Lánsfjárlög 1993 o.fl.

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 19:19:14 (1734)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi sagt það í framsöguræðu minni með fjárlagafrv. að tímarnir væru nokkuð breyttir. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við getum ekki gert ráð fyrir því að fjárlagafrv. sé afgreitt bara einu sinni á Alþingi einhvern tímann rétt fyrir jól og síðan liggi allt kjurt þar til næsta samþykkt verður gerð. Þvert á móti hljótum við í hverjum mánuði, í hverri viku, jafnvel á hverjum degi að þurfa að taka ákvarðanir sem miðast við þær hröðu breytingar sem eru að verða á efnahagslífi þjóðarinnar. Þetta veldur því að umræður innan þings og utan eru með öðru sniði en oft áður. Sem betur fer er víðtækur skilningur og reyndar stuðningur við að gera verulegar breytingar á efnahags- og atvinnulífi landsmanna.
    Ég er hins vegar sammála hv. þm., hafi ég skilið hann rétt, að það mun tryggja betri árangur ef slík víðtæk samstaða verður grundvölluð á tillögu sem aðilar vinnumarkaðarins hafa í upphafi komið sér saman um því langsamlega stærsta efnahagsaðgerðin sem Íslendingar standa frammi fyrir er þegar kemur að kjarasamningum og það eru einmitt þessir aðilar sem gera kjarasamninga.