Endurmat á norrænni samvinnu

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 17:49:29 (1724)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð vegna þess sem kom fram hjá hæstv. samstarfsráðherra. Má kannski vera að einhvers misskilnings hafi gætt á milli okkar þegar hann ræddi um fækkun embættismannanefnda. Ég vil ekki að hann hafi skilið orð mín svo að það hafi ekki mátt fækka embættismannanefndum að neinu leyti.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um að það er rétt sem hann sagði að það hafi verið of margar embættismannanefndir á sviði umhverfismála. Við vitum að það hefur verið mjög mikil aukning í alþjóðlegu samstarfi á sviði umhverfismála á undanförnum árum. Það hefur gengið mjög hratt og ég er ekki í nokkrum vafa um að oft og tíðum hafa menn verið nokkuð fljótir á sér og ætlað sér nánast að setja alla mögulega og ómögulega málaflokka undir samheitið umhverfismál. Ég er viss um að hæstv. umhvrh. hefur orðið mjög var við það. Og ég skil að það er ekkert einfalt að taka þátt í öllu því samstarfi á alþjóðlegum vettvangi og við hljótum að þurfa að velja þar og hafna.
    En ég hygg að það eigi alls ekki við um öll svið. Þá á ég við eldri svið eins og atvinnumál, byggðamál og önnur þau svið sem eiga sér lengri sögu í norrænu samstarfi en samstarfið á sviði umhverfismála. Þetta vildi ég leggja áherslu á en var fyrst og fremst að vara við að ekki væri verið að safna saman í eina og sömu nefndina mörgum málaflokkum sem gerði starfið óáhugavert og dragi úr mikilvægu samstarfi. Það er þetta sem ég vil leggja áherslu á. En ég vil alls ekki útiloka að nefndunum fækki.
    Ég vil heldur ekki að mál mitt verði skilið sem svo að ég væri að hvetja til að fleiri ráðherrar færu á Norðurlandaráðsþing og sérstaklega vil ég alls ekki hvetja til þess að þangað fari ráðherrar sem eiga þangað ekkert erindi. Það er bara til að safna saman fleira fólki og menn þvælast hver fyrir örðum. Ég tek undir með hæstv. ráðherra í þeim efnum. En ég vil leggja á það áherslu að þangað fari ráðherrar sem eigi þangað erindi. Og það þýðir ekkert að vera að tala um það þó verið sé að skamma menn fyrir ferðalög. Það verður að treysta hæstv. ráðherrum fyrir því að meta það hvenær þeir eiga erindi og hvenær þeir eiga ekki erindi og þeir verða að geta tekið gagnrýni í þeim efnum. Þannig mun það alltaf verða því menn munu líta á það með mismunandi hætti.
    Ég legg á það áherslu að ekki verði dregið úr samstarfi sem varðar hið Evrópska efnahagssvæði og menn túlki ákvæði samningsins eins og hann liggur fyrir rúmt. Því það stendur í 121. gr samningningsins, með leyfi forseta:
    ,,Ákvæði samnings þessa útiloka ekki samstarf:
    a) innan ramma norrænnar samvinnu að því leyti sem slík samvinna raskar ekki góðri framkvæmd samnings þessa; . . .  .``
    Ég hef það stundum á tilfinningunni að menn séu eitthvað hræddir við formlegt samstarf á þeim sviðum sem varðar EES. Og það samræmist ekki þessum samningi.
    Það liggur alveg ljóst fyrir að það er ekkert sem mælir á móti slíkri samvinnu enda raski hún ekki góðri framkvæmd samningsins. Ætli það sé ekki mikið samstarf innan þýska sambandríkisins um málefni Efnahagsbandalagsins? Þar eru mörg þing og stór heild á ferðinni. Er það óeðlilegt að hin smærri ríki í norðri hafi með sér meira samstarf en gengur og gerist í hinum stóru ríkjum sem hafa byggt upp sín mál með allt öðrum hætti? Lítum t.d. á Þýskaland. Öll þau mörgu ríki sem eru innan þýska sambandslýðveldisins mynda eitt þjóðþing í Bonn en eru síðan með sín þing og störf út um allt og enginn gerir neinar athugasemdir við. Þar af leiðandi tel ég að norrænu þjóðirnar eigi að ganga beint til verks og nýta sér þetta ákvæði sem var sett inn til þess að hindra á engan hátt hið norræna samstarf. Ég vil þess vegna leggja á það áherslu að þetta ákvæði verði túlkað rúmt. Enda tel ég að það ætti að vera í þágu þess að þetta mál fari vel fram að hið norræna samstarf geti gengið áfram með eðlilegum hætti. Og ég hef aldrei heyrt því mótmælt opinberlega af forustumönnum í Evrópu. Það má vel vera að einhverjir embættismenn hafi verið að gera það. En ég hef ekki heyrt það frá þjóðarleiðtogum og þeim aðilum sem við eigum að taka mark á í þessu sambandi.
    Að lokum vil ég taka undir það með hæstv. samstarfsráðherra að það er mikilvægt að leggja áherslu á samstarfið á heimskautasvæðunum. Ég tel að forusta norska utanríkisráðherrans á þessu sviði sé mikilvæg en jafnframt tel ég að það sem þar er að gerast sé ekki alveg í samræmi við hagsmuni Íslands. Hins vegar er alveg rétt hjá hæstv. samstarfsráðherra að það hefur verið boðið til fundar í Kirkjunesi í janúar nk. Þangað er boðið öllum utanríkisráðherrum Norðurlandanna og utanríkisráðherra Rússlands. Samkvæmt því sem segir í ræðu forsætisráðherra Noregs: Samstarfið á Barentssvæðinu, --- þetta er kallað Barentssvæðið --- sem einnig nær yfir norðvestur Rússland og beint Svíþjóð og Finnland . . .   og endar: og allir norrænu utanríkisráðherrarnir munu taka þátt í utanríkisráðherrafundi um Barentssvæðið í Kirkjunesi í janúar nk.
    Ísland er í sjálfu sér aldrei nefnt í ræðu utanríkisráðherra Noregs, þar sem hann gerir mjög góða grein fyrir sínum hugmyndum í þessu máli, þó ráðherrann taki það fram að öllum sé boðið til fundar um Barentssvæðið, sem þeir hafa einnig kallað Evrópu-artíska svæðið.
    Ég er fyrst og fremst að benda á það, hæstv. samstarfsráðherra, að ég tel að þær hugmyndir sem þarna eru uppi hjá norska utanríkisráðherranum séu ekki í samræmi við þær hugmyndir sem við Íslendingar höfum haft um samstarf á norðurslóðum. Þar af leiðandi þurfum við að hafa áhrif á þessar hugmyndir því auðvitað munum við ekki ná samstarfi á þessu svæði nema með þátttöku Norðmanna, Svía, Finna og Rússa. Við hljótum að geta reynt að víkka þetta samstarf betur út þannig að það nái jafnframt til okkar svæðis og nái ekki eingöngu til þeirra svæða sem þarna er verið að tala um.
    Að því er varðar Eystrasaltsráðið er sagt að það samstarf eigi að ná til þeirra ríkja sem liggja að Eystrasalti. Það er ekki gert ráð fyrir að samstarfið nái neitt sérstaklega til Íslands. Hins vegar geti Íslendingar tekið þátt í því og haft áhrif á það sem þar er að gerast og gætt sinna hagsmuna. Ég tel að það sé allt annað mál að því er varðar samstarf á norðurslóð. Það verður að vera alveg ljóst að það samstarf og það ráð sem kynni að vera stofnað í því sambandi nái til Íslands, Grænlands, Kanada og jafnvel Bandaríkjanna eins og við höfum talað um en ekki eingöngu til þess svæðis sem norski utanríkisráðherrann segir frá.
    Ég á ekki von á því að um þetta sé neinn ágreiningur okkar í milli en ég vildi bara leggja á það áherslu að íslenskra ríkisstjórnin gætti þessara hagsmuna og kæmi þeim kyrfilega á framfæri. Ég vænti þess að utanrrh. muni gera það fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar á fundinum í janúar nk. þannig að það komi meiri breidd í þetta samstarf. Það var fyrst og fremst þetta sem ég vildi benda á.