Lánsfjárlög 1993 o.fl.

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 19:00:45 (1730)


     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er eingöngu að ræða þessi mál á þeim forsendum hvernig eðlilega hefði átt að standa að ákvarðanatöku og framkvæmdum á þessu sviði. Ég er efnislega sammála hæstv. fjmrh. að það er æskilegt að hægt sé að ráðast sem fyrst í þessar framkvæmdir og hefur sína kosti að geta nýtt sér núverandi ástand á verktakamarkaði. En þetta er ekki réttur framgangsmáti, hæstv. fjmrh.
    Það sem þarna er að gerast er að það er verið að taka ákvarðanir um allt aðra framkvæmdaröð verkefna í vegamálum sem á lögum samkvæmt að takast af Alþingi. Það stendur í 10. gr. vegalaga, ef ég man rétt, að samgrh. leggur fram vegáætlun sem er rammaáætlun um útgjöld í vegamálum og Alþingi við meðferð ályktunarinnar skiptir þeim fjármunum niður á einstök verk. Þetta stendur í lögum. Þar til viðbótar koma svo öll önnur lagaákvæði sem gera það að verkum að það er óheimilt að skuldbinda ríkið um útgjöld o.s.frv., nema fjárheimildir séu fyrir hendi. Þetta þekkjum við.
    Síðast alls er ég nú að elta vini mína í Vegagerðinni sem ég veit að af samviskusemi hafa reynt

að gera þetta eins vel og hægt var. En óttast ég að jafnvel þeim af allri sinni ráðdeildarsemi hafi því miður ekki tekist að fara í að mæla út fyrir sumum þessara vega, sem ekki voru inni á vegáætlun, útbúa útboðsgögn, prenta þau, ganga frá þeim, senda þau út og auglýsa útboðin án þess að það kosti peninga. Ég efast um að þeir hafi náð að gera þetta allt í sjálfboðavinnu. Þar með er í raun og veru beinlínis búið greiða fjármuni út sem ekki voru heimildir fyrir vegna verka sem ekki voru á samþykktri vegáætlun.
    Það er mjög miður, hæstv. fjmrh. Ég ætla ekki að gera þetta að stóru máli að öðru leyti. Mér þykir bara dapurlegt að svona skyldi takast til. Og ég held að við séum allir menn að meiri að viðurkenna að þetta var ólánlegt og við skulum ekki láta þetta endurtaka sig.