Lánsfjárlög 1993 o.fl.

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 19:22:10 (1736)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þótt ástandið sé slæmt þá er það ekki alslæmt, ekki einu sinni í tekjumálum ríkisins. Við eigum allar upplýsingar. Frv. grundvallast á ákveðnum breytingum og það er ekki gert ráð fyrir að þær séu miklar. Ég vek áthygli á því að þær breytingar sem þarf hugsanlega að gera á virðisaukaskattkerfinu þarf ekki að binda við áramót. Einungis það sem er bundið við tekjuskattinn hefur verið álitið að þurfi að gera breytingarnar fyrir áramót þannig að ekki verði um afturvirkni að ræða. Alþingi Íslendinga hefur oftsinnis og ekki síst í kjölfar víðtækrar samstöðu afgreitt slíkar breytingar á örskömmum tíma. Takist það ekki verður það auðvitað geymt yfir áramótin. En ég hef fulla trú á að okkur takist í sameiningu, stjórnarandstöðunni og ríkisstjórn, að koma nauðsynlegum breytingum til skila í tæka tíð.