Lánsfjárlög 1993 o.fl.

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 18:56:46 (1728)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var nú dálítið sérkennileg þessi ef-ræða hér hjá hæstv. fjmrh., þessi þáskildagatíðarræða. Það var ,,ef þetta og ef hitt hefði ekki gerst hefði þetta nú e.t.v. orðið í lagi``. Ef ekki hefði verið hætt við álver og ef ekki hefði minnkað þorskafli og ef ekki hefðu verið útgjöld vegna kjarasamninga, þá kannski . . .   Þetta minnir mig á það þegar við vorum að burðast við að læra þýskar sagnir og beygja þær í tíðum. Þá lærði maður ýmislegt í þáskildagatíð og setti upp langar formúlur eins og þessa: Wenn Sie früher gekommen wären, hätte ich Ihnen helfen können. Þ.e. ef þér hefðuð komið fyrr hefði ég kannski getað hjálpað yður. Þetta var þannig ræða hjá hæstv. fjmrh., ef, þá, kannski. Hún sannfærir mig ekki mikið í sjálfu sér og þjónar ekki miklum tilgangi enda er hæstv. fjmrh. orðinn allmiklu hógværari nú í sínum málflutningi um forsendur fjárlaga.
    Um þjóðarsáttina frá 1990 ætla ég ekki að segja margt en við skulum fara út í þann samanburð, hæstv. fjmrh., þegar búið verður að reyna á það hvort eitthvað slíkt gerist hér á næstunni eða ekki.
    Um vegamálin að allra síðustu verð ég að segja eins og er að óskaplega er þetta neyðarleg ,,redding`` ef svo má að orði komast, með leyfi forseti, að ætla að reyna að afla heimildar eftir á, gera vitleysuna löglega eftir á með því að flytja hér þáltill. þegar augljóslega er búið að stofna til kostnaðarins áður. Með því er í raun og veru verið að viðurkenna að þetta hafi ekki gengið án sérstakrar heimildar. Þetta var ekki heimilt. Þess vegna verður þáltill. væntanlega flutt eins og til þess að gera lögleysuna löglega eftir á. Þetta er auðvitað óskaplega neyðarleg og dapurleg útkoma, hæstv. fjmrh., sem við skulum báðir tveir hafa sem fæst orð um.