Lánsfjárlög 1993 o.fl.

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 18:03:39 (1726)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil gera að umtalsefni við 1. umr. lánsfjárlaga sem þegar er búið að ræða nokkuð og ég get vísað til þeirrar umræðu og tekið undir ýmsar þær spurningar sem ég veit að bornar hafa verið upp við hæstv. fjmrh. í því sambandi og óþarfi að ég sé að endurtaka hér.
    Það verður að segjast eins og er og ég veit að hæstv. fjmrh. mun ekki reyna að mótmæla því að forsendur þessarar lánsfjáráætlunar sem og forsendur fjárlagafrv. eru nokkuð mikið á reiki. Hæstv. fjmrh. hefur sjálfur lýst því yfir að til álita komi að breyta ýmsu sem þarna er upp sett hvað tekjuforsendur fjárlagafrv. snertir og útgjaldaramma ríkissjóðs þá einnig. Ég hygg því að það sé nær lagi að líta á þessa lánsfjáráætlun, sem ég leyfi mér að kalla svo upp á gamlan móð, sem lauslegt vinnuplagg, sem fylgirit með fjárlagafrv. sem sömuleiðis er lítið meira en vinnuplagg á þessu stigi málsins. Ég get a.m.k. ekki valið því annað hlutlausara nafn þegar það liggur fyrir að sjálf hæstv. ríkisstjórn hefur til skoðunar ýmsar veigamiklar breytingar á tekjuöflun ríkissjóðs. Reyndar er vísað inn í framtíðina ýmsum óteknum ákvörðunum sem varða tekjuforsendur fjárlaga á komandi ári.
    Ég ætla þess vegna ekki að ergja sjálfan mig né aðra með því að reyna að fara vandlega ofan í saumana á þeim forsendum sem lánsfjárlagafrv. fyrir komandi ár byggir á. Ég held það sé ósköp einfaldlega ótímabært að reyna að leggja mat á hvort t.d. innlend fjáröflun ríkissjóðs, eins og hún er upplögð samkvæmt frv. og áætlanir eru um í töflum, sé raunhæf. Og þar með að sjálfsögðu sá hlutinn sem fjármagnast á með erlendri lántöku á næsta ári.
    Það er ljóst hvernig sem hlutföll koma til með að skiptast milli innlendrar og erlendrar lántöku að umfang ríkisábyrgða verður svipað á næsta ári og það er á þessu samkvæmt þessari lánsfjáráætlun og var varla við öðru að búast þegar niðurstöðutölur fjárlagafrv. eru á svipuðum nótum og reyndar hallinn sá sem raun ber vitni eins og hann er settur upp samkvæmt frv.
    En svo ég víki að þeim einstöku efnisatriðum frv. sem ég ætlaði að gera að umtalsefni og trúlega hafa fleiri gert á undan mér, ég hef því miður ekki átt þess kost að fylgjast með allri umræðunni, er það sérstaklega IV. kafli frv. sem ég vil ræða. Ég geri það alveg sérstaklega í trausti þess að hæstv. fjmrh. láti skoða uppsetningu frv. á milli umræða eða taki þátt í því með hv. efh.- og viðskn., sem væntanlega mun ræða það á sínum vettvangi, að uppsetningunni verði breytt hvað þetta snertir. Ég felli mig engan veginn við hana eins og hún er fram borin. Þannig er að það sem heitið hefur á máli manna ,,þrátt-fyrir`` kafli og verið heldur hvimleiður fylgifiskur lánsfjárlagafrumvarpa undanfarin ár er nú sett upp með nýjum og ákaflega sérstæðum hætti að mínu mati. Sjálfstæður kafli er settur inn í frv. til lánsfjárlaga, IV. kafli í einni grein, 11. gr., og hefst hún, með leyfi hæstv. forseta, á þessum orðum:
    ,,Framlög ríkissjóðs samkvæmt eftirtöldum lögum og lagaákvæðum skulu ákveðin í fjárlögum 1993:`` --- Síðan eru talin upp í einum 20 liðum ýmis lög hvar er að finna ákvæði um fjárráðstafanir, framlög, styrki og annað því um líkt sem ætlunin er síðan að skerða með niðurstöðutölum viðkomandi stofnana eða rekstrar eða samtaka í fjárlagafrv.
    Þetta er, hæstv. forseti, ákaflega grautarleg uppsetning. Ég fer fram á að settir verði menn til að skoða það af hálfu þingsins með einhverjum hætti, ekki aðeins viðkomandi þingnefndar og þá fjmrn., hvort þetta sé tæk uppsetning við lagasetningu. Er boðlegt að afgreiða t.d. sérlög um Listskreytingasjóð ríkisins eða þjóðminjalög eða önnur slík með einni safngrein þar sem 20 mismunandi lagafrv. eru talin upp í einni grein? Menn tala stundum með lítilli virðingu um bandorma. Það sé heldur hvimleiður framgangsmáti við lagasetningu að breyta ákvæðum mismunandi og óskyldra laga í einu frv. með svokölluðum bandormi. En þó er sá munur á að þar eru viðkomandi lög sett upp hvert í sinni grein í viðkomandi frv. sem síðan eru bornar upp lið fyrir lið. Hér eru 20 lög, býsna myndarlegur hluti af íslenska lagasafninu settur inn í --- það liggur við að ég leyfi mér að kalla það sull, ekki er hægt að kalla það bandorm --- og síðan er vísað yfir í fjárlagafrv. um hinar efnislegu ákvarðanir afgreiðslu þessara laga.
    Hvernig mundi það þá fara fram, hæstv. forseti? Ef við tökum til að mynda 16. lögin sem talin eru upp í 11. gr. frv. og eru lög nr. 3 frá 1987, um fjáröflun til vegagerðar, þá segir í upphafi að framlög ríkissjóðs samkvæmt þeim lögum og lagaákvæðum skulu ákveðin í fjárlögum 1993. Þá verður væntanlega að fletta upp á fjárlagafrv. og finna Vegagerð ríkisins sem fær fjárveitingar samkvæmt lögum um fjáröflun til vegagerðar. Hvernig verður þá hin efnislega ákvörðun tekin? Væntanlega með því að þegar afgreidd verður niðurstöðutala til vegamála fer þessi skerðing fram inni í miðju fjárlagafrv.
    Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, þetta finnst mér ekki ganga sem uppsetning á

ákvarðanatöku og lagabreytingum á hinu háa Alþingi. Ég vil spyrja hæstv. forseta: Er Alþingi með atkvæðagreiðslu um 11. gr. lánsfjárlagafrv. --- greinin er sjálfstæður kafli og þar af leiðandi borin upp sjálfstætt --- að breyta 20 mismunandi lögum? Svarið er já. Í reynd er það þannig. Annars þjónar það litlum tilgangi að mínu mati að setja þennan kafla yfir höfuð inn í lánsfjárlögin. Sú spurning hlýtur að vakna: Er það þá úrelt að vera yfirleitt að færa þessi skerðingarákvæði með sjálfstæðum hætti inn í lánsfjárlög? Er ekki nóg að gera það í fjárlögunum einum? Hvers vegna hafa skerðingarákvæðin jafnan verið sett upp í lánsfjárlögum á undanförnum árum en ekki í fjárlögum? Þau voru sett upp í lánsfjárlögum í fyrra og var Alþingi þá starfandi í einni málstofu þannig að það hefur a.m.k. ekki breyst neitt síðan í fyrra. Þau rök sem stundum hafa verið færð fram að menn hafi á fyrri tíð talið að réttara að skerða sérlög með ákvæðum í lánsfjárlögum en ekki fjárlögum vegna þess að fjárlög voru afgreidd í sameinuðu þingi en önnur lagafrv. í deildum á fyrri tíð eiga a.m.k. ekki við hvað snertir þessa breytingu milli ára frá fyrra þingi og til þess sem nú stendur.
    Reyndar tel ég að fleiri rök hafi staðið fyrir því að þetta sé eðlilegra að gera með skerðingarákvæðum í sjálfstæðum greinum í lánsfjárlagafrv. Vegna þess að þá fer hin efnislega afgreiðsla fram í sjálfstæðri atkvæðagreiðslu um hvern lið fyrir sig.
    Þá vil ég koma því að sem ég tel líka að eigi að skoða í þessu sambandi og það er hvort skerðingin, þ.e. efnisbreytingin, eigi ekki að vera fyrir hendi inni í lánsfjárlagafrv. þannig að það segi ekki eins og hér er gert í 16. lið að framlög samkvæmt 2. málsl. 2. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum, skuli ákveðin í fjárlögum heldur komi þar inn niðurstöðutala. Á sama hátt og verið hefur að orðalagið breytist yfir í: Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 2. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum, skulu framlög ekki fara yfir X millj. kr. Þá kæmi þar ósköp einfaldlega sú niðurstöðutala Vegagerðar ríkisins upp á 7.516 millj. kr. sem gefur að líta á bls. 184 í fjárlagafrv. Þá er hin efnislega ákvörðun komin á sinn stað inn í lánsfjárlagafrv. og fer fram með atkvæðagreiðslu um þann lið sérstaklega. Ég tel það miklu eðlilegri afgreiðslu og miklu eðlilegri uppsetningu á þessu. Og ég fer fram á það í fullri vinsemd að það verði skoðað á hreinum tæknilegum grunni hvað sé eðlileg og góð venja í sambandi við lagasetninguna í þessum efnum.
    Ég tel, hæstv. forseti, að ef við förum út í að afgreiða þetta eins og hér er verið að leggja til og svo komist menn kannski í framhaldinu að þeirri niðurstöðu að það sé yfir höfuð óþarfi að hafa þessa upptalningu inni í lánsfjárlögum, þá sé verið að gera sérlög af ýmsu tagi um framlög til menningar, lista, ferðamála o.s.frv., að slíkri markleysu að það sé orðið fullkomlega óviðunandi í raun og veru fyrir alla viðkomandi aðila. Þá sem eiga að búa við þessi lög, Alþingi sem hefur sett þau o.s.frv. Hvað er í raun og veru með það að gera að hafa á milli 20 og 30, eða guð má vita hvað mörg lög í gildi í landinu sem kveða á um ákveðin fjárframlög til tiltekinna verkefna sem eru svo ómerkt með slíkum hætti og tæknilega unnið að því eins og er stefnt í.
    Ég held að ekki sé á bætandi það virðingarleysi í raun og veru sem Alþingi sýnir sjálfu sér og vinnubrögðum hér með því að setja lög um bundin útgjöld og bundin framlög af þessu tagi æ ofan í æ enn þann dag í dag. Sum þessi lög eru tiltölulega ný af nálinni, dæmi þjóðminjalög, og ómerkja þau svo svona.
    Menn hafa oft á undanförnum árum rætt um þessa staðreynd og sumir farið um býsna hörðum orðum. Ég minnist þess t.d að hv. 1. þm. Vestf. hefur oft haldið snotrar ræður um hversu hvimleiður þessi framgangsmáti sé og að mikið hreinlega væri ósköp einfaldlega að fella þessi ákvæði úr gildi, fella bara úr gildi ákvæði í lögum um skipan ferðamála sem kveða á um 10% framlög af sölutekjum Fríhafnarinnar til Ferðamálaráðs á hverju ári. Þegar niðurstaðan er sú að Ferðamálaráð hefur aldrei á gildistíma þetta laga fengið þau framlög að fullu. En þau standa alltaf í lögunum.
    Þegar í hlut eiga t.d. mjög nýleg lög af því tagi sem ég hygg að eigi við um Þjóðminjasafnið eða þjóðminjalög, þar sem Alþingi hefur mjög nýlega afgreitt metnaðarfullan lagabálk um að taka svolítið á í þeim efnum að gæta þjóðarverðmætanna, fer þetta eins og nú horfir. Þau lög eru nánar tiltekið frá árinu 1989.
    Ég er í raun og veru að segja, hæstv. forseti, að það sé nógu slæmt að við skulum sitja uppi með þetta þó hitt bætist ekki við að vinnubrögðin við þetta færist yfir í það horf sem mér sýnist stefna í. Það held ég að sé að bæta gráu ofan á svart og lágmark að á meðan slík sérákvæði í einstökum lögum eru ekki numin úr gildi sé þeim breytt með sjálfstæðri atkvæðagreiðslu í sjálfstæðri lagagrein hverju sinni og efnisafgreiðslan fari þannig fram.
    Ég ætla ekki að leika einhvern helgan mann sem hafi efni á því úr þessum ræðustól að hafa uppi stór orð um þær skerðingar sem hér eru á ferðinni. Því miður er það svo að flestir flokkar sem sæti eiga á Alþingi hafa lent í því að afgreiða málin með þessum hætti ár eftir ár á undangengnum árum og áratugum og þar á meðal undirritaður. Það er þess vegna ekki það sem ég er að tala um þó ég geti efnislega gagnrýnt og reyndar vilji gagnrýna ákveðna hluti sem þar eru á ferðinni en ég ætla ekki að fjölyrða mikið um.
    Ég vona að ég hafi komið því nokkurn veginn til skila hvað ég er að fara og ég tel að þarna sé hægt að greina algerlega á milli annars vegar efnisinnihaldsins og hins vegar þessarar framsetningar og má segja lagatæknilegra eða setningarlegra sjónarmiða í þessum efnum. Ég trúi því ekki að ýmsum sem eitthvað hafa velt vinnubrögðum fyrir sér, skipulagi og framsetningu mála hvað hin þingræðislegu form snertir, fari ekki svipað og mér að þeim þyki þetta heldur leiðinlegur framsetningarmáti.
    Að lokum örfá orð um einn liðin og það eru framlög eða skerðingar til vegamála. Þar vil ég fyrst og fremst gagnrýna tvennt. Annars vegar þá miklu skerðingu á mörkuðum tekjustofnum til vegamála sem fjárlagafrv. og síðan lánsfjárlagafrv. gera ráð fyrir. Sú skerðing er miðað við gildandi vegáætlun nálægt 1 milljarði kr., á milli 900 og 1.000 millj. kr. Hún er auðvitað mjög bagaleg og þessi málaflokkur, Vegagerðin, má síst við því að taka hann á sig við núverandi aðstæður. Sú skerðing sundurliðast þannig að 344 millj. af tekjum Vegagerðarinnar á næsta ári eiga að renna í ríkissjóð, 330 millj. eiga að takast af tekjum Vegagerðarinnar til að kosta rekstur á ferjum og flóabátum og enn bætist við sú 250 millj. kr. lántaka sem vegáætlun gerir ráð fyrir vegna flýtingar framkvæmda við jarðgöng á Vestfjörðum. Þetta samanlagt gerir á tíunda hundrað millj. kr. og munar um minna, fjármagn sem hverfur út úr almennum vegaframkvæmdum til annarra nota á þessu ári. Það er nauðsynlegt að menn átti sig á þessu og ég held að það sé rétt að allir geri sér grein fyrir áður en frekari umræður eiga sér stað um fjárlög og framkvæmdir á næsta ári, ég tala nú ekki um í tengslum við þá skrautsýningu sem fjárlagafrv. býður upp á að undir Vegagerð ríkisins færist sérstakt framlag, liðurinn 10-211 611 Framkvæmdaátak vegna atvinnumála 1.800 millj. kr. Hér er verið að velja þá sérkennilegu aðferð í framsetningu að skerða fyrst framlög til vegamála um hátt í 1.000 millj. kr. frá því sem vegáætlun gerir ráð fyrir en auka það síðan aftur um 1.800. Menn sem eru glöggir í reikningi eins og hæstv. fjmrh. sem hefur kennt reikning í skólum fyrr á öldinni hefur hann sagt mér, (Gripið fram í.) þar á meðal hv. 5. þm. Vestf., Kristni H. Gunnarssyni, með glæsilegum árangri eins og þingheimur veit, sér að þá stendur minna eftir af þessari aukningu en menn hafa gumað af eða ekki nema 800--900 millj. kr. Nauðsynlegt er að menn horfist í augu við þetta eins og það er. Til viðbótar eru þessar 1.800 millj. lántaka. Eða er ekki svo, hæstv. fjmrh.? Heldur ríkisstjórnin sig ekki við þá ákvörðun að hinar 1.800 millj. verði teknar að láni og endurgreiddar af tekjum Vegasjóðs á næstu árum?
    Ég er að hreyfa þessu hér, hæstv. forseti, vegna þess að þetta tengist þeirri ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að skerða vegaféð í ríkissjóð upp á 344 millj. kr. Mér finnst þetta, hæstv. forseti, mikill skollaleikur. Ég verð að segja það alveg eins og er. Ég ætla líka að leyfa mér, þó það sé meira spurning um form og framsetningu, að gagnrýna það hvernig fjárlagafrv. er sett upp hvað snertir þessa skerðingu á mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar upp á 344 millj. í ríkissjóð. Frv. er þannig sett upp að hvergi kemur fram beinum orðum hvað þarna er á ferðinni. Það þarf að fara í útreikninga til að sjá hve miklar tekjur ríkissjóður ætlar sér að hafa beint af hinum mörkuðu tekjustofnum í gegnum skerðinguna sem lánsfjárlagafrv. gerir síðan ráð fyrir. Og að setja lánsfjárlagafrv. fram eins og það er gert án nokkurrar töflu um þessar skerðingar, án nokkurra útreikninga, er alveg óframbærilegt, hæstv. fjmrh. Nú vill svo til að ég sé á borðið hjá hæstv. fjmrh. og hann er með töfluna sem efh.- og viðskn. bað um í gærmorgun eða fyrradag að yrði unnin. En það er fyrir neðan allan hellur að hún skuli ekki vera fylgiskjal með frv. Framsetningin, hæstv. fjmrh., er ekki nógu greinargóð. Það vill svo til að sá sem hér talar kann býsna vel alla ,,tátólógíu`` í kringum vegamálin. Af minni þingeysku hæversku leyfi ég mér að halda því fram. Þess vegna gat ég reiknað það út að það væru 344 millj. sem verið væri að skerða Vegasjóð á næsta ári en það kemur hvergi fram beinum orðum í frv. Framsetningin á frv. er ekki nógu góð, hún er ekki nógu skýr. Og ég fer fram á að hæstv. fjmrh. messi lítillega yfir húskörlum sínum og biðji þá að vanda vinnubrögð sín betur. Við látum ekki bjóða okkur þetta í efh.- og viðskn. Við rákum starfsmenn hæstv. fjmrh. þegar til baka og fórum fram á að þeir ynnu þessar töflur. Sömuleiðis óskuðum við eftir því að tekið yrði saman yfirlit yfir vegamálin sem ég sé að hæstv. fjmrh. er líka með fyrir framan sig til þess að glöggva okkur á því hvernig þær tölur standa. Ég hygg að hæstv. fjmrh. verði mér sammála að því verður ekki á móti mælt að skerðing er á framkvæmdafé Vegagerðarinnar þegar þetta þrennt er lagt saman, upptakan í ríkissjóð, rekstrarkostnaður á ferjum og að hætt er við lántökur vegna Vestfjarðaganga. Það sem breytt getur lítillega þessum tölum í samanburði og menn þurfa að átta sig á er fyrst og fremst tvennt. Það er hækkun vegavísitölu, kostnaðarvísitölu vegagerðar, og mismunandi mikil umferð eða mismunandi bensínsala og tekjur af þungaskatti.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að eiga frekari ræðuhöld við hæstv. fjmrh. um þetta vegna þess að hann er ekki fagráðherra vegamála og það væri ekki sanngjarnt að ætla honum að svara fyrir meira en þær forsendur sem að fjárlagagerðinni snúa í því efni. Væntanlega gefst færi á því að ræða þetta í betra tómi við hæstv. samgrh. enda ekki vanþörf á. En ég lýk máli mínu með því að segja að þessi útreið á vegamálum er mér mikil vonbrigði.
    Ég var einn af þeim sem fylltust gleði, leyfi ég mér að segja, þegar ég heyrði að hæstv. ríkisstjórn hefði í hyggju að auka vegaframkvæmdir um 1.800 millj. kr. Síðan fóru ótíðindin að berast. Í fyrsta lagi að þetta væri aukning eftir niðurskurð upp á um það bil milljarð og í öðru lagi að þetta væri lántaka sem Vegasjóður yrði að endurgreiða af tekjum sínum strax á næstu árum. Þá minnkaði fögnuður minn mjög. Þó það gæti vissulega verið réttlætanlegt og ágætt að flýta ákveðnum framkvæmdum er það ekki sú viðbót til vegamála á einhverju árabili sem við hefðum viljað sjá, síður en svo. Þvert á móti er þarna verið að rýra tekjustofna Vegagerðarinnar, færa yfir á hana útgjöld sem hún situr væntanlega uppi með á komandi árum o.s.frv.
    Ef mér leyfist, þó að ég hafi sagt að þetta yrðu mín lokaorð áðan, að bæta við einni spurningu til hæstv. fjmrh. Það er spurningin um það hvort hæstv. fjmrh. kunni vel við það að eftir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um 1.800 millj. til aukinnar vegagerðar og 2.000 millj. í auknar framkvæmdir skuli Vegagerð ríkisins undir stjórn hæstv. samgrh. rjúka til og hefja að bjóða út verk í stórum stíl þannig að nú er búið að bjóða út verk sem engar fjárheimildir eru fyrir á yfirstandandi ári, hvorki í fjárlögum, lánsfjárlögum, vegáætlun eða fjáraukalögum. Með því er farið fram hjá ákvæðum 10. gr. vegalaga um skipan framkvæmda á sviði vegamála og með því er að mínu mati með ákaflega óviðurkvæmilegum hætti --- ég skal orða það þannig --- undirbúnar útgjaldaskuldbindingar ríkisins sem á engan hátt hafa verið bornar undir samþykkt Alþingis og engar heimildir eru fyrir. Ég er ansi hræddur um að hreintrúarmenn á undanförnum árum hefðu látið í sér hvína ef þeir hefðu staðið frammi fyrir slíkum hlutum á Alþingi.
    Ég ætla ekki að fara að standa í einhverri styrjöld út af þessu eða gera þetta að miklu máli en mér verður hugsað til manna eins og hv. 2. þm. Norðurl. v., Pálma Jónssonar, sem hélt hér mikla ræðu fyrir nokkrum árum síðan út af 35 millj. kr. áformaðri frestun framkvæmda sem hv. þm. taldi að ríkisstjórn og ráðherra hefðu engar heimildir til af því að Alþingi hefði ekki samþykkt þær. Þá voru menn trúir yfir hinu litla þegar ekki kom til greina að fresta eða færa yfir ein áramót framkvæmdir upp á 35 millj. kr. En nú er öldin önnur. Nú er það bara eins og sjálfsagt mál að ríkisstjórnin taki ákvörðun um 1.800 millj. kr. --- ja, er það aukafjárveiting, hæstv. fjmrh.? Vill hæstv. fjmrh. svara því? Var þetta ákvörðun um 1.800 millj. kr. aukafjárveitingu? Það er það fyrsta sem manni dettur í hug þegar maður les í blöðunum nokkrum dögum seinna um útboð framkvæmda. Nú veit ég að hæstv. fjmrh. ætlar hugsanlega að koma hér upp og svara með því að segja: Þetta er útboð að vísu en það er ekki búið að semja um neitt. En það er bara ekki frambærilegt. Til hvers er verið að bjóða þessi verk út í september ef ekki á að semja um þau fyrr en eftir áramót eða hvað? Af hverju er verið að eyða peningum Vegagerðar ríkisins í að undirbúa útboðsgögn og bjóða út verk sem eru ekki til fjárlagaheimildir fyrir? Rúmast sú eyðsla innan gildandi reglna um útgjöld þessarar opinberu stofnunar? Svarið er nei. Auðvitað er það þannig, hæstv. fjmrh., að Vegagerð ríkisins er óheimilt að eyða einni einustu krónu vegna þessara verkefna sem sum hver eru alls ekki á vegáætlun og hafa þar af leiðandi enga blessun Alþingis hlotið. Þó svo að það væri ekki skrifað undir bindandi verksamninga fyrr en búið verður að afla heimilda með fjáraukalögum eða öðrum hætti, þá eru það samt ótæk vinnubrögð, hæstv. fjmrh. Mér þykir miður að ekki bara hæstv. samgrh. skuli ganga ofan í þessa gryfju. Ég hefði haldið að hæstv. fjmrh. hefði vandað betur vinnubrögð sín í þessum efnum og séð til þess að þetta yrði ekki gert fyrr en tilskilinna heimilda hefði verið aflað.
    Ég vona að hæstv. fjmrh. treysti sér til að fjalla um málið frá þessum almenna sjónarhóli. Við skulum láta deilur um nauðsyn vegagerðar og allt það liggja á milli hluta, ræða það við annað tækifæri og að öðrum hæstv. ráðherra viðstöddum, þ.e. samgrh., en fjmrh. sem vörslumaður ríkissjóðs getur ekki skotið sér undan því að ræða þessi mál.