Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Mánudaginn 02. nóvember 1992, kl. 14:32:19 (1747)

     Flm. (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir góðar undirtektir við þetta mál og fagna því að það er í fyrsta sinn frá því að ég flyt frv. að ég fæ góðar undirtektir úr þessari átt, frá hans ágæta flokki og ég vona að ég njóti þar víðtækari stuðnings í þessu máli.
    Ég þakka hv. samflutningsmanni mínum fyrir hans ræðu og tek undir brýningu hans til formanns efh.- og viðskn. um að hann liggi ekki á málinu heldur afgreiði það fljótt og hratt í gegnum nefndina.
    Við umræður um daginn talaði hv. þm. Steingrímur Hermannsson og studdi málið og ég flyt honum og þakkir. Ég get hins vegar því miður lítið þakkað hæstv. viðskrh. fyrir þau orð sem hann lét falla um málið. Hann er enn við sama heygarðshornið og víkur ekki frá villu síns vegar. Nú gleymdi hann alveg vorboðanum sem hann líkti frv. mínu við sl. vetur.
    Hæstv. ráðherra sagði að vandamálið sem frv. mínu er ætlað að takast á við hafi verið ýtt til hliðar enda sé verðbólga hér minni en í flestum Evrópulöndum. Vandamálið hefur verið leyst á annan hátt, sagði hæstv. ráðherra. En hvernig? leyfi ég mér að spyrja. Það var leyst með fjöldagjaldþrotum fyrirtækja og heimila sem vaxtaokrið og skuldauppsöfnin olli. Slíkan hrunadans þolir íslenska þjóðin ekki öðru sinni. Þeir sem líta fram hjá þessu eru menn sem neita að horfast í augu vð staðreyndir. Ráðherrann kvað lög vera í undirbúningi þess efnis að verðtrygging verði háð samningum milli lántakenda og lánveitenda. Hinn síðarnefndi, lánveitandinn, getur sett verðtryggingu sem skilyrði fyrir láninu. Verðtryggingin yrði því í reynd áfram lögþvinguð. Ég undirstrikaði þetta um daginn og enn tyggur ráðherrann það sama. Þetta fyrirkomulag gildir ekki í viðskiptalöndum okkar. Það er rangt hjá ráðherranum. Verðtrygging er hvergi við lýði nú nema í löndum rómönsku Ameríku þar sem fjármál öll eru komin í kaldakol. Það er að sjálfsögðu barnaskapur hjá ráðherranum að verðbólga á Íslandi hafi verið sigruð í eitt skipti fyrir öll. Fregnir um stöðugar verðhækkanir einkafyrirtækja og opinbera geirans á síðustu vikum benda til verðbólguþróunar, ekki síst ef launþegasamtök sýna viðbrögð. Þá má verðtrygging fjárskuldbindinga samkvæmt lánskjaravísitölu ekki vera fyrir hendi til að magna að nýju verðbólgu upp í þá ófreskju sem hún varð á árabilinu 1982--1990.