    Það hefur komið fram að í þessari skýrslu felist níu meginatriði sem horfa til breytinga. Til þess að nefna þau í örstuttu máli er fyrst að telja:
    Í fyrsta lagi að forsætisráðherrarnir verði oddvitar samstarfsins.
    Í öðru lagi að sama landið, þ.e. það land sem hefur forustu í norræna samstarfinu það árið, hafi með höndum formennsku í öllum ráðherra- og embættismannanefndum.
    Í þriðja lagi að náin norræn samvinna verði um þau mál sem eru á dagskrá Evrópska efnahagssvæðisins, Evrópubandalagsins og á öðrum svæðisbundnum samstarfssviðum.
    Í fjórða lagi að samvinna á sviði utanríkis- og öryggismála verði aukin.
    Í fimmta lagi að rík áhersla verði lögð á náið samstarf við Norðurlandaráð, m.a. með því að ríkisstjórnir geri ráðinu víðtæka og rækilega grein fyrir framvindu og stöðu mála sem snerta Evrópusamstarfið.
    Í sjötta lagi að framlag til menningarmála verði stóraukið með menningarmálasjóðnum sem ég nefndi áðan. Að vísu er þess skylt að geta að ekki liggur fyrir að það takist með niðurskurði að afla jafnmikils fjár og menn gera ráð fyrir á þessari stundu. Ég er ekki fullkomlega sannfærður um að það verði

auðvelt mál.
    Í sjöunda lagi að haldið verði áfram að vinna að og efla þá málaflokka sem kalla má samnorræna í eðli sínu.
    Í áttunda lagi að stuðlað verði að enn frekari samvinnu þeirra aðila í frjálsri félagastarfsemi sem eru virkir í norrænni samvinnu og eru jafnstór og veigamikill þáttur samvinnunnar og raun ber vitni.
    Í níunda lagi að unnið verði að þeim breytingum á norræna stjórnkerfinu að það falli að þessu meginmarkmiðum skýrslunnar.
    Þar ber auðvitað hæst tillöguna um að skrifstofur Norðurlandaráðs, eða forsætisnefndar og ráðherranefndar, verði undir sama þaki. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé skynsamleg tillaga en tek undir með þeim sem hér hafa sagt að þar verða áfram að vera skil á milli. Tillagan um að flytja nefndaritarana til þess lands þar sem formenn nefndanna eiga heima er ekki skynsamleg eins og öllum sem hér hafa talað ber held ég saman um.
    Það er auðvitað afar margt sem nefna má til viðbótar í þessari umræðu. Það má spyrja hvort sérstöðu Íslands hafi verið gætt nægilega í umfjöllun þessarar nefndar. Ég hygg að svo sé eftir því sem unnt er í slíku samstarfi. Það má líka spyrja hvort sérstöðu hins vestnorræna svæðis hafi nógsamlega verið gætt í þessari umfjöllun. Ég held að það sé okkar hlutverk að halda fram hlut þessa svæðis í hinu norræna samstarfi. Við höfum gert það og við þurfum að leggja á það aukna áherslu.
    Þá má líka spyrja sem svo hvort þessi endurskoðunarnefnd hafi gert sér nægilega skýra grein fyrir mikilvægi heimskautasvæðanna fyrir Ísland og hið norræna samstarf í framtíðinni. Það er bjargföst sannfæring mín að samstarf okkar bæði á Norðurlöndunum og samstarf Norðurlandanna við ýmsar aðrar þjóðir mun mjög í vaxandi mæli beinast að heimskautasvæðunum sem hafa með ýmsum hætti öðlast aukið mikilvægi og verðmæti á undanförnum árum. Þar þarf m.a. að sinna t.d. umhverfismálum í ríkara mæli en gert hefur verið.
    Þá má líka spyrja sem svo hvort efnistök séu þannig í þessari skýrslu að austursvæðinu, og á þetta höfum við Íslendingar nokkuð oft minnst, þ.e. Eystrasaltinu og samstarfinu í þá áttina, sé gert hærra undir höfði í þessari umfjöllun en samstarfinu vestan til. Og þá má líka nefna, eins og hér hefur raunar verið gert, hvort gera hefði átt sjálfstjórnarsvæðunum eitthvað hærra undir höfði í þessari umfjöllun en skýrslan gerir. Ég hygg þó að þeirra hlutur sé með nokkuð eðlilegum og skynsamlegum hætti en auðvitað geta menn haft á því fleiri en eina skoðun.
    Ég tel fyrir mitt leyti þessa skýrslu vera jákvæða en játa jafnframt að þar er ekki allt nægilega skýrt enn sem komið er. Það var kominn tími til að gera breytingar á norræna samstarfinu. Svona samstarf hlýtur að breytast og það er kannski eðli þess að breytast hægt og hægt smám saman en öðru hverju gerast stærri breytingar og við stöndum einmitt andspænis slíkri breytingu núna. Og við eigum þá ekki að flýta okkur um of og gaumgæfa það sem verið er að gera og stíga ekki skrefið fyrr en við erum bærilega sáttir í samráði við þá sem við störfum með að það sé skynsamlegt sem við ætlum að gera. En auðvitað er eðlilegt að það séu skiptar skoðanir um það sem verið er að gera og við þurfum að ræða það. Þessi umræða er mjög af hinu góða. Meðal þingmanna sem sæti eiga í Norðurlandaráði hefur þetta tvisvar sinnum áður verið rætt. Í fyrra skiptið að tilhlutan samstarfsráðherra en nú alveg nýlega að tilhlutan forsætisráðherra.
    Ég ítreka það að ég fagna þessari umræðu. Hún er gagnleg og mikilvæg en mér hefur kannski fundist að það gætti svolítið um of svartsýni hjá einstökum hv. þm. Að menn leituðust kannski við að draga frekar fram það sem þeir sæju neikvætt. En ég held að það sé ekki alveg tímabært en auðvitað er rétt og gott að á það sé bent.
    Það hefur verið nefnt hér að embættismannanefndum mundi fækka. Það er rétt að gert er ráð fyrir því. Ég er ekki viss um að það sé endilega slæmt. Við ítarlega athugun sem fram hefur farið á nefndastarfi á sviði umhverfismála kom í ljós að þar var hægt að einfalda hlutina vegna þess að nefndir, vinnuhópar og starfshópar voru að fjalla töluvert mikið um sömu hlutina og jafnvel án þess að hafa mjög mikla og ítarlega vitneskju hver um annars starf. Ég held þess vegna að fækkun embættismannanefndanna ef rétt er á haldið kunni að leiða til aukinnar skilvirkni og hagræðingar.
    Þá hefur það líka verið rætt hér að ráðherrar ættu að sækja fundi Norðurlandaráðsþingsins í auknum mæli. Það má rétt vera. Mér hefur sýnst að á hinu háa Alþingi höfum við fylgt þeirri starfsreglu að ráðherrar sæktu þessi þing ef þeir ættu þangað erindi. Ég hef setið velflest Norðurlandaráðsþing frá 1978 fram til 1989 og síðan 1991. Ég man eftir einu tilviki þar sem hæstv. ráðherra sat allt þingið án þess að eiga beint erindi á ráðherrafund. Ég veit ekki hvort menn telja slíkt af hinu slæma. Ég held að svo þurfi ekki að vera. Það er út af fyrir sig hægt að taka mjög sterkt undir þá skoðun að ráðherrar eigi að sækja þessa fundi vel og vera þar til að svara fyrirspurnum en þá er samtímis ekki hægt að gagnrýna það á hinu háa Alþingi að nú séu velflestir ráðherrar í burtu og allt of margir þingmenn líka og setja á langar tölur um það efni eins og við höfum oftlega heyrt. Þessu samstarfi fylgja ferðalög. Hjá því verður ekki komist.
    Hins vegar verð ég að segja að það er kannski svolítið áhyggjuefni hvað þetta alþjóðlega samstarf sem við tökum þátt í og viljum taka þátt í er orðið tímafrekt, fjárfrekt og mannfrekt. Þá er ég ekki bara að tala um alþingismenn og ráðherra heldur ekki síður embættismenn í Stjórnarráði og stjórnkerfi. Þetta

er umhugsunarefni og við þurfum að gera okkur far um að reyna að ná þannig utan um þetta samstarf að þar nýtist allt sem best, fólk og fjármagn. Við viljum taka þátt í þessu samstarfi, það kallar óhjákvæmilega á ferðalög og það kallar líka á fjárútlát.
    Hv. þm. Halldór Ásgrímsson nefndi sérstaklega Eystrasaltsráðið og þá samvinnu sem nú er verið að ræða um og Stoltenberg utanríkisráðherra Norðmanna beitir sér einkum fyrir varðandi Barentshafssvæðið. Það voru utanríkisráðherrar Danmerkur og Þýskalands sem höfðu einkum forgöngu um Eystrasaltsráðið, okkur var ekki boðið þar til þátttöku. Það hefur verið gagnrýnt, ekki bara af okkur heldur mörgum öðrum sem taka þátt í þessu samstarfi, m.a. Norðmönnum.
    Varðandi það samstarf sem er í undirbúningi á Barentshafssvæðinu þá flutti norski utanrríkisráðherra nýlega ræðu í Rovaniemi einmitt um það og þar kemur mjög skýrt fram að það sé sjálfsagt og raunar grundvöllur þess sem hann er að segja að Norðurlöndin öll verði aðilar að því samstarfi ásamt ýmsum fleirum ríkjum. Og þótt ég hafi ekki lesið þessa ræðu nema fremur lauslega þá skildi ég það svo að þetta samstarf ætti að vera öllum opið sem hefðu hagsmuna að gæta á þessu svæði eða teldu sig hafa það. Því sýnist mér að þarna hafi Norðmenn staðið töluvert mikið öðruvísi að verki en gert var þegar stofnað var til Eystrasaltsráðsins og ég lýsi þeirri skoðun að við eigum auðvitað að taka fullan þátt í þessu samstarfi, svo og öðru samstarfi pólþjóðanna eins og því sem kennt er við Rovaniemi þar sem til viðbótar við Norðurlöndin eru líka Rússland, Bandaríkin og Kanada.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa um þetta öllu fleiri orð. Það er rétt sem ýmsir ræðumenn hafa sagt, m.a. formaður Íslandsdeildar, hv. þm. Geir H. Haarde, að hér er ýmislegt óljóst, t.d. varðandi þennan menningarsjóð og raunar sitthvað fleira. Það skýrist vonandi áður en langt um líður og vonandi verða þær umræður, sem fram fara á aukaþinginu, fróðlegar og gagnlegar. Við þurfum þar mjög að halda vöku okkar en ég hef ekki áhyggjur af því að þær breytingar og sú niðurstaða, sem fæst úr þessum breytingum, verði hinu norræna samstarfi háskaleg eða hættuleg. Til þess á hið norræna samstarf allt of ríkan og sterkan stuðning í öllum þingum Norðurlanda.