Lánsfjárlög 1993 o.fl.

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 19:17:46 (1733)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir það með hæstv. fjmrh. að því miður eru þessar umræður aðila vinnumarkaðarins ekki komnar eins langt og maður hefði ætlað, í það minnsta ef menn fylgjast með fjölmiðlum. Ég verð því miður einnig, virðulegur forseti, að segja að ég efast stórlega miðað við yfirlýsingar hæstv. forsrh. margítrekað undanfarið þess efnis að ríkisstjórnin verði að hafa úthald til þess að standa við þá stefnu sem hún hefur fylgt fram að þessu, að um skjótar aðgerðir ríkisstjórnar verði að ræða ef ekki koma tillögur frá aðilum vinnumarkaðarins. Verði komið undir áramót þegar kemur að slíkri ögurstund sé ég ekki hvernig á að koma öllu því fram á Alþingi sem þarf í tengslum við fjárlagagerð og skattamál fyrir árslok og hvernig atvinnulífið hefur úthald til að bíða eftir þeim aðgerðum.