Lánsfjárlög 1993 o.fl.

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 18:33:08 (1727)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vona að hæstv. forseti og hv. þm. virði mér það til vorkunnar að röddin er ekki upp á marga fiska í dag sökum lasleika en ég vonast samt til þess að það heyrist þó það vel í mér að hv. þm. fái a.m.k. einhver svör við þeim fyrirspurnum og kannski nokkur orð um þau atriði sem þeir kusu að nefna í sínum ræðum.
    Þessi umræða hefur borið þess nokkur merki að hafa verið sundurslitin og kannski það sem meira er, það er ekki alltaf sama fólkið sem hefur verið viðstatt umræðuna þannig að það er mikið um endurtekningar hjá hv. ræðumönnum. Er það ekki sagt ræðum þeirra til lasts.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóhannes Geir Sigurgeirsson, ræddi nokkur atriði sem ég kýs að minnast á. Í fyrsta lagi sölu ríkisbanka. Hann spyr: Hvers virði verður hlutaféð ef illa fer í efnahagsmálum? Auðvitað er ekki hægt að gefa neitt algilt svar við þessu en ég bendi á að stjórnvöld hafa fyrst og fremst haft það til skoðunar hvort selja skuli Búnaðarbankann að undangengnum breytingum á lögum um viðskiptabanka í ríkiseigu. Sem betur fer er staða Búnaðarbankans mjög góð og er engin ástæða til þess að óttast að hún fari á annan veg á næstunni. Auðvitað getur sala verið með ýmsum hætti. Þar kynni líka einhvers konar samruni við aðrar lánastofnanir að koma til greina.
    Næsta atriði sem hv. þm. ræddi, og raunar allir aðrir hv. þm. sem tóku til máls, var sú breyting sem gerð hefur verið á 11. gr. frv. sem núna er IV. kafli frv. Þetta er kafli sem, eins og fram hefur komið, var í svokölluðum bandormi, þ.e. í lögum um ráðstafanir ríkisstjórnarinnar sem ég held að sé mál nr. 1 á þessu ári. Venjan hefur verið sú að þessi kafli hefur verið í lánsfjárlögum. Ég tel og það hefur reyndar hlotið lögfræðilega athugun að greinin, eins og hún stendur í frv., stenst fyllilega lög. Hitt er svo annað mál hvort ástæða var til að gera þessa formbreytingu því að vissulega er hér ekki um efnisbreytingu að ræða. Slík skerðingarákvæði hafa verið í lánsfjárlögum svo lengi sem ég man, að vísu mismikil frá ári til árs en þó eru flest skerðingarákvæðin gamlir kunningjar.
    Það sem auðvitað skiptir máli þegar menn eru að vega þetta og meta er að átta sig á því hvort hugsanlegt sé að fjárlög eigi að gilda og hvernig hægt sé að styrkja fjárlögin gagnvart ýmsum heimildalögum sem Alþingi hefur samþykkt. Um þetta má deila og menn geta haft mismunandi skoðanir á því en mín vegna má hv. nefnd, sem fær þetta til meðferðar --- og reyndar verða það tvær nefndir frekar en ein, það fer til hv. fjárln. en þaðan til fjh.- og viðskn. --- breyta frv. í það horf sem lánsfjárlög voru á sínum tíma. Hér er ekkert meira virðingarleysi á ferðinni gagnvart þeim lögum sem Alþingi hefur sett fremur en

gætt hefur í lánsfjárlögum á liðnum árum því að hér er ekki um neina efnisbreytingu að ræða heldur einungis formbreytingu.
    Þá var að því spurt hvers vegna minnst væri á Fiskveiðasjóð í viðauka en ekki á ríkisbankana eftir þá breytingu sem gerð var á lögum á yfirstandandi ári. Ástæðan er sjálfsagt sú að Fiskveiðasjóður var ávallt talinn upp í lánsfjáráætlun og eðlilegt að menn skoði lánsfjáráætlun og lánsfjárlög í heilu lagi. Hins vegar hafa viðskiptabankarnir ekki verið inni vegna þess að þeirra starfsemi er um margt ólík starfsemi lánastofnananna og erlendar lántökur viðskiptabankanna eru oft með öðrum hætti, hvað þá innlendar lántökur sem auðvitað eru einungis hluti af daglegri starfsemi bankanna, þ.e. að taka að sér peninga hjá almenningi og varðveita og ávaxta.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir las hér upp mjög góðan kafla úr riti sem ríkisstjórnin gaf út fyrir rúmu ári síðan, Velferð á varanlegum grunni, og er ég henni ákaflega þakklátur fyrir að muna eftir þessum kafla sem á að sjálfsögðu fullt erindi til okkar í dag eins og þá. Það kann að vera nokkur fróðleikur í því ef frá því er sagt að ef --- og það er nú þetta fræga ef sem menn ræða stundum um þegar rifjuð er upp sagan --- efnahagsástand þjóðarinnar hefði orðið slíkt sem spáð var á vordögum síðasta árs, ef ekki hefði orðið sá samdráttur á fiskveiðum sem varð og kjarasamningar hefðu ekki skert möguleika ríkisstjórnarinnar til þess að draga saman útgjöld á vissum sviðum, ef ekki hefði verið bætt við tveimur milljörðum nú í lántökur ríkissjóðs til að standa undir ákveðnum verkefnum er lítill vandi að sjá að útkoman hefði verið um það bil núll, þ.e. munur á tekjum og gjöldum hefði enginn verið í því frv. sem var til umræðu fyrir skömmu, þ.e. frv. til fjárlaga og lánsfjárlagafrv. byggir algerlega á því. Þetta eru svo sem engin ný tíðindi en það var þegar ljóst að það hlaut að verða mjög erfitt fyrir ríkisstjórnina að ná þessu markmiði sínu strax þegar samdrátturinn átti sér stað og ákveðið var að draga saman þorskveiðarnar. Það var reyndar gert tvisvar. Álverið var ekki byggt. Eins og menn muna stóð það til þegar þessi yfirlýsing var gefin um vorið. En það er rétt að þrátt fyrir það var hugmyndin að ná þessum árangri þegar umrædd bók kom út um haustið.
    Þetta gefur mér tilefni til þess að ræða það hér enn á ný sem ég held að ræðumenn og hv. þm. íhugi of sjaldan en það er að greina í sundur hallann á fjárlögum íslenska ríkisins. Með sama hætti og aðrir getum við bent á að hallinn er kannski tvenns konar: Annars vegar er kerfislægur halli, þ.e. halli sem er af þeim ástæðum að undirliggjandi vöxtur er í útgjöldum ríkisins, einkum og sér í lagi í velferðarkerfinu vegna aldurssamsetningar þjóðarinnar og vegna þeirra breytinga sem verða á lögum sem sífellt leiða til meiri og meiri útgjalda. Hins vegar er hagrænn halli sem er af ástæðum sem við þekkjum, til að mynda auknum atvinnuleysisbótum og samdrætti í veltu. Sá halli er vonandi einungis tímabundinn. Ástæðan fyrir því að ég greini þennan halla í sundur eru aðgerðir Svía fyrir skömmu en þar var gerð mjög merk tilraun til að skilja þennan halla í sundur. Svíar einhentu sér síðan í að skera niður eða reyna að ná tökum á kerfislæga hallanum því að þeir sögðu að um leið og atvinnulífið fer síðan að snúast þá lagast hagræni hallinn af sjálfum sér. Þetta tel ég að þurfi að koma fram í umræðunni því það hefur þýðingu fyrir starfið sem nú er unnið að og nokkuð hefur verið rætt um undanfarið af ýmsum aðilum, þar á meðal af aðilum vinnumarkaðarins og öðrum sem að því máli koma.
    Hv. þm. spurðist fyrir um það hvar væru hættumörkin fyrir þjóðarbúið og gerði það í tengslum við þær umræður sem farið hafa fram um Svíþjóð og Færeyjar að undanförnu. Auðvitað get ég ekki svarað því frekar en hver annar en það er augljóst að það sem menn þurfa að líta á er hvert stefnir þrátt fyrir það að okkur hafi tekist hér á landi betur en Svíum að ná tökum á ríkisfjármálum sem voru með svipuðu móti fyrir tveimur árum síðan. Ég endurtek að íslensku ríkisstjórninni hefur þó tekist betur en þeim að ná niður hallanum. Ég hika ekki við að segja að hallinn á fjárlagafrv. næsta árs hefði líklega orðið 23--25 milljarðar ef ekkert hefði verið að gert. Í Svíþjóð verður hallinn í ár líklega 23--30 milljarðar, þ.e. samsvarandi halli. Okkur hefur þó tekist að draga úr hallanum en það breytir því ekki að hann er enn fyrir hendi og við erum áfram að safna erlendum skuldum eins og sést á hallanum í viðskiptum við útlönd. Á meðan við erum á þessari leið tel ég að hér sé hættuástand, sérstaklega þegar á sama tíma er ljóst að samdráttur á sér stað í undirstöðuatvinngreinum þjóðarinnar. Það vil ég að komi hér mjög rækilega fram því ég vil ekki með nokkru móti láta fólk álíta að sá árangur sem hefur náðst sé nægilegur. Það er síður en svo. Þess vegna hef ég fengins hendi tekið því þegar hinir og þessir, þar á meðal aðilar vinnumarkaðarins, hafa bent á að víðtæka samstöðu þurfi til að ná tökum á vandanum. Reyndar, og ég ætti kannski að bæta því við, er það íslensk leið.
    Ég rifja það upp að snemma árs 1990 voru gerðir kjarasamningar, þjóðarsáttarsamningar, þar sem forsendum fjárlaga fyrir það ár var algerlega rift. Alveg ný ríkisfjármálastefna kom út úr þeim samningum sem auðvitað voru gerðir af aðilum vinnumarkaðarins. Ríkisstjórnin samþykkti þá samninga og stjórnarandstaðan, a.m.k. hluti hennar sem er í mínum flokki, Sjálfstfl., fagnaði þeirri víðtæku samstöðu. Nú eru mál á þann veg að enn þarf á slíkri samstöðu að halda og það er ekki nýtt að þeir sem fyrstir bregða á leik og reyna að ná tillögum, sem síðar verða til umræðu, eru aðilar vinnumarkaðarins því að allir vita að kjarasamningar eru einhverjar stærstu efnahagsákvarðanir sem nokkur þjóð þarf að taka.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir ræddi um vexti. Ég ætla ekki að vera langorður um vexti. Vextir hafa lækkað hér ef tekið er t.d. heilt ár, þeir hafa lækkað á síðari hluta ársins. Þeir sveiflast að vísu nokkuð til og frá en þeir eru lægri en þeir voru áður. Því til viðbótar er rétt að það komi fram að vextir hér

eru ekki hærri en á Norðurlöndum og ekki hærri en þeir finnast við svipaðar aðstæður í jafnlitlum hagkerfum og íslenska hagkerfið er. Hins vegar eru vextir í stærri hagkerfunum lægri eins og í Bandaríkjunum, t.d. á skammtímaskuldbindingum í Bandaríkjunum. En það er munur á vöxtum á skammtímaskuldbindingum þar og langtímaskuldbindingum.
    Hv. þm. gerði, eins og fleiri, athugasemd við 11. gr. og minntist þar sérstaklega á Húsfriðunarsjóð ef ég man rétt og taldi að mjög illa væri við hæfi að skerða þann sjóð nú. Ég tel ástæðu til þess að það komi fram nú að í 6. gr. fjárlaga yfirstandandi árs var heimild til þess að kaupa Húsið á Eyrarbakka. Það hefur verið gert og sú upphæð sem í það fór er miklu hærri upphæð en þessari skerðingu nemur. Reyndar hefur ríkið gert samning við heimaaðila og Þjóðminjasafnið um rekstur hússins í framhaldi af því. Þessi tala ein og sér hefur ekki þýðingu. Við verðum einnig að skoða þau útgjöld sem ríkið verður fyrir á 6. gr. fjárlaga. Þegar upp er staðið fara meiri fjármunir til þessara mála en lögbundið framlag til Húsfriðunarsjóðs er í raun. Það vil ég láta koma fram og ætla alls ekki að gera lítið úr þeim húsum sem hv. þm. gerði að umtalsefni sem voru á Tanganum á Ísafirði og hús á Hofsósi ef ég man rétt.
    Um viðaukann vil ég einungis segja að í ræðu minni kom fram hvernig stæði á þessum viðauka og til hvers hann var settur fram. Ég veit ekki hvort ég á að lesa aftur þann kafla ræðu minnar. Ég held að það sé mönnum hvorki til skemmtunar né fróðleiks en þar var sagt að hér væri verið að gera tillögu um það hvernig skipta ætti fjármunum á milli innlendra og erlendra lána og fyrir því voru færð rök í ræðu minni sem ég vonast til að hv. þm. hafi heyrt. ( Gripið fram í: Það dugar.) Það dugar, heyri ég að er kallað úr sal.
    Þá var einnig spurt um yfirdráttinn hjá Seðlabankanum, hvort hann væri skynsamlegur við núverandi aðstæður. Ég skal alveg viðurkenna það að sem fjmrh. er það auðvitað dálítið freisting fyrir mig að hugsa sem svo: Kann nú ekki að vera þægilegra að geta hlaupið yfir götuna til Jóhannesar og þeirra sem þar eru og sagt: Getið þið ekki hjálpað okkur því að nú er komið í óefni? Ég veit að það er miklu einfaldara. En það leysir engin vandamál og sannast sagna hygg ég að við verðum að átta okkur á því að alls staðar, a.m.k. í löndunum í kringum okkur, er þetta gert öðruvísi.
    Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að verðbréfamarkaðurinn sé þróaður og að á hverjum tíma sé vaxtastigið ljóst sem á markaðnum er. Ég held að stærstu mistök fyrrv. ríkisstjórnar hafi verið að átta sig ekki á því hvað var að gerast á síðstu sex mánuðum á starfstíma þeirrar ríkisstjórnar þegar skráðir vextir voru í engum takti við það sem var að gerast í raunveruleikanum og stórkostlegar skuldir söfnuðust upp hjá Seðlabankanum með þeim afleiðingum sem allir þekkja, að næsta ríkisstjórn varð að stórhækka vextina til að byrja með til að ná tökum á þessum málum því að annars hefði stefnt þráðbeint í gengisfellingu síðari hluta síðasta árs.
    Hv. þm. Halldór Ásgrímsson ræddi um nokkur atriði sem ég sé ekki ástæðu til þess að gera að miklu umtalsefni og reyndar hefur sumu af því sem hann sagði þegar verið svarað því að þar var um sömu atriði að ræða og aðrir hv. ræðumenn höfðu fjallað um.
    Loks kem ég að þeim þætti sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi, þ.e. vegamálin. Ég verð þó að byrja á því að segja að þessi mál voru til umfjöllunar í umræðum um fjáraukalög. Þar var nákvæmlega sömu fyrirspurnum beint til mín af hálfu annars hv. þm. Ég svaraði því þar og það svar er reyndar til í ræðu minni frá þeim tíma. Ég á þá ræðu og sá kafli er örstuttur og ég skal flytja hann aftur af því að það hefur kannski farið fram hjá mönnum. Þar sagði, með leyfi forseta:
    ,,Innan tíðar verður lögð fram tillaga til þál. og í þeirri tillögu mun verða ráðgert að breyta útgjaldafjárheimildum Vegagerðarinnar á yfirstandandi ári þannig að 50 millj. kr., sem ætlaðar voru til snjómoksturs, gætu gengið til kostnaðar vegna útboðanna. Sum útboðin eru um framkvæmdir sem eru á vegáætlun og þær framkvæmdir verða að sjálfsögðu greiddar af fjármunum á næsta ári.`` --- Hér ætti að standa: af þeim fjármunum á næsta ári.--- ,,Hins vegar verður settur sá fyrirvari í samninga við viðkomandi aðila, sem taka að sér verkið, að greiðslur koma ekki fyrr en fjárlög hafa verið samþykkt.`` Ég skýt því hér inn að þetta gildir auðvitað um framkvæmdirnar sem ekki eru á vegáætlun. ,,Það hefur verið haft samband við Ríkisendurskoðun um framkvæmd málsins og gengið þannig frá málinu að Ríkisendurskoðun sættir sig við.``
    Þetta vildi ég láta koma fram vegna þess að fjmrn. gerði auðvitað athugasemdir við það að útboð skyldu fara fram með þessum hætti. Með því að leggja hér fyrir þáltill. og ganga þannig frá samningum tel ég að komið sé til móts við þau eðlilegu viðhorf að lögum sé fylgt í hvívetna.
    Loks um það sem mér finnst allt of oft heyrast hér en það er að bera saman fjármagn til vegagerðar við vegáætlun. Um það vil ég að lokum fá að segja þetta: Rétt fyrir síðustu kosningar stóðu allir þingmenn að því að samþykkja nýja vegáætlun. Þetta var auðvitað gert í þeirri bjartsýni sem menn stóðu þá frammi fyrir, töldu að væri allt að batna í okkar efnahagsmálum. Það er alveg hárrétt að við erum að skerða fjármuni sem eiga að renna til vegamála ef fylgja ætti þeirri vegáætlun. Sé hins vegar miðað við framkvæmdir sem voru á síðustu árum, þar á meðal síðasta ári og árunum þar á undan, þarf sá sem hér stendur ekki að roðna þegar hann ber framkvæmdirnar á yfirstandandi ári og næsta ári saman við þær framkvæmdir sem þá fóru fram og þá fjármuni sem fóru til vegamála á þeim tíma. Sannleikurinn er nefnilega sá að, þótt við tökum þessar 1.800 millj. kr. frá sem mér finnst ósköp eðlilegt að gert sé, þá fer samsvarandi upphæð til vegamála á næsta ári og á síðasta ári. Það er að vísu heldur meira sem fer á næsta ári en

á síðasta ári þegar búið er að setja þetta á fastan verðmælikvarða. En þá ber að taka tillit til þess að ferjur og flóabátar fá 330 millj. kr. eða þar um bil. Ef ég tek þá tölu frá einnig er upphæðin nánast sú sama. Það munar 2--3 tugum milljóna á því sem á að fara til vegamála á næsta ári og fór til vegamála árið 1991. Þetta vildi ég að kæmi fram því að það skiptir auðvitað máli við hvað er miðað.
    Ég skal fyrstur manna viðurkenna að við erum að skerða fé til vegáætlunar eins og hún var samþykkt og ég tel dyggð að gera það við núverandi aðstæður. Ég skal líka segja það hér, eins og ég hef reyndar sagt áður að hér er um að ræða hröðun á framkvæmdum, þessar 1.800 millj. kr. eiga að hraða framkvæmdum. Það er vegna þess að við vonumst til þess að eftir örfá ár verði efnahagsaðstæður hér betri og auðveldara að draga þá úr fjárfestingum í vegagerð en aðrar fjárfestingar komi í staðinn og þannig sé hægt að endurgreiða þessa fjármuni. Af minni hálfu er það skilyrði fyrir því að þessi lán séu tekin að þau endurgreiðist af vegfé í framtíðinni. Ég vil bæta því við að ef Alþingi ætlar að auka á hallann með samþykktum, sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlagafrv., hljóta þessar 1.800 millj. kr. líka að verða skoðaðar ef skera á niður útgjöld samkvæmt frv. Það er því allt undir.