Lánsfjárlög 1993 o.fl.

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 18:58:53 (1729)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. fyrir þýskukennsluna. Það er alltaf jafnánægjulegt að heyra hana hljóma aftur og aftur. ( Gripið fram í: Hann er nú ekki síðri í dönskunni.) Nei, ég veit að í öllum tungumálum er hann mjög góður og flinkur ræðumaður, alveg sama í hvaða máli borið er niður. Varðandi vegamálin hygg ég að enn hafi ekki verið lagt út í kostnað umfram það sem lög leyfa. Kostnaðurinn kemur fyrst og fremst þegar greiða þarf verktökunum fyrir fram nokkrar milljónir. Þingið verður beðið um leyfi til að fært verði frá snjómokstri og yfir í þessar fyrstu greiðslur. ( Gripið fram í: En ef það snjóar mikið.) Það er talið að jafnvel þótt snjói verulega fram að áramótum sé til nægilegt fé því að sparnaðurinn hafi komið fram á fyrstu mánuðum ársins. Síðan hefur það verið samþykkt að í samningana, og áður en þeir verða gerðir, verði settir þessir ákveðnu fyrirvarar. Ég skal hins vegar viðurkenna að það hefði ugglaust verið betri röð á hlutunum að koma fyrst fram með þáltill., fá hana samþykkta og síðan að bjóða út. En betra seint en aldrei. Því til viðbótar hefur það þýðingu fyrir verktakana að vita nokkurn veginn við hverju þeir megi búast í vetur. Að öðrum kosti hefðu þeir hiklaust sagt upp því fólki sem hefði unnið við þessar framkvæmdir þegar kemur fram á vetur.